11. fundur 29. apríl 2024 kl. 11:00 - 14:00 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) formaður
  • Arnar Kristjánsson (AK)
  • Garðar Svansson (GS)
Starfsmenn
  • Hafsteinn Garðarsson (HG) hafnarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund, gengið var til dagskrár.

1.Ársreikningur 2023

Málsnúmer 2403036Vakta málsnúmer

Ásreikningur Grundarfjarðarhafnar 2023 lagður fram til afgreiðslu.



Ársreikningur bæjar og hafnar hefur verið ræddur við fyrri umræðu í bæjarstjórn, en síðari umræða fer fram 7. maí nk.



Á árinu 2023 var landaður afli 17.203 tonn í 807 löndunum. Árið 2022 var landað 27.112 tonnum í 1.074 löndunum en árið 2021 var landað 23.677 tonnum í 1.032 löndunum.



Samkvæmt ársreikningnum eru heildartekjur hafnarsjóðs 188,5 millj. kr. árið 2023, en voru um 203,5 millj. kr. árið 2022 og um 141 millj. kr. árið 2021.

Rekstrargjöld, þar með talin laun, voru 113,5 millj. kr. en voru 97,6 millj. kr. árið 2022.

Afskriftir fastafjármuna voru 13,9 millj. kr., samanborið við 12,8 millj. kr. árið 2022. Að teknu tilliti til afskriftanna er rekstrarniðurstaða hafnarsjóðs jákvæð um 61,1 millj. kr. árið 2023, en var jákvæð um tæpar 93 millj. kr. árið 2022.

Fjárfest var fyrir tæpar 44 millj. kr. á árinu. Fjárfestingar síðustu ára voru 40,6 millj. kr. árið 2022, tæpar 42 millj. kr. árið 2021, 133,5 millj. kr. árið 2020 og 121,3 millj. kr. árið 2019, eða samtals rúmar 381 millj. kr. síðustu fimm árin.

Höfnin er skuldlaus.

Ársreikningur Grundarfjarðarhafnar 2023 samþykktur samhljóða af hafnarstjórn.

Hafnarstjórn lýsir ánægju með að niðurstaða ársins er umfram áætlun ársins.

2.Grundarfjarðarhöfn - Framkvæmdir 2024

Málsnúmer 2312004Vakta málsnúmer

Hafnarstjóri fór yfir helstu framkvæmdir ársins.



Yfirstandandi er endurnýjun á steyptri þekju Norðurgarðs, um 200 m2 hluti. Þá eru eftir um 200 m2 til viðbótar og verður lokið við þá í haust samhliða frágangi lagna á svæðinu.

Höfnin hefur fest kaup á tveimur nýjum, stórum fríholtum, sem notuð eru fyrir skemmtiferðaskip sem leggjast að Norðurgarði. Nýju fríholtin eru stærri og öflugri en þau sem keypt voru í fyrra. Hafnarstjórn stefnir að því að kaupa tvö stór fríholt til viðbótar á næsta ári.

Ledlýsing hefur verið sett í alla almenna ljósastaura á öllu hafnarsvæðinu og eldri perum skipt út.

Ný rafmagnstafla er komin en eftir er að setja hana upp, í elsta rafmagnshúsi hafnarsvæðisins. Skipt hefur verið um hurð á tveimur rafmagnshúsum, því elsta og svo inná Suðurgarði.

Í sumar verða málaðir (sprautaðir) bryggjukantar, pollar og stigar. Svæði við smábátaplanið við Suðurgarð og við bæjarskiltið verða snyrt til.

Rætt um smábátaplan við Suðurgarð og möguleika á að malbika á því svæði í sumar. Hafnarstjóra falið að óska upplýsinga um verð í malbikun sbr. umræður fundarins.

Búið er að ræða við öll fyrirtæki á hafnarsvæðinu um árlega vortiltekt og eru allir farnir að taka til eftir veturinn, að sögn hafnarstjóra.

