Bæringsstofa

Bæringsstofa er lítill bíósalur í Sögumiðstöðinni sem nefndur er eftir áhugaljósmyndaranum og Grundfirðingnum Bæring Cecilssyni (1923-2002). Ljósmyndasafn Bærings nefnist einnig Bæringsstofa en myndir úr safni hans eru sýndar í bíósalnum á opnunartíma Sögumiðstöðvar. Ljósmyndir Bærings spanna tímann frá myndun þéttbýlis í Grafarnesi (síðar Grundarfjörður) eftir 1938 og fram undir árið 2000. 

Bæring Cecilsson

Bæring Cecilsson fæddist og ólst upp á Búðum undir Kirkjufelli í Eyrarsveit 24. mars 1923. Hann lést 17. maí 2002. Móðir Bærings var Oddfríður Kristín Runólfsdóttir, húsmóðir, f. 21. febrúar 1898, d. 16. nóvember 1972, dóttir Pálínu Pálsdóttur og Runólfs Jónatanssonar bónda að Naustum í Eyrarsveit. Faðir Bærings var Cecil Sigurbjörnsson, bóndi og sjómaður að Búðum, f. 22. ágúst 1896, en hann fórst með línuveiðaranum Papey 20. febrúar 1933, eftir ásiglingu þýsks skips.

Árið 1945 fluttu Bæring og bræður hans ásamt móður þeirra að Grundargötu 17 í Grafarnesi sem var þá byrjað að vaxa upp sem þéttbýli við Grundarfjörð. Bæring átti heima þar alla tíð síðan, fyrir utan síðustu æviárin þegar hann bjó á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Fellaskjóli.

Bæring réri á eigin trillubáti með bróður sínum Soffaníasi frá 14 ára aldri. Síðar sótti hann vélstjóranámskeið hjá Vélskóla Íslands og starfaði síðan sem vélstjóri bæði á sjó og í landi. Eftir miðjan aldur vann hann á eigin vélaverkstæði sem hann rak að Borgarbraut 16. 

Bæring var áhugaljósmyndari og eftir hann liggur mikið safn ljósmynda sem spannar alla sögu þéttbýlis í Grundarfirði. Hann starfaði einnig sem fréttaljósmyndari Sjónvarpsins og dagblaða. Þá var Bæring gerður að heiðursborgara Grundarfjarðar árið 1997. 

(byggt á umfjöllun í Mbl, 1. júní 2002)

 

Bæringsstofa
Grundargötu 35
Sími 438 1881

Við hvetjum áhugasama til þess að fylla út umsókn um leigu á Bæringsstofu eða senda fyrirspurnir á grundarfjordur@grundarfjordur.is
 
Hér fyrir neðan má finna sýnishorn af myndum Bærings - smellið á myndirnar til að skoða viðkomandi myndasöfn: