297. fundur 10. apríl 2025 kl. 13:30 - 15:29 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Garðar Svansson (GS)
  • Davíð Magnússon (DM)
    Aðalmaður: Ágústa Einarsdóttir (ÁE)
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB)
  • Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG)
Starfsmenn
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund.

Forseti lagði til að teknir yrðu með afbrigðum á dagskrá bæjarstjórnar dagskrárliðirnir "Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu" sem yrði liður 2 á dagskrá og "Útboð á sölu byggingarréttar á miðbæjarreit" sem yrði liður 7 á dagskrá fundarins. Aðrir liðir færast aftur sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

Gengið var til dagskrár.

1.Ársreikningur 2024 - fyrri umræða.

Málsnúmer 2504006Vakta málsnúmer

Lagðir fram ársreikningar samstæðu og sjóða vegna ársins 2024 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Marinó Mortensen, frá Deloitte, sat fundinn undir þessum lið. Hann fór yfir helstu tölur í ársreikningi 2024.

Allir tóku til máls.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 1.741 millj. kr., en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 1.754 millj. kr. Rekstrartekjur A-hluta námu 1.472 millj. kr. en áætlun gerði ráð fyrir 1.488 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 83,6 millj. kr. Fjárhagsáætlun samstæðu með viðauka gerði ráð fyrir 42,2 millj. kr. jákvæðri niðurstöðu. Sé litið til A hluta eingöngu, þá er rekstarafkoma A-hluta jákvæð á árinu um 43,5 millj. kr.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2024 nam 1.382 millj. kr. skv. efnahagsreikningi, þar af nam eigið fé A-hluta 1.018 millj. kr. Eiginfjárhlutfall var 35,01%, en var 31,45% árið áður.

Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins námu 2.056,6 millj. kr., en námu 2.023,4 millj. kr. árið 2023. Skuldahlutfall skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga er 94,7% í samanteknum ársreikningi, en var 93,0% árið 2023. Hjá A-hluta var hlutfallið 93,06%, en var 86,4% á árinu 2023.

Veltufé frá rekstri í samanteknum ársreikningi var 251,8 millj. kr. og handbært fé í árslok 61,4 millj. kr., en var 111 millj. kr. árið áður.

Samþykkt samhljóða að vísa ársreikningi 2024 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Gestir

  • Marinó Mortensen - mæting: 13:30

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu 2022-2026

Málsnúmer 2205021Vakta málsnúmer

Umræður urðu um framkvæmdir í kjallara íþróttahús. Gert er ráð fyrir að lokauppgjör vegna framkvæmda verði lagt fyrir bæjarráð.

GS lagði fram fyrirspurn um atvinnutæki í íbúðahverfum. Skipulags- og umhverfisnefnd hefur samþykkt reglur og unnið verður skv. þeim.

Einnig umræður um ferli umsókna um störf og ráðningar þeim tengdum.

GS nefndi jafnframt val á sveitarfélagi ársins hjá Kili.

Ólafi Ólafssyni, íþrótta- og tómstundafulltrúa var þakkað fyrir góð störf.

3.Bæjarráð - 634

Málsnúmer 2503003FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 634. fundar bæjarráðs.
  • Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
    Bæjarráð - 634
  • 3.2 2502020 Greitt útsvar 2025
    Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-febrúar 2025. Bæjarráð - 634 Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar hækkað um 13,5% miðað við sama tímabil í fyrra.
  • Lagt fram yfirlit yfir ógreiddar viðskiptakröfur.
    Bæjarráð - 634 Farið yfir lista yfir ógreiddar viðskiptakröfur 31.12.2024.
  • Starf leikskólastjóra var auglýst 2. september 2024. Ein umsókn barst, sem ekki uppfyllti skilyrði, og var henni hafnað. Í framhaldinu samdi bæjarstjóri við Heiðdísi Lind Kristinsdóttur um að taka að sér starf leikskólastjóra og var gerður tímabundinn samningur til eins árs.

    Samkvæmt Starfsreglum bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar við ráðningu starfsmanna, ræður bæjarstjórn í æðstu stöður, þar á meðal leikskólastjóra.
    Bæjarráð - 634 Að ósk bæjarstjóra, leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði veitt heimild til að ganga frá fastráðningarsamningi við Heiðdísi Lind Kristinsdóttur, leikskólastjóra, með vísan til 1. mgr. 6. gr. Starfsreglna bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar við ráðningu starfsmanna og með vísan til auglýsingar um starfið 2. sept. 2024.

    Samþykkt samhljóða.
  • Íbúð 107 að Hrannarstíg 18 var auglýst laus til úthlutunar. Ein umsókn barst og er lagt til að hún verði samþykkt.
    Bæjarráð - 634 Bæjarráð samþykkir að úthluta íbúð 107 að Hrannarstíg 18 til Matthildar Guðmundsdóttur. Skrifstofustjóra falið að ganga frá samningi.

    Samþykkt samhljóða.
  • Á fundi bæjarstjórnar 13. mars sl. var lagt fram minnisblað bæjarstjóra um málið. Mæta þarf 25,3 millj. kr. kostnaðarauka á árinu 2025 vegna kjarasamninga, sem ná til grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla og leikskóladeildarinnar Eldhamra.

