Frétt úr Bæjarins besta:

Grundarfjarðarbær, Fjarðarbyggð, Ísafjarðarbær og Fjölmenningarsetur hafa átt í samstarfi um þýðingu á stöðluðum húsaleigusamningi á pólsku. Pólverjar eru langfjölmennasti hópur innflytjenda á Íslandi.

Elsa Arnardóttir, forstöðumaður Fjölmenningarseturs, segir fólk þurfa húsnæði um leið og það komi til landsins. „Því getum við ekki gert kröfu um að fólk sé farið skilja íslensku þegar það gengur frá húsaleigusamningi. Þetta er dæmi um skjal sem léttir öllum lífið“, segir Elsa. Þýðingin er bæði á pólsku og íslensku. „Það var talið mikilvægt að hafa íslenskuna með svo að ekki fari á milli mála hvaða ákvæði er verið að tala um og einnig styður það undir íslenskunámið að hafa hana með“, sagði Elsa.

Fjölmenningarsetur dreifir samningnum til allra sem þess óska.

kristinn@bb.is