295. fundur 13. febrúar 2025 kl. 16:30 - 18:47 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Heiðdís Björk Jónsdóttir (HBJ)
    Aðalmaður: Garðar Svansson (GS)
  • Ágústa Einarsdóttir (ÁE)
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB)
  • Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund.

Forseti óskaði eftir að tekinn yrði með afbrigðum á dagskrá fundarins dagskrárliðurinn "Ályktun um viðhald þjóðvega á Snæfellsnesi", sem yrði liður 3 á dagskrá. Aðrir liðir færast aftur sem því nemur.

Gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 2205020Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína, sbr. framlagt skjal.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu 2022-2026

Málsnúmer 2205021Vakta málsnúmer

Forseti sagði frá fjarfundi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúa sveitarfélaga á Vesturlandi, sem haldinn var í gær, 12. febrúar, og forseti og bæjarstjóri sátu. Þar kynnti framkvæmdastjóri SSV áherslur og áhyggjur sveitarstjóra á Vesturlandi, ekki síst í samgöngumálum.

3.Ályktun um viðhald þjóðvega á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2009014Vakta málsnúmer

Enn á ný ræðir bæjarstjórn um samgöngumál og ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar, þar sem ástandið hefur aldrei verið verra. Á það ekki síst við í næsta nágrenni Grundarfjarðar, á Snæfellsnesi og langleiðina suður í Borgarnes.



Á síðasta fundi bæjarstjórnar var gerð samþykkt um alvarlegt ástand þjóðvegarins og var bæjarstjóra falið að óska eftir fundi með nýjum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



Ennfremur var í gær haldinn fjarfundur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúa sveitarfélaga á Vesturlandi, um samgöngumál, eins og fram hefur komið.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar ítrekar fjölmargar fyrri bókanir sínar, sbr. t.d. bókun frá 12. mars 2024 og 16. janúar 2025, svohljóðandi, með viðbót:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir enn og aftur yfir þungum áhyggjum af síversnandi og hættulegu ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir notendurna. Á það jafnt við um íbúa, gesti, atvinnubílstjóra og neyðarflutninga.
Jarðsig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, slitlag er gróft og bútakennt eftir áralangar holufyllingar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og víða eru vegir of mjóir. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál.

Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til vegagerðar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega. Í þeim liggja mikil verðmæti sem fara forgörðum, sé viðhaldi þeirra ekki sinnt.

Síðustu daga, í febrúar 2025, hefur Vegagerðin unnið við að moka tjöru af ?blæðandi? þjóðvegum á Snæfellsnesi. Fjölmargir akandi vegfarendur hafa orðið fyrir óþægindum og tjóni á ökutækjum sínum, vegna ástands þjóðveganna, þegar þykk tjara leggst á hjólbarða og aðra fleti bifreiða. Slíkt er ekki einungis hvimleitt, heldur er umferðaröryggi stórlega ógnað, auk þess sem þetta hefur þegar valdið eigendum ökutækja fjárhagstjóni.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar felur bæjarstjóra að senda erindi til Samgöngustofu. Með vísan í 5. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, um eftirlitshlutverk Samgöngustofu með samgöngumannvirkjum, óskar bæjarstjórn eftir áliti stofnunarinnar á því hvort kröfum um öryggi samgöngumannvirkja sé fullnægt á þjóðvegum nr. 54 og 56.

Samþykkt samhljóða.

4.Bæjarráð - 632

Málsnúmer 2501007FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 632. fundar bæjarráðs.
  • Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu út árið 2024.
    Bæjarráð - 632
  • Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu frá 1. janúar 2025.
    Bæjarráð - 632
  • 4.3 2402013 Greitt útsvar 2024
    Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-desember 2024. Bæjarráð - 632 Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar hjá Grundarfjarðarbæ hækkað um 5,6% miðað við sama tímabil í fyrra. Á landsvísu var hækkunin 9,8%.
  • 4.4 2406017 Launaáætlun 2024
    Lagt fram yfirlit yfir raunlaun og áætlun fyrir tímabilið janúar-desember 2024.

    Bæjarráð - 632 Útgreidd laun árið 2024 eru undir launaáætlun ársins, eða um 95% af áætlun ársins 2024.
  • Íbúðin að Hrannarstíg 36 var auglýst til sölu í byrjun janúar sl.
    Ásett verð var 39,5 millj. kr. og í auglýsingu kom fram nánari lýsing fasteignarinnar og skilmálar sölunnar.

    Bæjarráð - 632 Í desember sl. fól bæjarráð bæjarstjóra umboð til að auglýsa og annast framkvæmd sölu íbúðarinnar,

    Bæjarstjóri upplýsir bæjarráð um gang mála.

    Tilboð voru opnuð 22. janúar sl. og bárust tvö tilboð, annað uppá 34 millj. kr. og hitt 34,5 millj. kr.

    Gert er gagntilboð til þess bjóðanda sem átti hærra tilboðið af tveimur og hefur viðkomandi frest til 4. febrúar nk. til að bregðast við því.

  • Sigurður Gísli Guðjónsson víkur af fundi.

    Lögð fram beiðni skólastjóra grunnskólans um 70% aukið stöðugildi í janúar-júní 2025 vegna aukinnar stuðningsþarfar nemenda.

    Bæjarráð - 632 Bæjarráð samþykkir framlagða beiðni.


    Sigurður Gísli tók aftur sæti sitt á fundinum.
    Bókun fundar SGG vék af fundi undir þessum lið.
  • 4.7 2501025 Framkvæmdir 2025
    Undir þessum dagskrárlið eru gestir fundarins, gegnum fjarfund, þau Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi, Nanna Vilborg Harðardóttir verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála bæjarins og Sigurjón Bjarni Bjarnason hjá VSÓ.
    Bæjarráð - 632 Bæjarstjóri leggur fram yfirlit yfir helstu verkefni ársins og atriði sem snerta undirbúning þeirra.
    Farið yfir eftirfarandi verkefni og er umræða skráð undir hverjum lið.


    - Íþróttahús og tengigangur

    Fyrir liggur uppfært ástandsmat hússins og áætlun um viðgerðir, sem felast aðallega í að klæða húsið, þakviðgerð, gluggaskiptum o.fl. Á síðustu 2-3 árum hefur verið skipt um glugga og hurðar og unnið að steypuviðgerðum.
    Unnið er að undirbúningi heildarútboðs framkvæmda við endurbætur hússins, á grunni nýs ástandsmats, sem ætlunin er að verði auglýst á næstu vikum.
    Í fjárhagsáætlun 2025 er gert ráð fyrir fjármunum til hluta af þeim viðgerðum sem gera þarf á húsinu.
    Rætt um þá útfærslu að bjóða út heildarframkvæmdina og hafa verktíma lengri tíma en bara árið 2025.
    Bæjarráð felur Sigurði Val að leggja fram tillögu, í samvinnu við VSÓ, um skiptingu verks niður á lengra tímabil, með útboð í huga. Tillagan verður lögð fyrir bæjarstjórn.


