Höfuðstaður Vesturlands

Þegar verslunin hér á landi var gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs árið 1786, jókst vegur Grundarfjarðar að mun frá því sem verið hafði á einokunartímanum. Þá var ákveðið, að þar skyldi vera einn þeirra sex kaupstaða, sem stofnaðir voru um leið og verslunin var gefin frjáls. Hinir verslunarstaðirnir voru Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar. Kaupstaðirnir sex áttu að vera miðstöðvar verslunar, útgerðar og iðnaðar hver í sínum landshluta. Auk þess áttu þeir að vera aðsetur ýmissa opinberra embættismanna og stofnana. Gert var ráð fyrir því að amtmaðurinn í nýstofnuðu Vesturamti settist að í Grundarfjarðarkaupstað. Grundarfjörður þótti vel í sveit settur sem kaupstaður miðsvæðis á Vesturlandi. Þar var ágæt höfn frá náttúrunnar hendi.

Með úrskurði konungs hinn 18. ágúst 1786 og auglýsingu sama dag voru kaupstaðarréttindi kaupstaðanna sex ákveðin og verslunin gefin frjáls öllum þegnum konungs frá 1. maí 1787. Hinn 17. nóvember 1786 gaf konungur út nánari tilskipun um kaupstaðina sex. Samkvæmt þeirri reglugerð náði kaupstaðarumdæmi Grundarfjarðar frá Hvítá í suðri að Bjarnarnúpi á Barðaströnd í norðri. Þannig náði kaupstaðarumdæmið yfir Mýrasýslu, Hnappadalssýslu, Snæfellsnessýslu, Dalasýslu og Barðastrandarsýslu að Bjarnarnúpi. Íbúar í kaupstaðarumdæmi Grundarfjarðar voru 7.438 árið 1791 og 8.187 árið 1801.

Á fyrstu tveimur áratugum fríhöndlunar (1787-1807) voru auk Grundarfjarðarkaupstaðar sex úthafnir í kaupstaðarumdæminu: Straumfjörður á Mýrum, Búðir, Arnarstapi, Ólafsvík, Stykkishólmur og Flatey. Þegar leið á fríhöndlunartímabilið, voru Straumfjörður og Arnarstapi tekir úr tölu verslunarstaða.

Með konungsúrskurði 6. júní 1787 var Ólafur Stephensen skipaður amtmaður í Vesturamti með aðsetri í Grundarfirði, en þegar til kastanna kom, þótti stjórnvöldum of dýrt að byggja yfir amtmann í Grundarfirði. Hafði Ólafur Stephensen amtmaður því aðsetur á eignarjörð sinni Ytra-Hólmi. (Sjá nánar, Tilskipun kaupstaðanna)

1807  voru kaupstaðaréttindin afturkölluð,  en veitt að nýju 1816  þegar Ísafjörður var sviptur þeim. Engu að síður varð þróunin ekki eins og vonast hafði verið eftir,  þannig að 1836 voru kaupstaðarréttindin endanlega afturkölluð. Árið 1897 samþykkti svo Alþingi að gera Grafarnes við Grundarfjörð að löggiltum verslunarstað.

Verslun hófst síðan í Grafarnesi og nokkur hús voru byggð, en ekki myndaðist  þar þéttbýli  fyrr en um 1940.

Meira í Pressan 25. apríl 2014.