    Bæjarstjórn vísaði málinu til vinnslu í bæjarráði.
    Bæjarráð - 634 Á fundi bæjarstjórnar 13. mars sl. var rætt um að kostnaðaraukanum yrði ekki mætt með frekari lántöku.

    Bæjarráð fór yfir tillögu að niðurskurði á fjárfestingaráætlun ársins, sem myndi lækka um 8 millj. kr. Lagt til að 17 millj. kr. verði mætt með hagræðingu/breytingu í rekstri, en tillögur um það verða unnar áfram.

    Tillaga samþykkt samhljóða.
  • Bæjarstjórn vísaði málinu til afgreiðslu í bæjarráði.

    Lögð fram drög að viðauka 2 við fjárhagsáætlun ársins 2025.
    Bæjarráð - 634 Farið yfir viðauka 2 við fjárhagsáætlun 2025 til áframhaldandi vinnslu.

    Drög að viðauka 2 við fjárhagsáætlun 2025 samþykkt og vísað til samþykktar í bæjarstjórn.

    Samþykkt samhljóða.
  • 3.8 2501025 Framkvæmdir 2025
    Farið yfir undirbúning framkvæmda.

    Inná fundinn undir þessum lið komu Sigurður Valur Ásbjarnarson, í fjarfundi, Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi og Guðmundur Rúnar Svansson, þjónustufulltrúi skipulags- og byggingarfulltrúa.

    Bæjarráð - 634 Yfirferð framkvæmda.

    Bæjarstjóri sagði frá því að hún og Nanna Vilborg, verkefnastjóri skipulags- og umhverfismála, hefðu setið upphafsfund um Life-verkefnið fyrr í vikunni, ásamt stórum hópi fulltrúa þeirra 23 aðila sem taka þátt í verkefninu. Fundurinn var mjög góður undirbúningur undir frekari vinnu og framkvæmdir við blágrænar ofanvatnslausnir, sem okkar verkefni gengur út á.

    Sigurður Valur fór yfir nokkur mál, sem hann hefur komið að því að undirbúa.

    Verðkönnunargögn eru tilbúin vegna framkvæmda í Sögumiðstöð og verða send út í næstu viku. Um er að ræða viðgerðir og endurbætur á húsnæðinu, sem vinna á skv. ástandsmati sem gert var á húsinu og lagt hefur verið fyrir bæjarráð. Ætlunin er að framkvæmdatími verði hluti apríl og til loka maímánaðar, ef allt gengur eftir.

    Hér kom Ólafur inná fundinn.

    Framkvæmdir við endurbætur utanhúss á íþróttahúsi eru í undirbúningi. Gengið verður frá útboði í aprílmánuði. Miðað er við framkvæmdir á tveimur fjárhagsárum, 2025 og 2026.

    Einnig rætt lauslega um fleiri framkvæmdir/verkefni á sviði íþróttafulltrúa, s.s. tjaldsvæðis og skólalóðar (grunnskóli og íþróttahús), en Nanna vinnur nú með grunnskóla og íþróttahúsi að undirbúningi fyrir endurbætur á skólalóð. Ætlunin er að endurnýja rennibrautina og klifurkastalann á norðanverðri skólalóð. Klifurkastalann má nýta á öðru leiksvæði, en rennibrautinni verður fargað.

    Gengið hefur verið frá pöntun í nýja bekki og skápa í búningsklefa sundlaugar/íþróttahúss, eftir að Ólafur hafði leitað tilboða í viðgerð bekkja, sem ekki svaraði kostnaði að fara í. Miðað er við að uppsetning fari fram í maímánuði.

    Ólafur fór einnig yfir fyrirhugaðar framkvæmdir á tjaldsvæði og m.a. flutning leiktækja á tjaldsvæðið.

    Einnig hefur verið leitað tilboða í litla rennibraut fyrir vaðlaugina við sundlaug. Rætt um möguleika á geymslugám með salerni við íþróttavöllinn.

    Rætt um þróunina í orkuskiptaverkefninu og kyndingu skóla- og íþróttamannvirkja. Sagði Óli frá því að vandræði hafa verið með leir í holu nr. 7, sem kemur þá með vatninu sem ætlunin er að nýta úr holunni. Leirdrulla hefur stíflað síur og valdið vandræðum. Björg sagði að verkfundur væri fyrirhugaður nk. mánudag með verktökum og ráðgjafa út af þessu.

    Hér vék Ólafur af fundi og var honum þakkað fyrir upplýsingarnar.

    Rætt um undirbúning og gögn vegna gangstétta og stíga, sem er í undirbúningi og Nanna hefur aðallega umsjón með.

    Hér vék JÓK af fundi undir umræðu um nýtt geymslusvæði.

    Sigurður Valur sagði frá því að vinna við frágang á nýju geymslusvæði er á lokametrunum. Tvær verðkannanir voru gerðar, annars vegar um jarðvinnu og hinsvegar um uppsetningu á girðingu.
    Búið er að kaupa tvo 20 feta gáma, sem ætlaðir eru fyrir geymslu bæjarins, einkum áhaldahúss, á ýmsum lausamunum og búnaði. Tveir gamlir gámar á eldra geymslusvæðinu eru ónýtir og verður þeim ráðstafað í endurvinnslu.

