Háskólalestin hefur ferðast víða, tuttugu ferðir að baki frá vorinu 2011! En í fimmtu ferð lestarinnar árið 2014 er fyrirhugað að heimsækja Snæfellsbæ og Grundarfjörð. 

Og sem fyrr er lögð áhersla á lifandi, skemmtilega vísindamiðlun til ungs fólks og litríka dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Föstudaginn 29. ágúst verður Háskólalestin í Ólafsvík en þá sækja nemendur úr 7.-10. bekk Grunnskóla Snæfellsbæjar og Grunnskóla Grundarfjarðar námskeið úr Háskóla unga fólksins. Meðal annars verður kennd eðlisfræði, stjörnufræði, næringarfræði, hugmyndasaga, japanska og ýmislegt fleira spennandi.  

Laugardaginn 30. ágúst verður svo slegið upp veglegri vísindaveislu í Fjölbrautarskóla Snæfellinga á Grundarfirði frá kl. 12 til 16. Þar verða meðal annars magnaðar sýnitilraunir, japanskir búningar og skrautskrift, leikir og þrautir, ýmis tæki og tól, furðuspeglar, mælingar og alls kyns óvæntar uppgötvanir.

Sprengjugengið landsfræga verður með í för og sýnir kl. 12.30 og 14.30. Sýningar verða í hinu sívinsæla stjörnutjaldi á 30 mínútna fresti. 

Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.