    - Sögumiðstöðin, Grundargötu 35

    VSÓ vinnur að ástandsmati hússins, og kynnti Sigurjón Bjarni bráðabirgðaniðurstöður. Á liðnu ári var farið í endurbætur á veggjum og þaki, vegna mikilla rakaskemmda í suðurhluta hússins. Mikilvægt er fyrir bæjarstjórn að hafa góða yfirsýn yfir ástand hússins og þörf fyrir endurbætur, til að geta gert sér grein fyrir kostnaði og til að geta forgangsraðað verkefnum.


    Hér vék Sigurjón Bjarni af fundi og var honum þakkað fyrir yfirferðina.


    - Spennistöðvarhús, efst við Borgarbraut

    Sigurður Valur sagði frá skoðun á húsinu, sem hugmyndir hafa verið uppi um að nýta í einhverja starfsemi.
    Bærinn fékk eignaryfirráð hússins fyrir nokkrum árum og hefur nýtt það mest sem geymslurými.
    Verið er að skoða ástand húss til að bæjarstjórn geti metið hve mikla fjármuni borgi sig að leggja í viðgerðir.


    - Geymslusvæði við Ártún 8

    Sigurður Valur sagði frá framkvæmdum á svæðinu, þar sem ætlunin er að hafa geymslusvæði á vegum bæjarins. Gerð var verðkönnun fyrir áfanga 1, jarðvinnu, og áfanga 2, uppsetningu öryggisgirðingar.

    Björg sagði frá helstu framkvæmdum hafnarinnar, sem eru í skipulagsmálum og bygging þjónustuhúss, sem verður viðbygging við núverandi hafnarhús. Húsið er ætlað fyrir þjónustu við gesti skemmtiferðaskipa (wc, upplýsingar o.fl.), fyrir starfsfólk sem kemur að skipamóttöku, s.s. bílstjóra, leiðsögufólk o.fl., auk þess sem í húsinu verður viðbótarrými fyrir starfsmenn hafnarinnar. Ætlunin er að húsið rísi og verði tilbúið að mestu fyrir komandi sumar.

    Hér vék Sigurður Valur af fundi og var honum þakkað fyrir yfirferðina.


    Nanna tók við og sagði frá eftirfarandi verkefnum, sem hún heldur utan um:

    - Undirbúningur framkvæmda við gangstéttar, stíga og göturými

    Nanna sýndi yfirlitsmynd yfir helstu framkvæmdasvæði í götum/gangstéttum, en verið er að undirbúa þær framkvæmdir ársins. Ætlunin er að ljúka hellulögn við malbikaðar gangstéttar, steyptum gangstéttum og blágrænum beðum í neðanverðum Hrannarstíg, gangstíg við Fellaskjól, o.fl.
    Einnig er ætlunin að endurnýja steyptar gangstéttar og var rætt um gangstéttar þar sem mest þörf er fyrir endurnýjun. Bæjarráð var sammála um forgangsröðun og er þetta til áframhaldandi vinnslu.

    - LIFE Icewater, verkefni við sjálfbærar fráveitulausnir, verkefni 2025-2030

    Nanna sýndi yfirlit og fór yfir þau verkefni, sem ætlunin er að vinna í samræmi við verkefnisáætlun sem hlotið hefur stóran fjárstyrk úr LIFE áætlun Evrópusambandsins.

    - Skólalóð grunnskóla

    Nanna sagði frá undirbúningi að framkvæmdum á skólalóð grunnskólans, sem hún er að undirbúa með skólastjóra grunnskóla, íþróttafulltrúa o.fl. Tekið verður fyrir svæðið kringum sandkassa og þar norður úr, en áhersla er á að bæta leiksvæðið með þarfir yngstu barnanna í huga. Einnig er ætlunin að bæta gróður á skólalóð.

    Bæjarráð þakkaði Nönnu fyrir komuna og yfirferð verkefna á fundinum.
  • Lögð fram ársskýrsla slökkviliðsstjóra 2024, en skýrslan er send HMS og bæjarstjórn.
    Bæjarráð - 632 Bæjarráð þakkar fyrir ársskýrsluna. Til hefur staðið að hitta slökkviliðsstjóra til yfirferðar yfir málefni slökkviliðs og er stefnt að því á næstunni.
  • Lögð fram úttekt HMS á Slökkviliði Grundarfjarðar, gerð í september 2024, send bæjarstjórn með bréfi dags. 3. janúar 2025, þar sem óskað er svara eða viðbragða bæjarstjórnar. Einnig svör/viðbrögð slökkviliðsstjóra, sem lágu fyrir á fundi bæjarstjórnar 16. janúar sl.

    Bæjarstjórn vísaði málinu til skoðunar/umræðu í bæjarráði.

    Bæjarráð - 632 Lögð fram drög bæjarstjóra að svörum bæjarráðs vegna þeirra atriða sem HMS gerir athugasemdir við.

    Bæjarráð samþykkir drög að svörum til HMS, að viðbættum frekari upplýsingum sem bæjarráð óskar eftir frá slökkviliðsstjóra.
  • Hér vék Ágústa af fundi.

    Lagt fram bréf frá Gerum það núna ehf., en bæjarstjórn fól fulltrúum að funda með fyrirtækinu skv. þeirra ósk í erindinu þar sem farið er fram á að fá afnot af húsnæði Sögumiðstöðvar.

    Mánudaginn 20. janúar sl. áttu fulltrúar bæjarstjórnar, bæjarfulltrúarnir Sigurður Gísli og Garðar, auk bæjarstjóra, fund með bréfriturum.

    Bæjarráð - 632 Sigurður Gísli sagði frá efni þess fundar.

    Bæjarstjóri sagði frá því að menningarnefnd hefði fundað og einnig rætt um nýtingu húss Sögumiðstöðvarinnar, án þess þó að ræða um erindið sem hér er á dagskrá.

    Bæjarráð tekur vel í þá hugmynd, sem fram kemur í erindinu, að húsnæði Sögumiðstöðvar verði nýtt í starfsemi sem eykur menningu, afþreyingu og líf í húsinu. Er þá til grundvallar sú forsenda, að reglulegt félagsstarf í húsinu liggur að mestu niðri að sumarlagi - en skoða þarf þó hagsmuni annarrar starfsemi, einkum bókasafns.

    Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að skoðað verði hvort nýta megi húsið og/eða leigja það út með skilyrðum, yfir sumartímann (júní-ágúst), með fyrirvara um umsögn menningarnefndar. Verði það gert, yrði það auglýst opinberlega með fyrirfram ákveðnum skilmálum.

