Öflug persónuvernd er Grundarfjarðarbæ kappsmál. Sveitarfélagið leggur áherslu á að virða réttindi einstaklinga og að öll meðferð persónuupplýsinga sé ávallt í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 (hér eftir „persónuverndarlög“).

Þegar vísað er til Grundarfjarðarbæjar í persónuverndaryfirlýsingu þessari er einnig átt við stofnanir, nefndir og ráð á vegum sveitarfélagsins. Þá gildir yfirlýsingin einnig í þeim tilvikum er þriðja aðila hafa verið falin verkefni eða starfsemi á vegum sveitarfélagsins.

Hjá Grundarfjarðarbæ er unnið með persónuupplýsingar í tengslum við rekstur, stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélagsins. Unnið er með persónuupplýsingar íbúa og skjólstæðinga sveitarfélagsins auk samstarfsaðila, birgja, verktaka og einstaklinga sem eru í forsvari fyrir lögaðila sem eiga í viðskipta­sambandi við sveitarfélagið.

Með persónuverndaryfirlýsingu þessari er greint frá því hvernig Grundarfjarðarbær, kt. 520169-1729, Borgarbraut 16, 350 Grundarfirði (hér eftir nefnt„sveitarfélagið“), stendur að vinnslu, s.s. söfnun, skráningu, vistun og miðlun persónugreinanlegra upplýsinga um einstaklinga (hér eftir nefnt „þú“).

Persónuverndaryfirlýsing þessi nær til íbúa, þjónustuþega og annarra skjólstæðinga sveitarfélagsins. Yfirlýsing þessi nær einnig eftir atvikum til annarra einstaklinga, t.d. þeirra sem eiga í samskiptum við Grundarfjarðarbæ og þeirra sem heimsækja skrifstofur, vefsíðu og annað vefefni á vegum sveitarfélagsins. Þá nær yfirlýsingin einnig til tengiliða viðskiptamanna, birgja, verktaka, ráðgjafa, stofnana og annarra lögaðila sem sveitarfélagið er í samningssambandi við. Framangreind upptalning er þó ekki tæmandi.

Um vinnslu á persónuupplýsingum starfsumsækjenda og starfsmanna Grundarfjarðarbæjar er fjallað í sérstökum persónuverndaryfirlýsingum. Þá er einnig fjallað um vinnslu persónuupplýsinga í skólum á vegum sveitarfélagsins í sérstakri persónuverndaryfirlýsingu.

Yfirlýsingin fjallar einkum um vinnslu persónuupplýsinga þegar:

 • Einstaklingar sækja um ýmsa þjónustu á vegum sveitarfélagsins
 • Einstaklingar hafa samband við sveitarfélagið, hvort sem það er í gegnum bréfpóst, tölvupóst, vefsíðu eða samfélagsmiðla
 • Einstaklingar eiga aðild að stjórnsýslumáli þar sem sveitarfélagið er úrlausnaraðili
 • Einstaklingar koma fram fyrir hönd lögaðila sem sveitarfélagið er í samningssambandi við
 • Einstaklingar heimsækja heimasíðu okkar, www.grundarfjordur.is eða samfélagsmiðlasíður sveitarfélagsins
 • Sveitarfélagið ákveður og innheimtir þjónustugjöld
 • Sveitarfélagið ákveður og innheimtir fasteignagjöld
 • Sveitarfélagið sinnir lögboðnu eftirlitshlutverki

Hvaða persónuupplýsingum safnar Grundarfjarðarbær um þig?

Grundarfjarðarbær leggur áherslu á að vinna einungis þær persónuupplýsingar sem nauðsynlegar eru í samræmi við þann tilgang sem liggur að baki söfnun upplýsinganna hverju sinni og í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Sveitarfélagið vinnur því ekki persónuupplýsingar frekar í óskyldum tilgangi nema einstaklingi sé tilkynnt um slíkt og þá heimild sem vinnslan byggist á.

Ólíkum persónuupplýsingum kann að vera safnað eftir því hvort þú ert í persónulegum í samskiptum við sveitarfélagið eða hvort samskiptin eru fyrir hönd lögaðila. Undir tilteknum kringumstæðum er sveitarfélaginu nauðsynlegt að vinna viðkvæmar persónuupplýsingar um einstaklinga en sérstök aðgát skal höfð við vinnslu slíkra upplýsinga. Vinnsla persónuupplýsinga fer samkvæmt framangreindu eftir eðli þess sambands sem þú átt við sveitarfélagið.

Grundarfjarðarbær vinnur, eins og við á hverju sinni, einkum eftirfarandi persónuupplýsingar:

 • Auðkennis- og samskiptaupplýsingar, s.s. nafn, kennitala, heimilisfang, netfang, símanúmer
 • Upplýsingar um tengsl einstaklinga við lögaðila sem eru í viðskiptasambandi við sveitarfélagið, s.s. starfstitill, vinnustaður og vinnunetfang
 • Samskiptasaga, s.s. upplýsingar úr samskiptum sem þú velur að eiga við sveitarfélagið, s.s. bréf, tölvupóst, skilaboð í gegnum vefviðmót eða önnur samskipti
 • Greiðsluupplýsingar, s.s. upplýsingar um bankareikninga, virðisaukaskattsnúmer og dagsetningar á framkvæmdum eða mótteknum greiðslum
 • Tæknilegar upplýsingar, s.s. IP tölu þeirra sem heimsækja vefsíðu sveitarfélagsins
 • Stafræn fótspor, s.s. nethegðun

Í ákveðnum tilvikum þarf sveitarfélagið að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem um heilsufar eða þjóðernislegan uppruna. Vinnsla slíkra upplýsinga fer eingöngu fram á grundvelli lagaheimildar eða þegar uppfyllt eru lagaskilyrði fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.

Grundarfjarðarbær vill benda þér á að þegar þú ferð inn á eða hefur samband við sveitarfélagið í gegnum samfélagsmiðlasíður þess, t.d. Facebook-síðu sveitarfélagsins, þá gæti verið að veitendur samfélagsmiðlaþjónustunnar fái aðgang að upplýsingum og hvetjum við þig til að kynna þér vel persónuverndaryfirlýsingar þeirra.

Í hvaða tilgangi vinnur Grundarfjarðarbær persónuupplýsingar um þig?

Öll vinnsla Grundarfjarðarbæjar á persónuupplýsingum fer fram í skýrum tilgangi og byggist á lögmætum grundvelli samkvæmt persónuverndarlögum, upplýsingalögum nr. 140/2012, stjórnsýslu­lögum nr. 37/1993 og öðrum lögum sem eiga við starfsemi sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið leggur áherslu á að vinna einungis þær persónuupplýsingar sem nauðsynlegar eru í samræmi við þann tilgang sem liggur að baki söfnun upplýsinganna.

Til þess að tryggja að unnið sé með persónuupplýsingar í samræmi við meginreglur persónuverndarlaga veitir Grundarfjarðarbær starfsfólki sínu fræðslu og þjálfun í því skyni að skapa almenna og góða þekkingu á því hvernig umgangast skuli slíkar upplýsingar, meðferð og vinnslu persónu­upplýsinga, og hvernig gætt skuli öryggis þeirra á vettvangi sveitarfélagsins.

Grundarfjarðarbær vinnur persónuupplýsingar einkum í þeim tilgangi að:

 • Uppfylla skyldur sveitarfélagsins á grundvelli laga sem gilda um rekstur og þjónustu sveitarfélaga.
 • Bregðast við fyrirspurnum, ábendingum og kvörtunum frá einstaklingum.
 • Vegna samningssambands sem sveitarfélagið er í, t.d. við vertaka, birgja eða aðra, eða til að koma slíku samningssambandi á.
 • Tryggja öryggi- og eignavörslu, m.a. með öryggismyndavélum og eftirlitskerfum.
 • Efla og auka gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Lagalegur grundvöllur fyrir vinnslu persónuupplýsinga

Grundarfjarðarbær ber ábyrgð á því að tryggja að heimild sé fyrir vinnslu persónuupplýsinga. Getur slík heimild verið byggð á lögum, upplýstu samþykki, samningi eða lögmætum hagsmunum. Til að vinnsla sveitarfélagsins á persónuupplýsingum teljist lögmæt þarf að minnsta kosti eitt eftirfarandi atriði að eiga við, sbr. persónuverndarlög:

 • Hinn skráði einstaklingur hafi gefið sveitarfélaginu samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga.
 • Vinnslan sé nauðsynleg vegna samningssambands sveitarfélagsins við tiltekin aðila.
 • Vinnslan sé nauðsynleg vegna þeirra lögbundnu skyldna sem hvíla á sveitarfélögum við starfsemi þeirra og rekstur.
 • Vinnslan sé nauðsynleg til að vernda brýna hagsmuni hins skráða eða annars einstaklings.
 • Vinnslan sé nauðsynleg vegna verks sem unnin er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem sveitarfélagið fer með.
 • Vinnslan sé nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem sveitarfélagið eða þriðji aðili gætir, t.d. vegna eftirlits með eigum sveitarfélagsins eða í öryggisskyni.