Rætt um salernisaðstöðu á hafnarsvæðinu. Í ár, eins og í fyrra, verður leigð salerniseining fyrir gesti skemmtiferðaskipa.

Hafnarstjóri ítrekaði ósk sína frá apríl 2023 um að byggð verði viðbygging og salernisaðstaða við núverandi hafnarhús við hafnarvog, til að fullnægja þörfum vaxandi fjölda gesta skemmtiferðaskipa. Hinsvegar ber að líta til þess að skipulagsmál á hafnarsvæðinu hafa verið í örri breytingu og er ekki lokið.

3.Grundarfjarðarhöfn - Komur skemmtiferðaskipa

Málsnúmer 2110004Vakta málsnúmer

Hafnarstjóri fór yfir stöðuna.

Skemmtiferðaskipakomur voru 62 á síðasta ári og farþegar 47.000 talsins.
Um 77 skipakomur eru bókaðar fyrir árið 2024, með farþegafjölda um 57.000 talsins. Svipaður fjöldi bókana er fyrir árið 2025 og fyrir árið 2026 hafa þegar verið bókaðar 60 komur.

Á aðalfundi Cruise Iceland fyrir skömmu varð breyting á stjórn og á árgjöldum. Gjöldin miðast við fjóra flokka, út frá stærð hafna (fjöldi móttekinna gesta). Grundarfjarðarhöfn er í flokki II, þ.e. með farþegafjölda á bilinu 10-50.000 og verður gjaldið því 690.000 kr. í ár.

Formaður sagði frá því að menningarnefnd, sem sér einnig um markaðsmál, og forstöðumaður bókasafns og menningarmála hafi skoðað möguleikann á að nýta menningarhúsin betur í sumar, þegar gestafjöldinn er sem mestur. Er það í takt við það sem fram hefur komið í samtali við Margréti Björk, forstöðumann Áfangastaða- og markaðsstofu Vesturlands, sem stýrt hefur verkefni með höfnum og sveitarfélögum á Snæfellsnesi vegna móttöku skemmtiferðaskipa. Einnig er ætlunin að auka framboð menningarviðburða í Sögumiðstöðinni á komandi mánuðum.

4.Skipulagsmál á hafnarsvæði

Málsnúmer 2009033Vakta málsnúmer

Farið yfir stöðu skipulagsmála og undirbúning vegna verkefna sem eru í gangi.



Halldóra Hreggviðsdóttir og Árni Geirsson frá Alta voru gestir undir þessum lið til að fara yfir stöðuna. Halldóra hefur unnið með hafnarstjóra að undirbúningi fyrir umsókn um leyfi til efnistöku af hafsbotni.

Árni hefur aðstoðað hafnarstjórn við forsendugreiningu vegna stækkunar hafnarsvæðis, sbr. umræður á síðasta fundi.



Farið yfir stöðu skipulagsmála á hafnarsvæði og á aðliggjandi svæðum. Unnið er í greiningu á forsendum, einkum fyrir stækkað suðursvæði, en ekki er tekin ákvörðun að sinni um að hefja deiliskipulag á suðursvæði. Málin tengjast næsta dagskrárlið og eru rædd í samhengi.

Gestir

  • Árni Geirsson, ráðgjafi, Alta - mæting: 12:30
  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi, Alta - mæting: 12:30

5.Grundarfjarðarhöfn - Efnistaka úr sjó, leyfismál

Málsnúmer 2402023Vakta málsnúmer

Halldóra Hreggviðsdóttir er áfram gestur undir þessum dagskrárlið, vegna undirbúnings umsóknar um leyfi til efnistöku úr sjó og mats á umhverfisáhrifum efnistökunnar.



Halldóra og Hafsteinn fóru yfir niðurstöður mælinga, sem fram fóru fyrir skemmstu.

Fyrir liggur skýrslan "Sjávardýpi og jarðlög í Grundarfirði" sem Kjartan Thors vann í samvinnu við Guðbjörn Margeirsson hjá Köfunarþjónustunni.