    Bókun fundar ÁE vék af fundi undir liðum 4.10 og 4.11.

    Eins og fram kom á fundum í lok síðasta árs er nú unnið að mati á ástandi helstu bygginga í eigu bæjarins, m.a. á húsnæði Sögumiðstöðvar. Er það gert til að bæjarstjórn geti haft betri yfirsýn yfir raunverulegt ástand hússins, viðgerðarþörf og kostnað við viðgerðir.

    Bæjarstjóri sagði frá minnisblaði sem unnið er að um ástand hússins og helstu viðgerðir sem ráðast þarf í, áætlun um kostnað, o.fl. Málið var kynnt á síðasta fundi bæjarráðs.

    Bæjarstjórn telur að taka þurfi ákvörðun um nýtingu og mögulega útleigu húss með hliðsjón af þörf fyrir endurbætur hússins og líklegum framkvæmdatíma. Málið er áfram til vinnslu hjá bæjarráði.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lagt fram erindi Gerum það núna ehf. um afnot af lóð á miðbæjarreit fyrir afþreyingu. Bæjarráð - 632 Bæjarráð leggur til að erindið fari til umsagnar í skipulags- og umhverfisnefnd.

    Hér tók Ágústa aftur sæti á fundinum.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.

    ÁE tók aftur sæti sitt á fundinum.
  • Lagt fram erindi Kvenfélagsins Gleym-mér-ei, dags. 29. janúar 2025, um fjárstuðning til að koma upp íslenskum skautbúningi, sem Kvenfélagið vinnur nú að.

    Bæjarráð - 632 Bæjarráð telur verkefnið vera sérstaks eðlis og þakkar Kvenfélaginu fyrir framtakið. Bæjarráð þiggur boð um að búninginn megi nota við merkisathafnir í samfélaginu, sem snerta starfsemi bæjarins, eins og t.d. á þjóðhátíðardegi.

    Samþykkt að veita 250.000 kr. styrk úr Uppbyggingarsjóði menningar- og íþróttamála til verkefnisins.
  • Bæjarstjóri fór yfir stöðu verkefnisins.
    Bæjarráð - 632 Þann 16. janúar sl. var kveikt á varmadælum, þremur af fimm, til húshitunar í íþrótta- og skólamannvirkjum bæjarins. Verið er að prufukeyra kerfið en vel hefur gengið, að mestu, að halda hita á mannvirkjunum og hefur sundlaug m.a. verið í fullri kyndingu enn sem komið er.

    Varmadælurnar vinna orku úr varma í jörðu, úr borholum rétt sunnan við íþróttahúsið, en þær voru boraðar sumarið 2023. Holurnar eru tengdar við fimm varmadælur, sem sjá um að vinna orku úr varmanum og dreifa henni í kyndilagnir mannvirkjanna.

    Fylgst verður grannt með raforkunotkun á næstu vikum.

    Bæjarstjóri sagði frá því að verið sé að undirbúa kynningu á þessu verkefni "á mannamáli", þar sem reynt er á einfaldan og myndrænan hátt að útskýra verkefnið og breytinguna sem felst í orkuskiptunum.

    Bæjarráð fagnar þessum ánægjulega áfanga.

  • Lögð fram til kynningar eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vesturlands vegna úttektar á Leikskólanum Sólvöllum.
    Bæjarráð - 632 Gerðar eru athugasemdir við tvö atriði, þ.e. fallundirlag undir rólum í stóra garðinum og móttökueftirlit með vörum.

    Hugað verður að endurbótum á fallundirlagi við rólur á komandi sumri.

    Auk þess er ábending um gólfdúk í eldhúsi. Bæjarstjórn hefur gert ráð fyrir fjármunum í fjárhagsáætlun 2025 til að skipta um gólfefni í eldhúsi og er ætlunin að það verði gert í sumarlokun leikskólans.

    Brugðist hefur verið við öðrum atriðum.
  • Lögð fram til kynningar eftirlitsskýrsla slökkviliðsstjóra dags. 7. janúar 2025, vegna eldvarnaeftirlitsskoðunar á samkomuhúsinu.
    Bæjarráð - 632 Búið er að bæta úr þeim atriðum sem gerð var athugasemd við í úttektinni.

    Bent var á að neyðarlýsingu væri gott að hafa í húsinu, en það eru sílogandi ljós í loftum.

  • Lagt fram til kynningar minnisblað Consello ehf. með yfirlit um gjöld vegna trygginga og um tjónasögu síðustu ár, en VÍS er vátryggingarfélag Grundarfjarðarbæjar.

    Bæjarráð - 632
  • Bæjarráð - 632 Lögð fram tilkynning frá Almannavarnanefnd Vesturlands, dags. 23. jan. 2025.

    Þar kemur fram að Almannavarnanefnd Vesturlands, ásamt fulltrúum Lögreglustjóraembættisins á Vesturlandi, fundaði með sérfræðingum frá Veðurstofu Íslands og almannavörnum þriðjudaginn 21. janúar sl. vegna aukinnar jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Mýrum sem er innan eldstöðvarkerfis Ljósufjalla á Snæfellsnesi.

    Á fundinum fengu fulltrúar í Almannavarnarnefnd Vesturlands góða kynningu á stöðu mála og fengu viðbrögð við þeim vangaveltum sem á fulltrúum landshlutans brunnu.

  • Lagt fram minnisblað verkefnisstjóra, dags. 26.11.2024. Bæjarráð - 632
  • Lagður fram Hagvísir Vesturlands, 1. skýrsla 2024, útgefið af SSV, um Aukaíbúðir á Vesturlandi.

    Jafnframt kynnti bæjarstjóri yfirlit frá HMS sem bæjarstjóri óskaði eftir, um aukaíbúðir í Grundarfirði.
    Bæjarráð - 632 Listi HMS sýnir allar þær fasteignir sem byggingarfulltrúar sveitarfélaganna hafa skráð sem íbúðaeignir og sem engar upplýsingar lágu fyrir um fasta búsetu í nóvember 2024, þ.e. þar sem enginn hefur lögheimili og enginn skráður leigusamningur er um íbúðina.

    Samtals eru um 50 íbúðir á þessum lista. Ljóst er að lagfæra þarf skráningu nokkurra eigna, sem t.d. ættu frekar að vera skráð sem atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði.
  • Á fundi Vegagerðarinnar 22. janúar sl. voru kynntar fyrirhugaðar breytingar á leiðakerfi „landsbyggðarstrætós“ fyrir sveitarfélögum á Vesturlandi og á Norðurlandi vestra. Unnið hefur verið að breytingum á almenningssamgöngum og leiðakerfi Strætó um þó nokkurt skeið og m.a. var skólaakstur FSN samþættur við þetta leiðakerfi.

