Eins og komið hefur fram hér á vefsíðu Grundarfjarðarbæjar er Leikskólinn Sólvellir stofnun maímánaðar. Hér að neðan er stuttur pistill frá leikskólanum.

 

Leikskólinn er fyrsti skóli barnsins, fyrsta skólastigið í menntakerfinu. Í leikskóla fer fram uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri. Orðið menntun er notað í víðri merkingu, það er uppeldi, umönnun, nám og kennsla. Í Leikskólanum Sólvöllum eru 56 nemendur á tveimur deildum. Stúlkur eru 36 og drengir eru 20. Boðið er upp á dvöl frá fjórum og upp í níu og hálfan klukkutíma á dag. Meðaldvalartími á barn er 6,3 tímar á dag. Leikskólinn er fyrir börn frá tveggja ára aldri. Tekin eru inn yngri börn ef aðstæður leyfa. Leikskólinn opnar kl: 7:40 og lokar 17:15. Leikskólastarfið er fléttað saman af fjölbreyttum námsviðum, leik og daglegu lífi. Leikskólinn starfar eftir aðalnámskrá leikskóla sem gefin var út af Menntamálaráðuneytinu 1999. Skólanámskrá leikskólans var gefin út 2003 og má finna hana á vefsíðu leikskólans.