    JÓK tók aftur sæti sitt á fundinum.

    Bæjarstjóri sagði frá því að útboðsgögn og auglýsingaefni vegna uppbyggingar á miðbæjarreit eru í undirbúningi. Stefnt er á kynningarfund fyrir íbúa í næstu viku, einnig sérstökum fundi með húseigendum á nærliggjandi lóðum við miðbæjarlóðirnar. Ætlunin er að bjóða út byggingarrétt á lóðunum fjórum sem mynda miðbæjarreit.

    Hér kom Guðmundur Rúnar inn á fundinn.

    Rætt um nýjar reglur og gjaldskrá fyrir geymslusvæði, sem er í vinnslu hjá Guðmundi Rúnari. Hann útskýrði helstu áherslur og leitaði viðbragða bæjarráðs. Ætlunin er að leggja drög að reglunum fyrir skipulags- og umhverfisnefndarfund í næstu viku.

    Hér fóru Sigurður Valur og Guðmundur Rúnar af fundi og var þeim þakkað fyrir upplýsingarnar.

    ÁE vék af fundi vegna umræðu um útleigu Sögumiðstöðvar.

    Rætt um mögulega útleigu á Sögumiðstöð í sumar til einkaaðila eftir að framkvæmdum þar verður lokið, sbr. það sem fyrr er sagt. Málið hefur verið til umræðu áður, hjá bæjarstjórn, bæjarráði og menningarnefnd, sem var jákvæð fyrir útleigu. Málið valt á því hvenær framkvæmdatími í Sögumiðstöð yrði.

    Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn, að auglýst verði útleiga rýmis í Sögumiðstöð fyrir komandi sumar, til reynslu, með fyrirvara um niðurstöður verðkönnunar v/framkvæmda, sbr. umræðu fyrr á fundinum. Semja þarf skilmála fyrir útleiguna, en miðað er við tímabilið frá því í byrjun júní og út ágúst. Bæjarstjóra falið að undirbúa, með hliðsjón af niðurstöðum úr verðkönnun.

    Samþykkt samhljóða.

    ÁE tók aftur sæti sitt á fundinum.
  • Lögð fram drög að reglum um Uppbyggingarsjóð íþrótta- og menningarmála, til umræðu.
    Bæjarráð - 634 Um er að ræða sjóð sem stofnað var til sama ár og greiðslum lauk skv. 10 ára samningi um framlag til menningarstarfs í Sögumiðstöð, en fjármunir þeir eru til inná bankareikningi, skv. samningi sem gerður var á sínum tíma þar að lútandi.

    Í framhaldinu ákvað bæjarstjórn að halda áfram að leggja í sjóð, sem ætlaður væri til sérstakra uppbyggingarverkefna, í íþrótta- og menningarmálum.

    Farið yfir drögin, sem skrifstofustjóri hefur undirbúið, og vísað til næsta fundar bæjarráðs.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Lagt til að drögum að reglum verði vísað til íþrótta- og tómstundanefndar og menningarnefndar til umsagnar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð fram til kynningar skýrsla slökkviliðsstjóra vegna eldvarnaeftirlits á húsnæði Grunnskóla Grundarfjarðar, sem fram fór 4. mars 2025.

    Bæjarráð - 634 Atriðin í skýrslunni eru til úrvinnslu.
  • Lagt fram til kynningar bréf Fjölbrautaskóla Snæfellinga um afkomu skólaaksturs á haustönn 2024 ásamt reikningi. Tap á rekstri skólaaksturs leiðir til rúmlega 1,7 millj. kr. framlags Grundarfjarðarbæjar.
    Bæjarráð - 634 Rætt um leiðir til að draga úr tapi á skólaakstri.
  • Lögð fram til kynningar skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um frumkvæðisathugun á stoð- og stuðningsþjónustu sveitarfélaga.
    Bæjarráð - 634
  • Lögð fram til kynningar skýrsla SSV frá 2024 um framtíðarmöguleika Breiðafjarðar og skilaboð íbúafunda þess efnis.
    Bæjarráð - 634
  • Lagt fram til kynningar ársyfirlit Félags eldri borgara í Grundarfjarðarbæ vegna 2023-2024.
    Bæjarráð - 634
  • Lagður fram til kynningar ársreikningur Golfklúbbsins Vestarr vegna 2022-2023.
    Bæjarráð - 634
  • Lagður fram til kynningar ársreikningur Skotfélags Snæfellsness vegna ársins 2024.
    Bæjarráð - 634
  • Lagður fram til kynningar ársreikningur Hesteigendafélags Grundarfjarðar vegna ársins 2023.
    Bæjarráð - 634
  • Lagður fram til kynningar ársreikningur Hesteigendafélags Grundarfjarðar vegna ársins 2024.
    Bæjarráð - 634
  • Máli bætt við dagskrá fundarins, en 25. mars sl. var birt í Samráðsgátt mál frá atvinnuvegaráðherra, drög að frumvarpi til breytinga á lögum um veiðigjald (mál nr. S-62/2025).

