Setbergsprestakall í Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi.

Prestakallið fylgir mörkum Eyrarsveitar og er ein sókn með tveimur kirkjum, Grundarfjarðarkirkju og Setbergskirkju.

Setbergskirkja (við veg 576) er lítil, turnlaus kirkja úr timbri, byggð 1892 af Sveini Jónssyni snikkara úr Stykkishólmi en í henni er að finna muni úr eldri kirkjum.  Hún var helguð heilögum krossi í katólskri tíð. 

Á Setbergi hefur verið kirkja frá því á 12 öld.  Meðal merkra klerka, sem sátu staðinn, var Steinn Jónsson (1660-1739), sem varð biskup á Hólum 1711.  Hann lét prenta alla biblíuna á Hólum 1728 í þriðja skiptið hérlendis. 
Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, sem ræktaði líklega fyrstur manna kartöflur hérlendis, var prestur á Setbergi í nokkur ár og dvaldi þar hjá eftirmanni sínum, Birni Þorgrímsyni (1750-1866), sem samdi æviminningar hans, til dauðadags.   Margir aðrir merkir prestar sátu staðinn síðar. Lesa má lýsingu á heimsókn að Setbergi í endurminningum Jóns Steingrímssonar (1728-1791) eldklerks.

Grundarfjarðarkirkja var byggð í nýju kauptúni, Grafarnesi, upp úr 1960 og vígð 31. júlí 1966. Þangað fluttist einnig aðsetur sóknarprestsins og varð kirkjan aðalsóknarkirkjan með safnaðarheimili í kjallara. 

Setbergskirkjugarður er rétt framan við Setbergskirkju. 

Sóknarkirkja var á Hallbjarnareyri fram undir 1500.