Dagana 9. - 11. apríl 2024 fóru fram mælingar á sjávardýpi og setþykkt í
Grundarfirði, en um það sá Guðbjörn Margeirsson, jarðfræðingur hjá Köfunarþjónustunni.
Tilgangur verksins var m.a. að kanna möguleika á efnistöku af hafsbotni til framtíðarlandfyllingar. Útbúið var dýptarkort af mælingasvæðinu, en úrvinnsla setþykktarmælinganna og skýrslugerð var í höndum Kjartans Thors.

Við dýptarmælingarnar var beitt fjölgeislamæli Köfunarþjónustunnar og staðsetningarbúnaði og setþykkt einnig mæld. Mælingarnar voru gerðar á báti Köfunarþjónustunnar, Kríu. Mælingalínur voru með 60 metra bili og lágu N-S. Fjórar þverlínur voru auk þess mældar.

Frekari mælingar munu fara fram og auk þess frekari úrvinnsla gagna yfir í þrívíddargögn af mælingasvæðinu.
Gögnin verða m.a. nýtt til undirbúnings umsóknar um efnistöku af hafsbotni.

6.Grundarfjarðarhöfn - úrgangsmál

Málsnúmer 2010040Vakta málsnúmer

Vegna fyrirhugaðra breytinga á sorpmálum, m.a. aukinnar flokkunar, hafa verið sendar leiðbeiningar hafnarinnar til skipa um úrgangsmál.



Höfnin á von á að fá nýja gáma undir sorp, af annarri tegund en verið hafa notaðir og verða þeir leigðir af Íslenska gámafélaginu, sem er þjónustuaðili hafnar og bæjar.

7.Gunnar Kristjánsson - Um bætt aðgengi - Erindi til hafnarstjórnar

Málsnúmer 2401023Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi um bætt aðgengi fyrir gangandi vegfarendur, sem eru gestir af skemmtiferðaskipum, bæði að Kirkjufellsfossi og Grundarfossi. Fram kemur í bréfinu að malbikaða göngustíga vanti að þessum náttúruperlum, en slíkir stígar myndu einnig skapa möguleika til hjólreiða. Áhyggjum er lýst af því að þeir sem fara fótgangandi haldi sig á þjóðveginum og þar stafi þeim hætta af umferð sem um sumartímann er mikil beggja vegna við Grundarfjörð á báðum akreinum.

Hafnarstjórn þakkar Gunnari fyrir gott og þarft erindi.

Hafnarstjórn tekur undir áhyggjur bréfritara af umferð gangandi vegfarenda á umræddum leiðum og telur brýnt að stígar verði lagðir fyrir gangandi og hjólandi, að bæði Kirkjufellsfossi og Grundarfossi.

Formaður sagði frá því að undirbúningur hefði farið fram á vegum bæjarstjórnar fyrir nokkrum árum og leiðir þessar verið skoðaðar, sem og kostnaður við lagningu stíga. Þrátt fyrir að fyrir lægi loforð um mótframlag Vegagerðarinnar, þá væri um kostnaðarsamar framkvæmdir að ræða og hefði bæjarstjórn forgangsraðað gangstéttum innanbæjar framar en framkvæmdum við stígagerð út úr bænum.

Formaður rifjaði upp fjárhæðir sem innheimtar eru sem farþegagjöld, einkum af gestum skemmtiferðaskipa, og ákvæði um þau.

Hafnarstjórn hvetur bæjarstjórn til að undirbúa framkvæmdir við gerð göngustíga sem fari fram eins fljótt og kostur er.


8.Hafnasamband Íslands - Fundargerðir 2024

Málsnúmer 2402019Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Hafnasambands Íslands af fundum nr. 460 og 461, sem haldnir voru 15. janúar og 16. febrúar 2024.

9.Hafnasamband Íslands - Ársreikningur 2023

Málsnúmer 2404008Vakta málsnúmer

Ársreikningur Hafnasambands Íslands 2023 lagður fram til kynningar.
Lokið var við fundargerð að afloknum fundi og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 14:00.