    Umsagnartími er skammur, eða rúm vika - til 3. apríl nk. Ljóst er að ekki næst að setja málið á dagskrá bæjarstjórnarfundar áður en sá frestur rennur út.

    Bæjarstjóri sagði frá því að eftir hádegi í dag hafi verið boðað til fundar með fulltrúum allra sveitarfélaga í Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga og muni hún sitja þann fund.

    Bæjarráð - 634 Grundarfjarðarbær er sjávarbyggð sem á mikið undir atvinnugreinum sjávarútvegs, einkum fiskveiðum og fiskvinnslu. Í greiningu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi kemur í ljós að rétt um 40% af útsvarstekjum Grundarfjarðarbæjar, og þar með atvinnutekjum íbúa, kemur beint úr sjávarútvegi, þ.e. fiskveiðum og fiskvinnslu. Ótaldar eru þá útsvarstekjur úr annarri starfsemi, sem einnig byggir á sjávarútvegi, alfarið eða að stórum hluta.

    Á landsvísu hefur sjávarútvegur afar mismunandi vægi í útsvarsgrunni sveitarfélaga, allt frá því að hafa ekkert vægi upp í það að vega allt að 50% útsvarstekna, þegar vægi veiða og vinnslu eru lögð saman. Grundarfjarðarbær er í fjórða til fimmta sæti þeirra sveitarfélaga þar sem fiskveiðar og vinnsla hafa mesta vægið í útsvarstekjunum.

    Ljóst er því að umfangsmiklar breytingar sem snerta sjávarútveg eru líklegar til að hafa mun meiri áhrif á Grundarfjarðarbæ en mörg önnur sveitarfélög.

    Í því ljósi gerir bæjarráð alvarlegar athugasemdir við þann skamma tíma sem gefinn er til umsagna um málið í Samráðsgátt.

    Grundarfjarðarbær gerir einnig athugasemd við að framlögð frumvarpsdrög séu kynnt án þess að fyrir liggi nánari greining á áhrifum boðaðra lagabreytinga fyrir sveitarfélögin og tekjustofna þeirra, s.s. eftir samsetningu tekna sveitarfélaga, umfangi greina sjávarútvegs í atvinnulífi sveitarfélaga, samsetningu eða tegundum sjávarútvegsfyrirtækja o.fl.

    Gerð er alvarleg athugasemd við þá fullyrðingu í kafla 6.4. í frumvarpinu, þar sem segir að með vísan til umfjöllunar í kafla 6.3 um áhrif frumvarpsins á samkeppnishæfni og rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja „verði að telja að frumvarpið verði það að lögum muni hafa óveruleg áhrif á þau byggðalög þar sem sjávarútvegsfyrirtæki eru staðsett“.
    Með hliðsjón af því sem áður er sagt um vægi sjávarútvegs í Grundarfirði er kallað eftir upplýsingum sem þarna búa að baki eða sem skýra þetta.

    Bæjarstjóra er falið að leggja inn umsögn í samráðsgáttina.

    Samþykkt samhljóða.

4.Skólanefnd - 179

Málsnúmer 2503002FVakta málsnúmer

Til máls tóku JÓK og LÁB.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 179. fundar skólanefndar.
  • Nefndarmenn hófu fundinn með heimsókn í tónlistarskólann.

    Fyrir liggja einnig minnispunktar um starf skólans, þó þeir séu ekki teknir sérstaklega til umræðu.

    Skólanefnd - 179 Linda María Nielsen aðstoðarskólastjóri tók á móti nefndarmönnum og sýndi þeim breytingarnar á húsnæði og aðstöðu skólans, sem fram hafa farið undanfarna mánuði.

  • Umræða um málefni leikskólans.

    Lagðir fram minnispunktar leikskólastjóra um starfið og tillaga um breytt fyrirkomulag á skráningu í tíma milli 14-16 á föstudögum, með hliðsjón af reynslunni af því fyrirkomulagi sem verið hefur síðan í nóvember 2024.

    Skólanefnd - 179 Leikskólastjóri fór yfir framlagt minnisblað um starf leikskólans.

    Endurskoðun á skólanámskrá er í vinnslu og vinna Sólvellir og leikskóladeildin Eldhamrar að því að skrifa sameiginlega skólanámskrá, með aðstoð skólaráðgjafa hjá Ásgarði. Unnið er að því að skýra betur stefnu leikskólans og sérstöðu. Unnið er með útikennslu, hæglátt leikskólastarf og læsi, sem megináherslu í leik og starfi og mun það endurspeglast í nýju námskránni.

    Búið er að auglýsa stöðu aðstoðarleikskólastjóra sem kemur til með að sinna m.a. sérkennslu innan leikskólans, vera tengiliður farsældar og fleira. Umsóknarfrestur er til 2. apríl nk. um starfið.

    Gæðaráð leikskólans hefur verið virkt og fundað reglulega í vetur. Gæðaráð fer yfir og metur hvernig starf skólans vinnst m.v. gæðaviðmið í skólastarfi.
    Gerð er bæði foreldra- og starfsmannakönnun í mars og apríl, sambærileg því sem send var út á síðasta ári. Þar er áherslan á "leikskólabrag" og spurningar settar fram sem miðast við það.
    Niðurstöður úr foreldrakönnun liggja nú fyrir, en þó á eftir að vinna betur úr þeim. Könnunin kemur mjög vel út og sýnir bætingu m.v. könnun frá í fyrra.