    Bæjarráð - 632 Nú hefur Vegagerðin unnið úr öllum gögnum og kynnti, sem fyrr segir, niðurstöðurnar, sem nú eru á leið í útboð.

    Einnig lagt fram bréf sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og Fjölbrautaskóla Snæfellinga, dagsett í dag, sem er umsögn um tillögu Vegagerðarinnar að nýju leiðakerfi.

    Bæjarráð tekur undir efni bréfsins.

5.Menningarnefnd - 46

Málsnúmer 2409005FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 46. fundar menningarnefndar.
  • 5.1 2408004 Rökkurdagar 2024
    Menningardagskrá Rökkurdaga 2024 rædd.

    Menningarnefnd - 46 Forstöðumaður menningarmála lagði fram drög að dagskrá 2024 sem byggð var á dagskrá 2023.

    Nefndarmenn ræddu hvern lið fyrir sig. Breytt og bætt var það sem þurfti. Tekin var ákvörðun um að bóka Guðrúnu Árnýju fyrir "sing-along" á Rökkurdögum 2024. Einnig var tekin ákvörðun um að bóka Steinunni úr hljómsveitinni Amadabama til að sjá um rit- og rímsmiðju á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2024, sá liður fellur inn í dagskrá Rökkurdaga.

    Rökkurdagar 2024 verða yfir tímabilið 24. október til 17.nóvember. Viðburðir verða á hverjum degi en inni í þessum tímaramma er dagur bleiks októbers, þjóðhátíðardagur Póllands, afmæli Astrid Lindgren, feðradagurinn og Dagur íslenskrar tungu.

    Viðburðadagatalið á vef bæjarins verður notað fyrir viðburði hátíðarinnar.

    Forstöðumaður mun vinna dagskrána nánar og setja upp.

6.Menningarnefnd - 47

Málsnúmer 2501003FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 47. fundar menningarnefndar.
  • Menningarnefnd - 47 Rætt um aðventudagskrá sem fyrir liggur.
  • Á fundinum var farið yfir innsendar ljósmyndir sem komu fyrir ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðar 2024. Þema keppninnar í ár var "gleði".

    Mörtu Magnúsdóttur formann vantaði á fundinn en gaf samþykki fyrir ákvörðunum þeirra sem voru á fundinum.
    Menningarnefnd - 47 Farið var yfir þær myndir sem sendar voru inn í ljósmyndasamkeppninna og valdir sigurvegarar.

    Samkvæmt reglum keppninnar verða myndirnar að vera teknar innan sveitarfélagsmarka á
    tímabilinu 1. desember 2023 til 15. nóvember 2024 og má hver þátttakandi senda inn að hámarki
    fimm myndir. Myndir sem sendar eru inn í keppnina mega ekki hafa verið birtar á neinum miðlum
    fyrr en að verðlaunaafhendingu lokinni.

    Verðlaun verða veitt fyrir þrjár áhugaverðustu myndirnar. Fyrstu verðlaun eru 50.000 kr., önnur verðlaun 30.000 kr. og þriðju verðlaun 20.000 kr.

    Tilgangur keppninnar er að ýta undir áhuga á ljósmyndun meðal bæjarbúa, virkja þátttöku þeirra
    og fá nýja sýn á bæjarfélagið og samfélagið. Einnig er bærinn að koma sér upp góðu safni af
    myndum úr og af sveitarfélaginu til notkunar við kynningarstarf og annað sem viðkemur
    starfsemi bæjarins.

    Úrslit úr ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar 2024 verða kynnt á aðventudegi
    Kvenfélagsins sunnudaginn 1. desember sl. en alls bárust 31 mynd í keppnina.

    Í fyrsta sæti var Kasia Bajda, í öðru sæti var Elín Hróðný Ottósdóttir og í þriðja sæti Bryndís Guðmundsdóttir og verða þeim afhent peningaverðlaun, eins og verið hefur síðustu ár.

7.Menningarnefnd - 48

Málsnúmer 2501002FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 48. fundar menningarnefndar.
  • Á þessum seinasta menningarnefndarfundi ársins var farið yfir liðið ár.

    Kláraðir seinustu liðir á aðventudagskrá og veitt verðlaun.

    Farið var á jólarúnt með íbúum Fellaskjóls og hjálpuðu þau við valið á best skreytta húsi og fyrirtæki bæjarins 2024.
    Menningarnefnd - 48 Farið var yfir seinustu mál á aðventudagskrá 2024. Farið var yfir hugmyndir tengt þrettándagleði. Ákvörðun var tekin um að færa gleðina í Þríhyrninginn árið 2025 og breyta um staðsetningu. Menningarnefnd talar um að hafa minni varðeld til að grilla sykurpúða, 9. bekkur sér um kakó sem fjáröflun, jólasveinn myndi kíkja á svæðið, flugeldar frá Björgunarsvetinni Klakk og skólakórinn myndi syngja. Lára Lind forstöðum. fór í að gera dagskránna (sjá viðhengi).

    Menningarnefnd Grundarfjarðarbæjar ásamt íbúum á Fellaskjóli fóru saman á jólarúnt um bæinn þann til að skoða skreytingar hjá íbúum og fyrirtækjum. Rútuferðir sóttu íbúa Fellaskjóls á sannkallaðri jólarútu, boðið var uppá heitt kakó með rjóma og smákökur. Sannkallaður jólaandi var yfir farþegum rútunnar sem var skreytt með jólaljósum og allir í jólagír. Við þökkum íbúum Fellaskjóls fyrir góða hjálp við val á jólahúsi og jólafyrirtæki Grundarfjarðar 2024. Við hlökkum til að endurtaka leikinn að ári og erum spennt að halda í þessa hefð um ókomin ár.

    Einnig var valin best skreytti glugginn og voru það Hjalti Allan og Lísa hjá Rútuferðum sem fengu verðlaun fyrir afskaplega flottan glugga sem fór varla framhjá neinum. Það var enginn annar en Trölli sem stal jólunum sem prýddi þann glugga. Ásgeir Hjaltason hannaði gluggan hjá Rútuferðum og tók á móti verðlaunum fyrir þeirra hönd.

    Einnig voru veitt verðlaun til þeirra þriggja sem dregin voru út í jólagluggaleiknum.

8.Menningarnefnd - 49

Málsnúmer 2501006FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 49. fundar menningarnefndar.
  • Forstöðumaður sagði lauslega frá stöðu helstu verkefna. Menningarnefnd - 49
  • 8.2 1801048 Sögumiðstöðin
    Forstöðumaður kynnti fyrir nefndinni ósk bæjarstjórnar um umfjöllun nefndarinnar, um þann möguleika að hús Sögumiðstöðvarinnar, Grundargötu 35, yrði leigt undir starfsemi einkaaðila, að einhverjum hluta, yfir sumartíma 2025.

