Í bænum er Þríhyrningurinn, gamli róluvöllurinn, umlukinn skjólbelti, sem stundum er vettvangur hátíðarhalda og samkoma. Paimpol garðurinn er hluti af grænu svæði þar sem einu sinni var Steinatjörnin og hinum megin við Dvalarheimilið er Hönnugil. Sumt er búið að skipuleggja og annað bíður nýrra verkefna.

Ungmennafélag Grundarfjarðar, UMFG, ásamt bæjarfélaginu, hafa komið upp íþróttavelli með áhorfendastæðum sem oft er notaður til hátíðarhalda auk íþróttaiðkunar.

  

Skógræktarsvæði með göngustígum er í brekkunum og nær trjáræktin upp í bæði Hellnafellin ofan þéttbýlisins í Grundarfiði. 

Grillaðstaða er á aðkomusvæði skógræktarinnar við Ölkelduveg. Göngustígur liggur upp á reiðveg og annar niður að ölkeldunni í Ölkeldudal  sem er undir hverfisvernd.

Frisbígolfleið, 9 holu, liggur um skógræktina, rétt ofan við bæinn.

Skíðasvæðið er staðsett í brekkunum ofan við Grunnskólann í Grundarfirði, örstutt frá þéttbýlinu. Á veturnar eru gjarnan troðnar skíðagöngubrautir „út og suður“. 

    

Reiðvegurinn liggur með útjaðri þéttbýlisins, frá iðnaðarsvæðinu við Kverná, framhjá skíðasvæðinu og um skógræktarsvæðið (Brekkuskóg) og niður að hesthúsasvæðinu sem státar af reiðvelli og gerði. Reiðvegurinn endar við Kirkjufellsfoss.

Á Eiði í Kolgrafafirði er skógarreitur sem byrjað var að gróðursetja í árið 1990, innan Landgræðsluskógaverkefnis skógræktarfélaganna.

Skilarétt Eyrsveitunga er í Hrafnkelsstaðabotni, neðan vegar. Ofan vegar á grundunum er vettvangur Skotfélagsins Skotgrundar.

   

Í Suður-Bár við Framsveitarveg 576 er 9 holu golfvöllur Golfklúbbsins Vestarrs.

  

Melrakkaey liggur fyrir mynni Grundarfjarðar og er innan verndarsvæðis Breiðafjarðar sem verndað er með sérlögum nr. 54/1995. Óheimilt er að fara í eyna án leyfis.