    Skipulagið á deildum gengur vel. Sótt var um styrk í Sprotasjóð til þess að vinna betur með "tímalínu" leikskólans/námsvísi. Verkefnið gengur út á að finna leiðir, m.a. með aðstoð gervigreindar, til að styrkja og styðja allt starfsfólk í leikskólanum í að vinna markvisst og faglegt starf samkvæmt aðalnámskrá leikskóla, með sérstaka áherslu á starfsfólk sem hefur annað móðurmál en íslensku.

    Búið er að festa námsvísi/tímalínu enn markvissara í starfi og er faglegt starf á deildinni orðið mjög flott, segir í minnispunktum leikskólastjóra.

    Leikskólinn hefur opnað Instagram síðu þar sem hægt er að fylgjast með starfinu: "Leikskólinn Sólvellir" á Instagram.

    --
    Í minnispunktum leikskólastjóra er að finna tillögu um að á komandi skólaári verði prófað til reynslu annað fyrirkomulag með skráningu barna í tímana milli 14-16 á föstudögum, þannig að foreldrar geti valið mánaðarlega (fyrir 15. hvers mánaðar) hvernig þeir vilji skrá fyrir næsta mánuðinn. Misjafnt geti verið eftir mánuðum hvort foreldrar þurfi á tímum milli 14-16 að halda.

    Leikskólastjóri telur æskilegt að hvetja enn frekar til þess að stytta dvöl barna, t.d. með því að helgarleyfi barna byrji fyrr, því 40 klst. viðvera barna og jafnvel 42,5 klst. hjá þeim sem lengst eru í leikskólanum sé langur tími. Stærsti hluti vökutíma barna sé auk þess í leikskólanum.

    Skólanefnd gerir ekki athugasemd við þá tillögu leikskólastjóra að skráningu tímans milli 14-16 á föstudögum sé hagað þannig að skráð sé fyrir mánuð í senn, þannig að aukinn sveigjanleiki sé um nýtingu. Nefndin telur að leikskólastjóri hafi nú þegar umboð til að útfæra þetta nánar, sbr. samþykkt skólanefndar á fundi í júní 2024 og samþykkt bæjarráðs á því, þegar fyrirkomulagið var upphaflega lagt til.

    Skólanefnd vísar því til bæjarstjórnar hvort breyta eigi gjaldskrá til að endurspegla betur muninn á dvöl barna til 14 eða 16 á föstudögum, fyrir næsta skólaár.

    Leikskólastjóri óskaði jafnframt eftir áliti skólanefndar á því hvort auka-korter ætti að standa til boða á föstudögum, þ.e. frá 16-16:15.

    Skólanefnd telur, m.v. upplýsingar leikskólastjóra um þá þörf og eftirspurn sem nú er uppi, að óhætt sé að fallast á tillögu um að auka korter sé ekki í boði á föstudögum.

    --
    Skóladagatal

    Lögð fram tillaga/drög að skóladagatali leikskólans skólaárið 2025-2026. Fram kom að skólastjórar leik- og grunnskóla hafa unnið sínar tillögur í samráði.

    Tillaga er um að í Dymbilviku verði skráningardagar, líkt og var í fyrra, þannig að foreldrar geti ráðið skráningu barns alla Dymbilvikuna, en ef ekki þá verði veittur afsláttur af gjöldum.

    Skólanefnd tekur ekki afstöðu til gjaldskrár, en vísar þessu atriði til umfjöllunar bæjarstjórnar.

    Skóladagatal er áfram í vinnslu og kemur til staðfestingar nefndarinnar síðar.
  • Lögð fram drög að skóladagtali leikskóladeildarinnar Eldhamra fyrir skólaárið 2025-2026.
    Skólanefnd - 179 Eins og fram hefur komið hafa skólastjórar leik- og grunnskóla samræmt sínar tillögur að skóladagatali.

    Áfram í vinnslu og kemur til staðfestingar skólanefndar síðar.
  • Framlagðir minnispunktar grunnskólastjóra um starfið, fundargerð skólaráðs frá 28. febrúar 2025, en skólaráð starfar skv. lögum um grunnskóla.

    Einnig lögð fram drög skólastjóra að skóladagatali grunnskólans skólaárið 2025-2026.

    Skólanefnd - 179 Skólastjóri fór lauslega yfir minnispunkta sína um starfið.

    Hann sagði frá leikritinu Fíasól, sem nemendur 6.-7. bekkjar hafa sett upp. Árshátíð grunnskólans fer fram í apríl, annars vegar fyrir 1.-7. bekk og eru Eldhamrabörnin með í þeim undirbúningi. Hins vegar fyrir unglingastigið.

    Áhersla verður á umhirðu skólalóðarinnar, gróðursetningu og almenna útiveru í vor. Verið er að vinna í gróðurhúsi skólans og fyrir dyrum eru áframhaldandi umbætur á skólalóðinni. Keypt verða ný leiktæki til að skipta út rennibraut og klifurkastala á lóðinni.