    Menningarnefnd - 49 Menningarnefnd þykir hugmyndin góð og áhugaverð, að því leyti að leigja út Sögumiðstöðina tímabundið yfir sumartímann ef góð og öflug umsókn berst, sem felur í sér starfsemi sem myndi ríma við tilgang hússins, lífga upp á starfsemi hússins og miðbæinn. Nefndin telur að það sé nauðsynleg forsenda og krafa fyrir nýtingu einkaaðila, að umsóknir stuðli að menningarlegri og/eða samfélagslegri uppbyggingu í Grundarfirði.

    Nefndin er sammála um að ekki henti að hafa slíka starfsemi í húsinu (leigja húsið út) nema bókasafnið færi starfsemi sína í annað hús, tímabundið á meðan. Rætt var um þann möguleika.

    Nefndin er reiðubúin, fyrir sitt leyti, að þróa leiðir til að nýta þetta hús í aðra starfsemi sem heppileg er og hentar markmiðum hússins, og með því að önnur starfsemi sem þar hefur farið fram geti samt sem áður haldið áfram, t.d. á öðrum stöðum eins og áður hefur verið lýst. Nefndin telur að til greina komi tímabilið frá 1. júní til loka ágústmánaðar, en þá er félagsstarf í húsinu að mestu einnig í sumarstoppi.

    Nefndin leggur áherslu á að þetta sé gert sem tilraun sumarið 2025 og að ávinningur verði síðan metinn og lærdómur dreginn af tilrauninni.

    Nefndin leggur einnig fram minnispunkta um nánari umræðu fundarins og mögulega útfærslu

9.Hafnarstjórn - 18

Málsnúmer 2502001FVakta málsnúmer

  • Farið var yfir stöðu byggingarframkvæmdar - bygging þjónustuhúss, sem er viðbygging við núverandi hafnarhús.

    Lagðir fram endurbættir aðaluppdrættir og gluggateikningar.
    Lagðir fram minnispunktar hafnarstjóra, með upplýsingum um hönnuði, byggingarstjóra, meistara, byggingarefni o.fl.
    Einnig lögð fram tvö tilboð í smíði húseininga (sökklar, veggeiningar og tilheyrandi).

    Hafnarstjórn - 18 Skipulag og leyfismál:

    Fyrir liggur heimild skipulagsfulltrúa til byggingaráforma, en áformin voru kynnt eigendum nærliggjandi húsa í desember sl.

    Teikningar:

    Farið yfir framlagðar teikningar að viðbyggingu, sem eru nánari útfærsla af teikningum sem lagðar voru fram á síðasta fundi í desember. Frágangi annarra teikninga er að mestu lokið.

    Byggingateikningar eru unnar af W7 ehf., hönnunarstjóri er Sigurbjartur Loftsson.

    Burðarþolsteikningar og neysluvatns-, loftræsiteikningar, hita- og fráveitulagnateikningar eru unnar af Verkfræðistofu Þráins og Benedikts (Hjörleifur Sigurþórsson), rafmagnsteikningar eru unnar af Rafmagnsverkfræðistofunni Tera slf. Brunahönnun er í vinnslu hjá Gunnari Kristjánssyni hjá Brunahönnun slf.

    Hafnarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlagða aðaluppdrætti, aðra en eina tillögu um smávægilega breytingu/viðbót á þaki yfir inngangi á vesturhlið (salernishluti). Hafnarstjóri fylgir því atriði eftir.

    Teikningar voru sendar til yfirferðar hjá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, á undirbúningsstigi, og komu þaðan gagnlegar ábendingar sem hafðar eru til hliðsjónar við hönnun.

    Byggingarstjórnun og eftirlit:

    Byggingarstjóri var ráðinn frá Eflu, Fannar Þór Þorfinnsson. Meistarar að verkinu eru, sem búið er að semja við, Eiður Björnsson byggingarmeistari, Guðni Guðnason pípulagningarmeistari, Sigurður Þorkelsson rafvirkjameistari og Eymar Eyjólfsson múrarameistari.

    Steinar Þór Alfreðsson, starfsmaður hafnar, verður með daglegt eftirlit á byggingarstigi.

    Byggingarefni, framkvæmd, tilboð o.fl.:

    Leitað var tilboða í forsteypta sökkla, veggeiningar og tilheyrandi, frá BM Vallá og Steypustöðinni.

    Vegna breytinga er veðurkápa á austurhlið tekin niður að gangbraut og á veggjum anddyris á suðurhlið.

    Hafnarstjórn samþykkir að taka hagstæðara tilboðinu í húseiningar með veðurkápu, sem er frá BM Vallá. Hafnarstjórn felur hafnarstjóra umboð til að undirrita samning við bjóðanda, BM Vallá, um verkið.

    Gerð var verðkönnun um jarðvinnu, sem farin er af stað og langt komin. Tilboði var tekið frá Almennu umhverfisþjónustunni ehf.

    Fyrir liggur tilboð í gluggasmíði, frá Gráborg ehf. (Eiður Björnsson), en gluggar verða smíðaðir í Grundarfirði og settir í húseiningar þegar þær hafa verið reistar.

    Hafnarstjóri lætur vinna hugmyndir um frágang útisvæða.

    Framkvæmdatími:

    Jarðvinna er langt komin, púði undir sökkla er tilbúinn.
    Uppsetning sökkla er áætluð að geti orðið fyrir miðjan febrúar, fer eftir veðri, en "púði" er tilbúinn.
    Uppsetning húseininga er áætluð í fyrri hluta marsmánaðar.

    Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið til notkunar, a.m.k. salernishlutinn, í byrjun komandi sumars.

    Umboð:

    Með hliðsjón af framangreindu og í samræmi við fjárhagsáætlun ársins, felur hafnarstjórn hafnarstjóra umboð til að ganga til samninga um smíði húseininga, gluggasmíði, hönnun og aðra verkþætti sem tilheyra byggingunni. Samþykkt samhljóða.

  • Deiliskipulagsvinna fyrir suðurhluta hafnarsvæðis er í vinnslu. Gert er ráð fyrir landfyllingu, ca. 5 hektara svæði, í samræmi við gildandi aðalskipulag.

    Í þessari vinnu er gert ráð fyrir 100 metra viðlegukanti nyrst á svæðinu, en með þeim áformum er jafnframt gert ráð fyrir að falla frá lengingu Miðgarðs. Ennfremur gert ráð fyrir vegi eftir landfyllingunni, sem tengir hafnarsvæði (norður) við þjóðveginn austan við þéttbýlið.

    Samhliða fer fram undirbúningsvinna vegna leyfisumsóknar um efnistöku af hafsbotni.
    Hafnarstjórn - 18
  • Farið yfir stöðuna.
    Hafnarstjórn - 18 Í dag liggja fyrir 75 bókaðar komur skemmtiferðaskipa sumarið 2025, þar af 30 komur á ankeri.

