Sveitarfélagið hét Eyrarsveit frá landnámstíð þar til árið 2000 að heitinu var breytt í Grundarfjarðarbær.

Þéttbýlið sem varð til um 1940 fékk heitið Grafarnes sem breytt var í Grundarfjörður 1965.

Mannlíf og menning

Grundarfjörður hefur lengi búið við stöðugt ástand í atvinnulífi sem skapað hefur jákvætt hugarfar og félagslegan styrkleika. Menningar- og félagslíf blómstrar, þorps- og sveitamenning nýtur sín með öflugri þátttöku íbúanna. Íþróttastarf hefur verið öflugt og geta íbúar jafnt yngri sem eldri notið góðrar aðstöðu til íþróttaiðkunar; á íþróttavelli, í íþróttahúsi, sundlaug og skíðalyftu rétt við bæjardyrnar. Hestamenn hafa byggt upp glæsilega aðstöðu í myndarlegu hesthúsahverfi í jaðri bæjarins. Öflugur golfklúbbur er starfandi og nýtir góðan 9 holu golfvöll í Suður-Bár.