    Undirbúningur er í gangi fyrir skólahlaupið, en styrkur fékkst úr Lýðheilsusjóði, sem mun nýtast vel við framkvæmd hlaupsins, og eru aðstandendur afar ánægðir með það, að sögn skólastjóra.

    Rætt um reglur um "símafrí" sem í gangi hafa verið í vetur og telur skólastjóri að almennt hafi tekist vel til með það.

    --
    Umræður um skóladagatal komandi skólaárs, en það er til áframhaldandi vinnslu og tekur til afgreiðslu skólanefndar síðar.

    --

    Skólanefnd vill sérstaklega hrósa og þakka nemendum, starfsfólki og öðrum sem að komu, fyrir glæsilegt leikrit "Fíasól gefst aldrei upp" sem sett var upp og sýnt fyrir fullu samkomuhúsi í fjögur skipti.
  • Lagt fram bréf mennta- og barnamálaráðuneytis.
    Skólanefnd - 179

5.Skipulags- og umhverfisnefnd - 267

Málsnúmer 2503004FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 267. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð fram drög að deiliskipulagi fyrir Sólbakka B í landi Háls.

    Fyrirspurn landeigenda var áður til umræðu á 261. fundi nefndarinnar í október 2024 og var það niðurstaða nefndarinnar þá að líklega væri um að ræða óverulega breytingu sem færi í grenndarkynningu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Í kjölfarið funduðu fyrirspyrjendur með skipulagsfulltrúa og skipulagsráðgjafa. Landeigendur hafa nú lagt fram drög að breytingartillögu á deiliskipulaginu.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 267 Skipulags- og umhverfisnefnd telur að um óverulega breytingu sé að ræða og felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna framkvæmdina fyrir landeigendum að Mýrum og Hálsi í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar frágengin deiliskipulagstillaga liggur fyrir.

    Kynningartími er fjórar vikur. Nefndin vísar til þess að heimilt sé að stytta tímabil grenndarkynningar ef samykki/áritun á skipulagsuppdrátt hefur borist frá þeim sem hagsmuna eiga að gæta, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

    Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að annast frágang málsins í samræmi við þetta.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð fram gögn í kjölfar auglýsingar á tillögu að heildarendurskoðun deiliskipulags Ölkeldudals, skv. 41. gr. skipulagslaga.

    Á 264. fundi skipulags- og umhverfisnefndar 14. janúar 2025 samþykkti nefndin að auglýsa deiliskipulagstillöguna skv. 41. gr. skipulagslaga. Bæjarstjórn samþykkti framangreinda afgreiðslu á 294. fundi sínum, 16. janúar 2025.

    Tillagan var birt í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og auglýst frá 2. febrúar til 28. mars 2025. Tillagan var einnig auglýst í Lögbirtingarblaðinu 14. febrúar. Hún var auglýst á vef Grundarfjarðarbæjar 7. febrúar og lá frammi til sýnis í Ráðhúsi Grundarfjarðarbæjar og í Bókasafni Grundarfjarðar, í Sögumiðstöðinni.
    Opinn kynningarfundur um skipulagstillöguna var haldinn 19. febrúar í Sögumiðstöð. Bæjarstjóri bauð einnig uppá opið, óformlegt samtal um tillöguna 15. mars sl. í Kjörbúðinni Grundarfirði.

    Umsögnum við tillöguna þurfti að skila í Skipulagsgáttina eigi síðar en 28. mars sl.
    Eftirtaldar átta umsagnir bárust á kynningartímanum frá:

    - Skipulagsstofnun
    - Veðurstofu Íslands
    - Minjastofnun Íslands
    - Slökkviliði Grundarfjarðar
    - Landsneti
    - Skógræktarfélagi Eyrarsveitar
    - Þórunni S. Kristinsdóttur
    - Veitum

    Allar umsagnir og athugasemdir komu fram gegnum www.skipulagsgatt.is og eru opnar þar. Sjá https://skipulagsgatt.is/issues/2024/234.

    Lagðar fram umsagnir/athugasemdir sem bárust, og samantekt þeirra með tillögu að svörum/viðbrögðum við þeim til umræðu í nefndinni.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 267 Farið yfir framlagða samantekt/yfirlit um þær umsagnir sem bárust og tillögu um svör og viðbrögð við athugasemdum.

    Signý víkur af fundi undir umræðum um athugasemd frá Skógræktarfélagi Eyrarsveitar, og undir umræðum um tillögu um breytingar á lóðum við Fellaskjól. Rætt er um sjónarmið sem komið hafa fram á bæjarstjórnarfundum.

    Fellaskjól:

    Bæjarstjóri og skipulagsfulltrúi hafa á auglýsingatíma tillögunnar átt í samtali við stjórn Fellaskjóls og niðurstaða þess er að lóðir við Hrannarstíg 48, 50, 52 og 54 verði felldar úr deiliskipulaginu að sinni.
    Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir afstöðu stjórnar Fellaskjóls og felur skipulagsfulltrúa að uppfæra deiliskipulagsgögnin í samræmi við þetta, áður en endanlega er gengið frá deiliskipulaginu til auglýsingar. Gert verður ráð fyrir þremur lóðum vestan við Fellaskjól og að sameiginleg aðkoma sé að þeim og að vesturinngangi (nýja álma) Fellaskjóls. Sjá nánar í meðfylgjandi vinnuskjali.