    Einnig hafa verið afbókanir, sem eiga sér skýringu í breytingum á álagningu innviðagjalds 2025, t.d. er einn aðili alveg farinn út, sem hefur verið með leiðangursskip í hringsiglingum um Ísland, og hefur hann afbókað 8 komur hjá okkur 2025 og 6 komur 2026.

    Fyrir árið 2026 eru komnar yfir 80 bókanir, eftir 10 afbókanir.
    Fyrir árið 2027 liggja fyrir 22 bókanir og 7 bókanir fyrir 2028.

    Rætt um þjónustu á svæðinu og samtal við þjónustuaðila og aðra hagsmunaaðila.

    Hafnarstjórn ræddi einnig um umferð um göngustíga í nágrenni bæjarins, sem gestir skemmtiferðaskipa nota mikið - um framkvæmdir og leiðir til úrbóta.

  • Hafnarstjórn - 18 Lögð fram til kynningar samantekt Ferðamálastofu, frá nóvember 2024.

10.Skipulags- og umhverfisnefnd - 265

Málsnúmer 2501009FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 265. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Umræðu frá síðasta fundi skipulags- og umhverfisnefndar 14. janúar sl. haldið áfram, um uppbyggingu á "miðbæjarreit" og sameiginlega úthlutun fjögurra samliggjandi lóða við Grundargötu 31 og 33 og Hamrahlíð 6 og 8.

    Gestir fundarins undir þessum lið eru Herborg Árnadóttir og Halldóra Hreggviðsdóttir skipulagsráðgjafar.

    Samþykkt að breyta röðun dagskrárliða og taka þennan lið fyrir fyrst á fundinum.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265 Herborg rifjar upp umræður síðasta fundar út frá minnispunktum, en nefndin ræddi þá framlagðar sviðsmyndir um uppbyggingu og þá starfsemi sem nefndin vildi sjá á reitnum. Herborg fór yfir meginniðurstöðurnar sem komu fram þar. Hún fór yfir og sýndi nokkur dæmi um sambærilegar byggingar annars staðar á landinu, lagðar ofaná lóðarreitinn okkar, til að gefa tilfinningu fyrir umfangi og gerð húsa og þeim þjónustukjörnum sem eru innan þeirra húsa, fjölda bílastæða o.fl.

    Sigurður Valur skipulagsfulltrúi fór yfir nokkur lykilatriði sem hann taldi að skiptu máli og sýndi dæmi út frá stærð lóðar með þrjár ólíkar húsagerðir, hversu mikið byggingarmagn og hve mörg bílastæði gætu komist fyrir á lóðunum fjórum. Allt er þetta sett upp fyrst og fremst til að gefa tilfinningu fyrir stærðum og möguleikum. Hann fór yfir dæmi um hugsanlegar "einingar" innan húskjarna og ræddi um mögulega starfsemi í húsið. Hann lagði sérstaka áherslu á bílastæðamálin, sem þyrfti að taka afstöðu til.

    Í kjölfarið tóku við almennar umræður fundarmanna. Allir tóku til máls.

    Rætt um hver hæð hússins ætti eða mætti vera og viðruð sjónarmið um það.

    Rætt um verslunarmál og hvernig verslun geti þróast með húsi á lóðunum, en á síðasta fundi var farið yfir það í umræðum nefndarinnar hvernig starfsemi hún vildi sjá þróast á reitnum.

    Talsvert var rætt um bílastæði, en búast má við að þau þurfi mikið pláss, og rætt um samnnýtingu nærliggjandi bílastæða. Bent á það sjónarmið, sem kynni að skipta máli, að bílastæði séu sýnileg þeim sem keyra gegnum bæinn til að auka líkurnar á því að gestir stoppi. Einnig spurt um bílastæðakjallara.

    Rætt um kynningu og samtal við íbúa, sem efnt verður til fljótlega. Einnig rætt um samtal við hugsanlega samstarfsaðila/þróunaraðila.

    Þar sem áfram er samhljómur um það í nefndinni hvernig þjónusta og starfsemi ætti að vera í húsinu, og komin er tilfinning fyrir hugsanlegu byggingarmagni og bílastæðaþörf, leggur skipulagsfulltrúi til að næsta skref sé að starfsmenn og ráðgjafar móti þrjár sviðsmyndir og leggi fyrir nefndina á næsta fundi hennar, sem færi svo til skoðunar hjá bæjarstjórn og síðan sem hugmyndir og umræðugrundvöllur inn í kynningu og samráð sem fram færi í kjölfarið.

    Samhljómur einkennir umræður nefndarmanna um framtíð miðbæjarreitsins, en rauði þráðurinn hefur verið að svæðið gagnist íbúum og verði samkomustaður, sem tengir saman íbúa og eflir mannlíf og þjónustu í samfélaginu.

    Einnig er samstaða um það í nefndinni að mikilvægt sé að ræða málefnið við íbúa áður en leitað verður eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á reitnum.

    Nefndin samþykkir tillögu skipulagsfulltrúa um að undirbúnar verði sviðsmyndir af hugsanlegum byggingum, þjónustu og fyrirkomulagi á reitnum, til að marka frekari stefnu um uppbygginguna, byggt á grunni þeirra stefnu sem lögð er í Aðalskipulagi Grundarfjarðar. Efnið verði síðan nýtt til að undirbúa kynningu og umræður með íbúum. Nefndin felur skipulagsfulltrúa að útbúa slíkar tillögur fyrir næsta fund nefndarinnar.
    Bókun fundar Til máls tóku JÓK og BS.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Auglýsingartími tillögu að deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið vestan Kvernár var frá 14. desember 2024 til 29. janúar 2025.

    Haldið var opið hús 23. janúar sl., til kynningar og umræðu um tillöguna.

    Lagðar eru fram þær umsagnir og athugasemdir sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar, en þær voru frá eftirtöldum aðilum:

    - Breiðafjarðarnefnd
    - RARIK
    - Landsnet
    - Náttúruverndarstofnun
    - Heilbrigðiseftirlit Vesturlands
    - Slökkvilið Grundarfjarðar
    - Minjastofnun
    - Vegagerðin
    - Veitur
    - Skipulagsstofnun
    - Land lögmenn f.h. eigenda að Innri Gröf og Gröf 3

    Allar umsagnir og athugasemdir komu fram í gegnum www.skipulagsgatt.is og eru opnar þar.

    Einnig lögð fram samantekt umsagna og athugasemda, með tillögu að svörum/viðbrögðum við þeim, til umræðu í nefndinni.

