Ungmennafélag Grundarfjarðar

Ungmennafélag Grundarfjarðar (UMFG) býður upp á æfingar í fimleikum, knattspyrnu, frjálsum íþróttum, badminton og íþróttaskóla fyrir yngstu iðkendurna.

Facebook
Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu

Ungmennafélag Eyrarsveitar var stofnað 10. júlí 1933. Í fyrstu stjórn voru: Gunnar Kristjánsson, Grund, formaður, Ásmundur Ásmundsson, Hömrum og Halldór E. Sigurðsson, Suður-Bár.

Á fyrsta ári var gefið út blaðið Dagbrún, að sjálfsögðu handskrifað og lesið upp á félagsfundum. Fyrsti ritstjóri var Karl Kristjánsson, Grund. Þetta blað kom út reglulega allt til 1942. Einnig var eitt af fyrstu verkum félagsins að koma upp bókasafni. Það gekk mjög vel, því að 1929 voru til 200 bækur. Þetta bókasafn var starfrækt á vegum ungmennafélagsins til 1956, er hreppurinn yfirtók bókasafnið.

Árið 1943, þegar félagið var 10 ára, gáfu nokkrir félagsmenn silfurskjöld er ber nafnið Steinþórsskjöldur, til minningar um kappann Steinþór Þorláksson á Eyri (Hallbjarnareyri). Um þennan skjöld var lengi vel keppt á hverju ári í frjálsum íþróttum. Fyrsta keppnin fór fram 1943 og varð þá hlutskarpastur Einar Skarphéðinsson, Hjarðarbóli. Allir fyrstu kappleikirnir fóru fram á Hallbjarnareyri í Eyrarodda. 

Það sem mest háði starfsemi félagsins var húsleysi. Hafist var handa við að byggja samkomuhús árið 1944. Ungmennafélagið lagði til helming á móti hreppsfélaginu. Hlutur ungmennafélagsins var að vísu eingöngu dagsverk. Árið 1946 var húsið langt komið og byrjaði þá félagið á íþróttavelli, sem var staðsettur við samkomuhúsið.