    Signý tók aftur sæti sitt á fundinum.

    Farið yfir umsagnir og athugasemdir sem borist hafa.
    Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlagða tillögu að viðbrögðum/svörum við þeim.
    Í samræmi við þá tillögu og umræður fundarins er skipulagsfulltrúa falið að gera nauðsynlegar lagfæringar á deiliskipulagstillögunni.

    Skipulags- og umhverfisnefnd vísar tillögunni til bæjarstjórnar og leggur til að hún verði samþykkt þar með þeim breytingum sem að framan er lýst og að skipulagsfulltrúa verði falið að ljúka nauðsynlegri meðferð skipulagsmálsins.

    Bókun fundar SG vék af fundi undir liðum 5.2 og 5.3.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð fram gögn í kjölfar auglýsingar á breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, skv. 31. gr. skipulagslaga, sem gerð er í tengslum við heildarendurskoðun deiliskipulags Ölkeldudals.

    Á 261. fundi skipulags- og umhverfisnefndar 29. október 2024 var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 31. gr. skipulagslaga. Bæjarstjórn samþykkti framangreinda afgreiðslu á 291. fundi sínum, 14. nóvember 2024.

    Tillagan var birt í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og auglýst frá 2. febrúar til 28. mars 2025. Tillagan var einnig auglýst í Lögbirtingarblaðinu 11. febrúar.
    Hún var auglýst á vef Grundarfjarðarbæjar 7. febrúar og lá frammi til sýnis í Ráðhúsi Grundarfjarðarbæjar og í Bókasafni Grundarfjarðar, í Sögumiðstöðinni.
    Opinn kynningarfundur um skipulagstillöguna var haldinn 19. febrúar í Sögumiðstöð. Bæjarstjóri bauð einnig uppá opið, óformlegt samtal um tillöguna 15. mars sl. í Kjörbúðinni Grundarfirði.

    Umsögnum við tillöguna þurfti að skila í Skipulagsgáttina eigi síðar en 28. mars sl.
    Eftirtaldar sjö umsagnir bárust á kynningartímanum, þ.e. frá:

    - Minjastofnun Íslands
    - Sveitarfélaginu Stykkishólmi
    - Náttúruverndarstofnun
    - Heilbrigðiseftirliti Vesturlands
    - Landsneti
    - Skógræktarfélagi Eyrarsveitar
    - Landi og Skógi

    Allar umsagnir eða athugasemdir bárust í gegnum www.skipulagsgatt.is og eru opnar þar. Sjá https://skipulagsgatt.is/issues/2024/233.

    Umsagnir og athugasemdir eru lagðar fram, auk þess samantekt umsagna og athugasemda með tillögu að svörum/viðbrögðum við þeim til umræðu í nefndinni.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 267 Farið yfir framlagða samantekt/yfirlit um þær umsagnir sem bárust og tillögu um svör og viðbrögð við athugasemdum.

    Á grunni framangreindra umsagna og athugasemda er ekki talin þörf á breytingum á auglýstri tillögu að breytingu á aðalskipulagi, en skipulagsfulltrúa er falið að gera minniháttar óefnislegar lagfæringar á aðalskipulagstillögunni eftir þörfum.

    Skipulags- og umhverfisnefnd vísar tillögunni til bæjarstjórnar og leggur til að hún verði samþykkt þar og skipulagsfulltrúa falið að ljúka meðferð málsins.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

    SG tók aftur sæti sitt á fundinum.
  • Lögð fram tillaga að skipulagslýsingu og vinnslutillögu vegna breytingar á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, sem gerð er í tengslum við áform um uppbyggingu á miðbæjarreit.

    Tillagan er lögð fram í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar 13. mars sl. um að setja málið af stað.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 267 Rætt um fundi sem haldnir voru með íbúum í gær, miðvikudaginn 2. apríl, en þar kom fram almenn ánægja með fyrirhugaða tillögu. Annars vegar var lokaður fundur með eigendum húsa í næsta nágrenni við miðbæjarreit og hinsvegar opinn fundur í samkomuhúsinu til kynningar á áformunum og til að fá fram sjónarmið íbúa. Unnið verður úr því efni sem fram kom úr umræðum fundarins.

    Lögð var fram í einu lagi skipulagslýsing og tillaga til kynningar á vinnslustigi um breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039.

    Skipulagsfulltrúa falið að gera lítilsháttar breytingar á orðalagi, en að öðru leyti samþykkir nefndin að leggja til við bæjarstjórn að kynna lýsinguna og tillöguna í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar með sex atkvæðum. Einn sat hjá (GS).
  • 5.5 2501010 Reglur um skilti
    Endurbætt tillaga lögð fram til afgreiðslu, en málið var til umræðu á síðasta fundi nefndarinnar.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 267 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti tillögu að nýjum reglum og mælir með því við bæjarstjórn að þær verði samþykktar.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar með fyrirvara um samþykki hafnarstjórnar.
  • Verið er að taka í notkun nýtt geymslusvæði bæjarins að Ártúni 8 og loka eldra svæði að Hjallatúni 1.