    Gestir fundarins undir þessum lið voru Halldóra Hreggviðsdóttir og Herborg Árnadóttir skipulagsráðgjafar hjá Alta.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265 Farið hefur verið yfir allar umsagnir og ábendingar sem bárust á auglýsingartíma tillögunnar og tillögu að breytingu á deiliskipulaginu frá því sem auglýst var.
    Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir tillöguna að auglýstu deiliskipulagi iðnaðarsvæðisins vestan Kvernár, en felur skipulagsfulltrúa jafnframt að gera þær breytingar sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan og rætt um á fundi nefndarinnar og ljúka afgreiðslu deiliskipulags sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin vísar deiliskipulaginu í framhaldi til samþykktar sveitarstjórnar, ásamt umsögnum og ábendingum, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og tillögu að svörum/viðbrögðum við umsögnum og athugasemdum sem bárust við tillöguna.

    Bæjarstjórn felur skipulagsfulltrúa að ljúka afgreiðslu deiliskipulagsins, sbr. bókun nefndarinnar.
  • Tillaga um óverulega breytingu á deiliskipulagi aðveitustöðvar hefur verið auglýst.

    Umsögn hefur borist frá eina aðilanum sem hefur um málið að segja, sem er Landsnet.
    Í umsögn Landsnets 29. janúar sl. gerir Landsnet engar athugasemdir við breytinguna.

    Fresturinn rennur út 14. febrúar nk. og verður eftir það lokið við breytinguna.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265 Lagt fram til kynningar. Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa umboð til að ljúka málinu eftir að frestur til að gera athugasemdir er útrunninn ef ekki berast frekari athugasemdir. Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Skipulagsstofnun hefur staðfest óverulega breytingu aðalskipulags vegna lagfæringar sem gerð var á legu Grundarfjarðarlínu 2, á uppdrætti, og auglýst.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265
  • RARIK óskar eftir heimild/samkomulagi við Grundarfjarðarbæ sem landeiganda um lagningu 19 kV jarðstrengs í gegnum jörðina Hrafnkelsstaði, sem er í eigu bæjarins. Lega línunnar er sýnd á uppdrætti sem fylgdi erindi RARIK.

    Ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir svæðið, en í aðalskipulagi kemur fram:

    "Aðalskipulag Grundarfjarðar tekur til raflína/jarðstrengja sem eru með 66 kV spennu og hærri, en þær/þeir teljast til stofnkerfis. Minni línur er unnt að endurnýja/reisa á grundvelli almennrar stefnu aðalskipulagsins fyrir landbúnaðarsvæði í kafla 6.4 að teknu tilliti til stefnu um umhverfi og auðlindir í kafla 5. Við endurnýjun lína skal miða við að leggja jarðstrengi í stað lína þar sem það er mögulegt."

    Erindið er lagt fyrir nefndina til umsagnar.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265 Skipulags- og umhverfisnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við lagningu jarðstrengs og að gert verði samkomulag við RARIK um strenglögnina, á grunni framlagðra gagna, með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og samþykkir að gert verði samkomulag við RARIK í samræmi við erindið.
  • RARIK hefur sótt um leyfi til forsætisráðuneytisins til að leggja jarðstreng um þjóðlenduna í Eyrarbotni.

    Forsætisráðuneytið óskar eftir umsögn Grundarfjarðarbæjar, í samræmi við lög um þjóðlendur.
    Erindið er lagt fyrir til umsagnar hjá nefndinni.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265 Skipulags- og umhverfisnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við fyrirhugaða lagningu jarðstrengs gegnum þjóðlenduna í Eyrarbotni og að veitt verði jákvæð umsögn á grunni framlagðra gagna.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og veitir jákvæða umsögn um erindið, til forsætisráðuneytis.
  • Bæjarráð tók fyrir framlagt erindi 31. janúar sl. og óskaði umsagnar skipulags- og umhverfisnefndar.

    Skipulagsfulltrúi óskaði eftir nánari upplýsingum frá umsækjanda og eru viðbótargögnin einnig lögð fram.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265 Skipulags- og umhverfisnefnd tekur fyrir sitt leyti jákvætt í að tímabundið sé sett upp afþreying á miðbæjarreitnum (sumar 2025).

    Óskað var eftir frekari upplýsingum og spurningar komu fram um staðsetningu og hönnun lausrar öryggisgirðingar sem tilgreind er í umsókn. Einnig hvort skoða mætti breytta staðsetningu afþreyingar á reitnum sjálfum.

    Skipulagsfulltrúa er falið að ræða við fulltrúa umsækjanda vegna nánari útfærslu og falið umboð til að afgreiða ósk um afnot/stöðuleyfi.
    Bókun fundar ÁE vék af fundi undir þessum lið.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

    ÁE tók aftur sæti sitt á fundinum.
  • Skotfélag Snæfellsness óskar eftir heimild til að stækka athafnasvæði sitt tímabundið og loka hluta af veginum um Kolgrafafjörð, frá skotsvæði yfir að Seleyrum við austanverðan fjörðinn, vegna tveggja Prs-móta sem félagið heldur dagana 9.-10. og 16.-17. ágúst 2025.

    Lögð fram yfirlitsmynd og fleiri gögn til frekari skýringa.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265 Skipulags- og umhverfisnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við tímabundna lokun vegarins og stækkun skotsvæðis vegna mótanna tveggja, en telur jafnframt mikilvægt að kynna hana vel og að greinilega verði gengið frá merkingum um hana við afleggjara.

    Skipulagsfulltrúa falið að ræða við Skotfélagið og veita í framhaldinu leyfi, með fyrirvara um afgreiðslu bæjarstjórnar.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða beiðni Skotfélagsins og samþykkir einnig áherslur og samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar ræddi á 294. fundi sínum þann 16. janúar 2025 lagningu atvinnutækja í íbúðarhverfum og samþykkti að fela skipulags- og umhverfisnefnd að taka málefnið til umræðu.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265 Nokkrar umræður fóru fram.

    Nokkuð er um að atvinnutækjum sé lagt inná íbúðarsvæðum þar sem misjafnt er hversu vel þau eiga heima. Fyrir utan atvinnulóðir, sem standa til boða fyrir byggingu húsa og aðstöðu, þá hefur ekki verið í boði heppileg aðstaða eða svæði, utan íbúðarsvæða, þar sem leggja má atvinnutækjum eða geyma þau.

    Einnig er rætt um númerslausa bíla í langtímageymslu og stór atvinnutæki í reglulegri notkun sem eigendur leggja við heimili sín. Nanna Vilborg tekur dæmi úr samþykktum reglum í öðrum landshlutum. Einnig er þetta rætt í samhengi við framkvæmdir við nýtt geymslusvæði bæjarins á Ártúni 8, og þau sjónarmið koma fram að þegar það kemst í gagnið sé ef til vill tímabært að endurskoða núverandi reglur bæjarins um veitingu stöðuleyfa og framkvæmd þeirra.


