Lóðarhafi, G. Run hf., hafði lagt fram beiðni um breytingu á gildandi deiliskipulagi á hafnarsvæði austan Nesvegar, þ.e. á lóð við Nesveg 4a, sem tekin var fyrir á 225. fundi nefndarinnar þann 17. febrúar sl. Breytingin fólst í stækkun á byggingarreit á lóðinni og voru einnig lagðar fram teikningar af fyrirhugaðri byggingu. Á lóðinni stóð áður hús sem nú hefur verið rifið.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á umræddum fundi framlagaða tillögu að óverulegri deiliskipulagsbreytingu og fól byggingarfulltrúa að grenndarkynna hana í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Á 225. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var óskað eftir áliti Hafnarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þar sem um er að ræða hafnsækna starfsemi; skipulagsmál á hafnarsvæði.
Nú er lögð fram til afgreiðslu hjá skipulags- og umhverfisnefnd breytt tillaga frá áður framlagðri og samþykktri tillögu og erindi lóðarhafa. Er tillagan unnin og lögð fyrir skipulags- og umhverfisnefnd og nú einnig fyrir hafnarstjórn, eftir samráð lóðarhafa, hafnarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa.
Þessi fundur er haldinn sameiginlega með skipulags- og umhverfisnefnd, sem skilar eigin fundargerð um þennan sameiginlega fund.
Hafnarstjórn - 14Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins varðandi lóðina að Nesvegi 4a.
Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillöguna og það samtal sem fram hefur farið m.a. milli hans, lóðarhafa og hafnarstjóra.
Breytingin snýst um að byggingarreitur lóðarinnar verði stækkaður til suðurs og vesturs, en að auki er um að ræða breikkun á götu sem liggur norðaustan við lóðina.
Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar (haldinn samhliða þessum fundi hafnarstjórnar) er skipulags- og byggingarfulltrúa falið að grenndarkynna þessa tillögu, sem óverulega deiliskipulagsbreytingu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Hafnarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti það fyrirkomulag sem felst í framlagðri tillögu og undirbúin hefur verið af hafnarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa.
Hafnarstjórn og hafnarstjóri leggja til að á næstu vikum verði aftur haldinn sameiginlegur fundur hafnarstjórnar og skipulags- og umhverfisnefndar um skipulags- og þróunarmál á hafnarsvæði. Auk þess hefur bæjarstjórn samþykkt tillögu hafnarstjórnar um að endurskoða deiliskipulag hafnarsvæðis austan Nesvegar, og tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að vinna deiliskipulag á Framnesi. Sú vinna mun að ýmsu leyti fara fram samhliða og mun hefjast á árinu.