    Ekki hafa verið í gildi sérstakar reglur um geymslusvæðið, fyrir utan stutt ákvæði á annars vegar umsóknareyðublaði og hins vegar í gjaldskrá fyrir svæðið.

    Lögð eru fram drög að nýjum reglum fyrir geymslusvæði.
    Höfð var hliðsjón af reglum annarra sveitarfélaga. Samráð var einnig haft við starfsmenn áhaldahúss o.fl. um útfærslu.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 267 Undir þessum lið er almennt rætt um stöðuleyfi og framtíð geymslusvæðis. Rætt um einstaka liði tillögunnar.

    Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við þessi drög og felur skipulagsfulltrúa að útbúa endanlega tillögu að reglum og leggja fyrir bæjarstjórn samhliða tillögu að gjaldskrá geymslusvæðis.
    Bókun fundar Til máls tóku JÓK, GS, LÁB og BS.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð fram fyrirspurn frá Skógræktarfélagi Eyrarsveitar um afstöðu sveitarfélagsins til birkiskógræktar í landi Hallbjarnareyrar. Að sögn Skógræktarfélags Eyrarsveitar hefur landeigandinn, sem er ríkissjóður, óskað eftir afstöðu bæði sveitarfélagsins og leigjenda jarðarinnar.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 267 Signý víkur af fundi undir þessum lið.

    Ekki er unnt að taka afstöðu til tillögunnar á þessum tímapunkti m.v. framlagðar upplýsingar.
    Skipulags- og umhverfisnefnd telur þörf á frekari upplýsingum og felur skipulagsfulltrúa að ræða við formann Skógræktarfélags Eyrarsveitar.

    Signý tók aftur sæti sitt á fundinum.
    Bókun fundar JÓK og SG véku af fundi undir þessum lið og SGG tók við stjórn fundarins.

    Til máls tóku SGG og BS.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

    JÓK og SG tóku aftur sæti sitt á fundinum.
  • Rekstraraðilar veitingastaðar að Nesvegi 5 fyrirhuga breytingar á loftræsingu í eldhúsi veitingastaðarins. Nýtt útkast yrði á bakhlið hússins.

    Lögð fram greinargerð Eflu fyrir þeirra hönd.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 267 Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að láta fara fram minniháttar grenndarkynningu fyrir eigendum nærliggjandi húsa þegar fullnægjandi gögn hafa borist. Um er að ræða fasteignir á Eyrarvegi 3, 5 og 7, Nesvegi 7 og Hrannarstíg 2 og 4.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Skipulagsfulltrúi greinir frá hugmyndum og tillögum sem eru til umræðu um frágang lóða við Grundargötu 57 og 59, legu fyrirhugaðrar gangstéttar og breytinga á gatnamótum Grundargötu og Fagurhólstúns.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 267 Lagt fram til kynningar og umræðu.

    Málið er í vinnslu.
    Bókun fundar Til máls tóku JÓK og GS.

6.Fjárhagsáætlun 2025 - viðauki 2

Málsnúmer 2409008Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki 2 við fjárhagsáætlun 2025 til samþykktar í bæjarstjórn.

Helstu breytingar á fjárhagsáætlun ársins eru vegna 25,3 millj. kr. hækkunar launakostnaðar á fjórar deildir. Á móti er lækkun kostnaðar upp á 6.650 þús. kr. og aukning tekna upp á 5 millj. kr. Færðar eru 3 millj. kr. fjárfesting af eignasjóði á Sögumiðstöð. Sjóðsstreymi í lok árs 2024 er leiðrétt.

Áætluð jákvæð rekstrarniðurstaða lækkar um 13,6 millj. kr. í viðauka 2 og verður 60,4 millj. kr. Áætlað sjóðsstreymi skv. viðauka 2 er 38,9 millj. kr. í lok árs 2025.

Allir tóku til máls.

Samþykkt samhljóða.

7.Útboð á sölu byggingarréttar á miðbæjarreit

Málsnúmer 2504009Vakta málsnúmer

Lagðir fram sérstakir úthlutunar- og útboðsskilmálar vegna útboðs á byggingarrétti miðbæjarreits.

Bæjarstjórn felur bæjarráði og bæjarstjóra umboð til ákvarðanatöku málsins.

Samþykkt samhljóða.

8.Landsbyggðin lifi - Fyrirspurn um samstarf

Málsnúmer 2503002Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf félagsins Landsbyggðin lifi, dags. 4. mars sl., varðandi norrænt verkefni sem kallast "Coming, Staying, Living."

Bæjarstjórn vísar málinu til skoðunar í bæjarráði.

Samþykkt samhljóða.

9.Heilbrigðisnefnd Vesturlands - Fundargerðir 2025

Málsnúmer 2503021Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 194. fundar Heilbrigðisnefndar Vesturlands sem haldinn var 10. mars sl.

10.HEV - Ársreikningur 2024

Málsnúmer 2503022Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands vegna ársins 2024.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 15:29.