Nokkur listaverk prýða umhverfið okkar í Grundarfirði. Auk tignarlegra listaverka náttúrunnar sjálfrar má sjá ýmis verk listafólks víðsvegar um bæinn.

Sólrún Halldórsdóttir - "Veðurlistaverkið" - 112 orð yfir vind og veðurbrigði

Á íslensku má finna yfir 130 orð yfir vind. Sólrún Halldórsdóttir listamaður hefur valið 112 orð með tilvísun í neyðarnúmer á Íslandi. Íslendingar eru margir hvergir háðir veðri í sínum daglegu störfum og varla líður sá dagur að veðrið berist ekki í tal manna á milli. Orðunum er raðað upp eftir vindhraða og stuðst við veðurkóða Veðurstofu Íslands, nema hér eru litatónarnir mun fleiri. Oft ræður tilfinning hvar orðið lendir, en einnig er stuðst við frásagnir eldra fólks.

Sólrún Halldórsdóttir er fædd árið 1964 og uppalin í Grundarfirði, næst yngst hjónanna Halldórs Finnssonar og Pálínu Gísladóttur. Mikið var lesið á heimilinu, móðirin rak bókabúð hér í Grundarfirði og snemma fékk Sólrun mikla ást á íslenskri tungu.

Verkið er 18 metra langt og 60 cm breitt. Efniviður er grjót, stál og harðviður.

Verkið stendur ofarlega við Hrannarstíg, nálægt Grundarfjarðarkirkju. Það var sett upp vorið 2021 og afhjúpað 4. júní 2021. Það var frú Eliza Reid og hin tveggja ára Elísa Gunnarsdóttir sem það gerðu.

Um veðurlistaverkið á fleiri tungumálum 

 

Lúðvík Karlsson - alþýðulistamaðurinn Liston

Lúðvík Karlsson, einnig kallaður Liston, er alþýðulistamaður með aðsetur í Grundarfirði.
Nokkrir tugir steinmynda eru til sýnis út um allan bæ. Liston er með vinnustofu að Sólvöllum 6. Á útiplaninu og í rúmgóðri vinnustofu má skoða listaverkin hans, fylgjast með honum við vinnu og á endanum fjárfesta í einstökum minjagrip til að taka með heim. Það kostar ekkert að kíkja inn á vinnustofuna hans Listons og hann er frábær spjallari! 

  

 

Styttan „Sýn“ eftir Steinunni Þórarinsdóttur

Styttan „Sýn“ stendur við Grundarfjarðarkirkju sunnarlega í bænum. Sýn er sett upp til heiðurs lífi og starfi sjómanna og er gerð af listakonunni Steinunni Þórarinsdóttur. Steinunn er heimsþekkt fyrir listaverk sín sem prýða borgir og umhverfi víða um heim. Verk hennar eru einnig sýnd í sýningarsölum víðsvegar um Evrópu, Japan, Bandaríkjunum og í Ástralíu.

Helsta einkenni styttunnar er sjómannskonan, sem stendur á ströndinni, horfir til hafs og bíður þess að ástvinir hennar komi að landi úr fiskiróðri. Lögun Kirkjufellsins er annað aðalatriði styttunnar. Fjallið er gert úr stáli og á að tákna hafið. Á sjómannadaginn árið 1989 afhjúpaði frú Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, listaverkið, en það var Sjómannadagsráð Grundarfjarðar sem hafði veg og vanda að kaupum og uppsetningu verksins.

 

   

  

Paimpol krossinn

Árið 2006 var reist minnismerki til minningar um franska sjómenn sem létust við fiskveiðar við strendur Íslands hér fyrr á öldum. Verkið er keltneskur kross sem settur var upp á Grundarkampi, austan þéttbýlisins, þar sem franskir sjómenn höfðu bækistöðvar um miðja 19. öld. Krossinn var gjöf frá vinum okkar í Paimpol á Bretaníuskaga í Frakklandi. Íslandsbærinn Paimpol er vinabær Grundarfjarðar, enda var sótt þaðan á íslensk fiskimið, m.a. við Grundarfjörð.

  

Háhyrningurinn eftir Unnstein Guðmundsson 

Árið 2016 var sett niður stytta af háhyrningi í raunstærð í Paimpolgarðinum sem er ofarlega í þéttbýlinu í Grundarfirði. Unnsteinn Guðmundsson gerði afsteypu eftir einstökum háhyrningi, „Thunderstorm“, sjá nánar hér. Hann kíkir oft í heimsókn í Breiðafjörðinn með fjölskyldu sinni og hefur m.a. heilsað upp á Unnstein á kajakferðum hans með ströndum Snæfellsness. Snæfellsnes er eini staðurinn á Íslandi þar sem háhyrningar koma reglulega og þetta listaverk vekur vissulega athygli á þessum áhugaverðu dýrum. 

  

Nina Zurier – Umkringja

Árið 2019 voru fimm ljósmyndir eftir Nina Zurier settar upp á einn vegg gamla Hraðfrystihússins við Nesveg 4, rétt við Grundarfjarðarhöfn. Þessi listaverk voru hluti af listsýningunni „Nr. 3 - Umhverfing“ sem sett var upp víðsvegar um Snæfellsnes sumarið 2019.

 

Bæringsstofa - Ljósmyndasafn Bærings Cecilssonar

Bæringstofa er lítill bíósalur í Sögumiðstöðinni og er þessi salur nefndur eftir ljósmyndaranum Bæring Cecilssyni (1923-2002). Skemmtileg glærusýning með myndum hans er sýnd í Bæringsstofu og lýsir uppbyggingu þéttbýlisins frá myndun þéttbýlisins Grafarness (seinna nefnt Grundarfjörður) stuttu eftir árið 1938 til ársins 2000.

Safn ljósmynda- og kvikmyndavéla Bærings frá sama tímabili er áhugavert fyrir áhugafólk í ljósmyndun.