Jólastemning í leikskólanum

  Glatt var á hjalla í leikskólanum í gær. Foreldrafélagið stóð fyrir samverustund og voru piparkökur málaðar af mikilli list. Heitt kakó var á könnunni og allir í jólaskapi.  

Refaveiði

Bæjarráð Grundarfjarðar hefur samþykkt að frá og með 1. desember 2009 verður ekki greitt fyrir veiddar tófur.

Fjölmargar ábendingar bárust

Fyrir stuttu voru Grundfirðingar hvattir til að senda inn ábendingar, sparnaðarhugmyndir og/eða tillögur um leiðir til að bæta starfsemi sveitarfélagsins. Nú þegar frestur til skila er runnin út hafa fjölmargar ábendingar borist.   Hér má finna samantekt yfir þær hugmyndir sem bárust. Þær eru athygliverðar og margar tiltölulega einfaldar í framkvæmd. Öllum sem þátt tóku eru færðar þakkir fyrir fyrirhöfnina og áhugann á málefnum bæjarfélagsins. Vert er að taka fram að það er aldrei of seint fyrir góðar hugmyndir. Ábendingum og tillögum verður áfram tekið fagnandi. 

Fótboltasamtarfið á Snæfellsnesi

Fótboltasamstarfið á Snæfellsnesi ætlar í samstafi við  strákana í hljómsveitinni Matti IDOL og Draugabanarnir að halda ,, jólaball“ fyrir fótboltakrakkana á Snæfellsnesi. Það kostar ekkert inn og vonumst við til þess að sjá sem flesta! Staður og stund: Fimmtudagur 3. desember 2009 Samkomuhúsið í Grundarfirði 5. flokkur og yngri  mæta kl 18:30 og verða til 20:00 4. 3. og 2. fl mæta kl 20:30 og verða til kl 22:00 Draugabanarnir taka ekkert fyrir að spila fyrir krakkana og þökkum við þeim kærlega fyrir framtakið.  

Styrkir til úrbóta á ferðamannastöðum 2010

Ferðamálastofa auglýsir styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2010. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni tengd sjálfbærri ferðaþjónustu fyrir alla sem hafa heildrænt skipulag og langtímamarkmið að leiðarljósi.   Nánari upplýsingar má finna á vef Ferðamálastofu 

Aðventuhátíð í Grundarfirði

  Eins og eftir pöntun klæddist Grundarfjörður vetrarskrúða nóttina fyrir aðventuhátíðina. Aðventuhátíð Kvenfélagsins Gleym mér ei í Samkomuhúsinu tókst mjög vel. Margir mættu og allir í hátíðarskapi. Eftir skemmtilega og fjölbreytta dagskrá í Samkomuhúsinu var haldið í miðbæinn. Þar spilaði Lúðrasveit tónlistarskólans og nokkrir kátir jólasveinar mættu. Svo var jólatréð lýst upp við mikinn fögnuð viðstaddra.   Myndir má nálgast hér.

Íþróttamaður ársins

  Á aðventuhátíð Kvenfélagsins Gleym mér ei s.l. laugardaginn var valinn íþróttmaður ársins 2009. Að þessu sinni hlaut Dominik Bajda titilinn fyrir afburða árangur á knattspyrnuvellinum. Auk þess þykir Dominik sterk og góð fyrirmynd og hann gefur mikið af sér til yngri iðkenda íþróttarinnar.

Vinahúsið Grund fer vel af stað

  Rúmlega 30 manns mættu á hátíðaropnun Vinahússins Grundar s.l. fimmtudag. Steinunn Hansdóttir, umsjónarkona Grundar tók á móti gestum með dýrindis veitingum og fræddi þá um markmið og tilgang starfsins. Vinahúsið verður opið þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 14:00 – 16:00.

Félög í Grundarfirði kynna starfsemi sína

Kvenfélagið Gleym mér ei var með opið hús á Rökkurdögum sunnudaginn 25. okt. í Samkomuhúsinu. Tilgangurinn var að kynna félagið, tilgang þess og starfsemi. Félögum í Grundarfirði og Eyrarsveit var boðið að taka þátt í kynningardeginum og þáðu það 18 félög af þeim 22 sem náðist til. Með þessu vildi kvenfélagið styðja við þátttöku almennings í hvers konar félags- og tómstundastarfi. Þótti kynningin takast vel og stóðu þátttakendur sig með sóma eins og myndir frá deginum sýna. Lúðrasveit Tónlistarskólans spilaði fyrir gesti. SuN  

Íþróttamaður Grundarfjarðar 2009

Íþróttamaður Grundarfjarðar árið 2009 verður kjörinn laugardaginn 28. nóvember á aðventudegi fjölskyldunnar í samkomuhúsinu. Afhending viðurkenninga og verðlauna byrjar um kl. 15.00. Að þessu sinni eru fjórir einstaklingar tilnefndir. Kosning fór þannig fram að íþrótta - og tómstundanefnd kallaði eftir tilnefningum frá íþróttafélögum um íþróttamann ársins og síðan voru þessir aðilar kallaðir til leynilegrar kosningar.