Málsnúmer 2109017

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 230. fundur - 12.10.2021

Lögð fram fyrirspurn um túlkun skipulags- og byggingarnefndar á því hvort rekstur kaffihúss, netverslunar og kaffibrennslu falli undir skilgreiningu um minniháttar starfsemi í íbúðarbyggð samkvæmt skilgreiningu í Aðalskipulagi Grundarfjarðar.
Húsið er á reit sem skilgreindur er fyrir íbúðarbyggð skv. aðalskipulagi. Í skipulagsreglugerð, grein 6.2, er að finna skilgreiningu á landnotkunarflokknum "íbúðarbyggð" og segir þar: "Svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins."

Á 229. fundi skipulagsnefndar var lögð fram fyrirspurn um skipulagsmál er varðar túlkun nefndarinnar um minniháttar starfsemi í íbúðarbyggð. Með vísun í frekari skýringar fyrirspyrjanda og bréf hans dags. 11.10.2021 hefur húsið gegnt margskonar hlutverki í langan tíma.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að umrædd starfsemi (lítið kaffihús, netverslun og kaffibrennsla) falli undir skilgreiningu um minniháttar starfsemi, sbr. kafla 4.1 í greinargerð með Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039.
Óski fyrirspyrjendur eftir því að reka umrædda starfsemi í húsinu, sbr. fyrirspurn þeirra, felur nefndin skipulagsfulltrúa að grenndarkynna fyrirhuguð áform um minniháttar starfsemi í húsinu til nærliggjandi lóðarhafa og þeirra sem gætu átt hagsmuna að gæta sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Um væri að ræða eigendur að Grundargötu 19, 20, 21, 21a, 23, húsfélags að Grundargötu 26-28 og Borgarbraut 1. Ennfremur er bent á, að hyggist lóðarhafi gera breytingar á húsnæðinu gæti þurft byggingarleyfi.

Nefndin setur fyrirvara um endurskoðun, reynist umfang starfseminnar meira en getið er í lýsingu og með tilliti til hugsanlegra athugasemda sem kunna að berast.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 232. fundur - 25.01.2022

Á 231. fundi nefndarinnar var tekið fyrir erindi lóðarhafa að Grundargötu 24, vegna fyrirspurnar um breytingu á notkun húss og um
túlkun nefndarinnar á því hvort rekstur kaffibrennslu og fleira félli undir skilgreiningu um minniháttar starfsemi í íbúðarbyggð sbr. skilgreiningu í Aðalskipulagi Grundarfjarðar.

Nefndin taldi að umrædd starfsemi félli undir skilgreiningu um minniháttar starfsemi sbr. kafla 4.1. í greinargerð með Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, sbr. gr. 4.3.1 og gr. 6.2 í skipulagsreglugerð. Nefndin fól skipulagsfulltrúa að grenndarkynna fyrirhuguð áform til nærliggjandi lóðarhafa.

Grenndarkynningartímabil var frá 16. desember 2021 til 14. janúar 2022. Á kynningartíma bárust engar athugasemdir en ein jákvæð umsögn barst þar sem ekki er gerð athugasemd vegna fyrirhugaðrar starfsemi.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í fyrirhugaða breytingu og leggur til við bæjarstjórn að samþykkja áformin.