Uppi eru áform um verulegt átak í skógrækt í Grundarfirði. Skógræktarfélag Eyrarsveitar hefur staðið fyrir gróðursetningu í hlíðina fyrir ofan bæinn í nokkur ár, en nú stendur til að gera meira. 

 

Grundarfjarðarbær hefur mikinn metnað til að gera vel í umhverfismálum. Einn meiður þess er að takast á við ræktun græns trefils umhverfis núverandi byggð og væntanleg nýbyggingasvæði, en veruleg uppbygging hefur verið á Grundarfirði undanfarin ár. Mun Skógræktarfélag Íslands taka að sér að skipuleggja þetta væntanlega skógræktarsvæði, sem taka mun til heppilegs lands á útmörk bæjarins. Markmiðið er ræktun fjölbreytts, skjólmyndandi og aðgengilegs útivistarskógar á útmörk byggðarinnar.