    Verkefnastjóra umhverfis- og skipulagsmála er falið að gera tillögur að nýjum reglum fyrir næsta fund skipulags- og umhverfisnefndar.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Fannar Þór Þorfinnsson sendir inn fyrirspurn með tölvupósti til skipulagsfulltrúa 21. janúar sl. og óskar eftir að hún verði tekin til umræðu á fundi skipulags- og umhverfisnefndar.

    Hann leggur til að reiturinn F-2, orlofshúsasvæði neðan skíðasvæðis við Eldhamra/suðaustan við hesthúsahverfi, verði næst á lista bæjarstjórnar varðandi deiliskipulagsvinnu. Hann spyr einnig hvort farið sé að skoða deiliskipulagsgerð á reitnum ÍÞ-2, sem er fjárhúsahverfi, sunnan við núverandi hesthúsahverfi.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 265 Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar fyrir ábendingar og hugmyndir, en vísar jafnframt í fyrri umræður og ákvarðandir bæjarstjórnar um forgangsröðun í skipulagsmálum, sem og þá forgangsröðun sem kemur fram í fjárhagsáætlun ársins af hálfu bæjarstjórnar.

    Svæðinu F-2 hefur verið raðað í forgangsröð eftir umræður skipulagsnefndar og bæjarstjórnar, þar sem það þykir afar spennandi uppbyggingarkostur. Framar í röðinni eru þó m.a. deiliskipulag Framness, stefna og kynning á miðbæjarreit og sjávarlóðir vestast á Grundargötu, auk iðnaðarsvæðis og Ölkeldudals, sem eru á lokastigi, eins og bent er á í erindinu. Einnig er nýhafið stórt skipulags- og umhverfisverkefni sem snýr að þéttbýlinu, í tengslum við stóran Evrópustyrk vegna blágrænna fráveitulausna.

    Erindinu að öðru leyti vísað til ákvörðunar bæjarstjórnar.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og þakkar erindið.
  • Engin önnur mál lögð fyrir. Skipulags- og umhverfisnefnd - 265

11.Fjárhagsáætlun 2025 - viðauki 1

Málsnúmer 2409008Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2025 í framhaldi af samþykkt bæjarráðs um tímabundið aukið stöðugildi við stuðning í grunnskólanum. Áætlunin gerir ráð fyrir 3.024 þús. kr. auknum launakostnaði. Rekstrarafkoma lækkar sem því nemur.

SGG vék af fundi undir þessum lið.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða framlagðan viðauka 1 við fjárhagsáætlun 2025.

SGG tók aftur sæti sitt á fundinum.

12.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Ums.b.rek.GII-Nónsteinn slf, Mýrar, 351 Grundarfjörður_2025010509

Málsnúmer 2502007Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Sýslumannsins á Vesturlandi um umsögn um umsókn Nónsteins slf. um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, í landi jarðarinnar Mýra.



Umsóknin er tvískipt, Nónsteinn slf. sækir um leyfi fyrir Grýlustein, nýtt hús. Ennfremur að Nónsteinn og Grásteinn, sem verið hafa með rekstrarleyfi, færist undir Nónstein slf. sem leyfishafa.



Fyrir liggur jákvæð umsögn slökkviliðsstjóra, en umsögnin er byggð á nýgerðri öryggis- og lokaúttekt hússins Grýlusteins og eldvarnareftirlitsskoðun Nónsteins og Grásteins frá í desember sl.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að umbeðið leyfi sé veitt.

Samþykkt samhljóða.

13.Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga - Endurskoðaðar samþykktir FSS - fyrri umræða

Málsnúmer 2502010Vakta málsnúmer

Lagðar fram til fyrri umræðu endurskoðaðar samþykktir fyrir Byggðasamlag um rekstur Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga (FSS).

Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu um endurskoðaðar samþykktir FSS og vísar til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

14.Heilbrigðiseftirlit Vesturlands - Sameiginleg gæludýrasamþykkt uppfærð drög

Málsnúmer 2502008Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að sameiginlegri gæludýrasamþykkt Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, fyrir Vesturland og Kjósarhrepp (HeV).

Bæjarstjórn vísar sameiginlegri gæludýrasamþykkt HeV til frekari yfirferðar hjá bæjarráði.

Samþykkt samhljóða.

15.Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa - Áskorun á sveitarfélög

Málsnúmer 2501021Vakta málsnúmer

Lögð fram ályktun Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa (FÍÆT) með áskorun til sveitarfélaga vegna sölu áfengis á íþróttaviðburðum.

Í Grundarfirði hefur aldrei tíðkast að veitt sé áfengi á íþróttaviðburðum í bænum. Bæjarstjórn tekur undir með FÍÆT að ekki ætti að leyfa sölu áfengra drykkja á íþróttaviðburðum.

Samþykkt samhljóða.

16.Hrannarstígur 36 - sala á húsnæði

Málsnúmer 2501008Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samþykkt kauptilboð dags. 5. febrúar 2025 og kaupsamningur dags. 12. febrúar 2025 vegna sölu á raðhúsinu að Hrannarstíg 36.

17.Breiðafjarðarnefnd - Fundargerðir 2024

Málsnúmer 2402014Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 228. fundar Breiðafjarðarnefndar, sem haldinn var 22. nóvember 2024.

Fylgiskjöl:

18.Unicef - Árangursskýrsla

Málsnúmer 2501024Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla Unicef um árangur í innanlandsstarfi.

19.Sundsamband Íslands - Sundlaugamannvirki - Skýrsla

Málsnúmer 2412007Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar mannvirkjaskýrsla Sundsambands Íslands 2024.

20.Innviðaráðuneytið - Opið samráð um áform um lagasetningu - mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpa á sveitarfélög

Málsnúmer 2502009Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Innviðaráðuneytisins, dags. 7. febrúar sl., um opið samráð vegna áforma um breytingar á sveitarstjórnarlögum, þ.e. 129. gr. laganna, sem fjallar um mat á fjárhagslegum áhrifum lagafrumvarpa á sveitarfélög.



Markmiðið með lagabreytingunni er að bæta gæði endanlegs áhrifamats á sveitarfélög og leggja til leiðir til að skera úr um ágreining ríkis og sveitarfélaga vegna kostnaðarauka sveitarfélaga.



Frestur til að skila inn umsögn um áformin er til og með 17. febrúar nk.

Til máls tóku JÓK og BÁ.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að senda inn umsögn.

Samþykkt samhljóða.

21.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerðir 2025

Málsnúmer 2502011Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga; fundargerð 961. fundar sem haldinn var 17. janúar sl., fundargerð 962. fundar sem haldinn var 22. janúar sl. og fundargerð 963. fundar sem haldinn var 31. janúar sl.

22.Lánasjóður sveitarfélaga - Bréf frá tilnefningarnefnd

Málsnúmer 2502012Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga, dags. 11. febrúar 2025, með auglýsingu eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga, vegna aðalfundar sem haldinn verður 20. mars nk.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:47.