Sveitarfélagið vinnur fyrst og fremst með persónuupplýsingar til að sinna lögbundnum og lögheimilum hlutverkum sínum. Þá vinnur sveitarfélagið jafnframt persónuupplýsingar vegna samningssambands sem sveitarfélagið er í t.d. við verktaka, eða til að koma slíku samningssambandi á.

Hér að neðan má sjá nánari útlistun á vinnslu persónuupplýsinga sem á sér stað hjá sveitarfélaginu samkvæmt yfirlýsingu þessari, þ.m.t. hvaða persónuupplýsingar unnið er með og lagagrundvöll sérhverrar vinnslu:

Þegar einstaklingur sendir inn umsókn eða á aðild að stjórnsýslumáli þar sem sveitarfélagið er úrlausnaraðili
Hjá Grundarfjarðarbæ geta einstaklingar sent inn umsóknir af ýmsu tagi. Umsóknir innihalda alla jafna óskir um þjónustu, aðstoð, gjaldtöku eða leyfi fyrir tiltekinni aðgerð. Sömuleiðis getur sveitarfélagið verið úrlausnaraðili í stjórnsýslumáli, sem einstaklingur eða fulltrúi lögaðila leggur til afgreiðslu hjá sveitarfélaginu. Unnið er með upplýsingar sem einstaklingur lætur af hendi í umsóknar- eða afgreiðsluferli. Réttur umsækjanda til framangreinds er ávallt ákveðinn með lögum. Grundarfjarðarbær vinnur fyrst og fremst með persónuupplýsingar í þeim tilgangi að leggja mat á og taka ákvörðun um rétt umsækjanda. Heimild til vinnslu persónuupplýsinga byggir í þessum tilfellum á nauðsyn til þess að uppfylla lagaskyldu og/eða nauðsyn vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem sveitarfélagið fer með. Heimild til þessa er í 3. og 5. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Þegar einstaklingur sendir sveitarfélaginu erindi
Hver sem er getur sent erindi til Grundarfjarðarbæjar. Vinnur sveitarfélagið þá gjarnan persónu­upplýsingar í þeim tilgangi að afgreiða erindið en heimild til vinnslunnar getur ráðist af eðli erindis hverju sinni. Almennt byggir heimild til vinnslunnar á laganauðsyn eða lögmætum hagsmunum sveitarfélagsins af því að vinna úr innsendum erindum. Heimild til þessa er í 3. og 6. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Þegar einstaklingur heimsækir vefsíðu sveitarfélagsins
Þegar einstaklingur notar vefsíðu Grundarfjarðarbæjar, www.grundarfjordur.is, safnar vefforrit sveitarfélagsins upplýsingum um notkun hans, þ.e. IP-tölu, tegund eða útgáfu vafra sem hann notar, tímasetningu og tímalengd heimsóknar og hvaða undirsíður viðkomandi heimsækir innan vefsíðu sveitarfélagsins. Hér má finna frekari upplýsingar um notkun sveitarfélagsins á vafrakökum (e. cookies).

Þegar einstaklingur gengur inn á svæði sem eru vöktuð með öryggismyndavélum (rafræn vöktun)
Ýmis mannvirki Grundarfjarðarbæjar eru vöktuð með öryggismyndavélum í öryggis- og eignavörsluskyni. Þeir einstaklingar sem heimsækja vöktuð mannvirki eða svæði kunna því að vera teknir upp á mynd. Vinnsla á þeim upplýsingum sem safnast með myndeftirliti byggir á lögmætum hagsmunum Grundarfjarðarbæjar. Heimild til þessa er í 6. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Í sundlaug Grundarfjarðar er tilgangur rafrænnar vöktunar einnig að tryggja öryggi baðgesta. Byggir vinnsla upplýsinga í því skyni á nauðsyn vegna lagaskyldu en í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum er kveðið á um að aðstaða starfsmanns sem sinnir laugargæslu skuli tryggð, t.d. með myndavélum. Heimild til þessa er í 3. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Á Grundarfjarðarhöfn er tilgangur rafrænnar vöktunar einnig að tryggja hafnargæslu, hafnarvernd og siglingavernd. Byggir vinnsla upplýsinga í því skyni á nauðsyn vegna lagaskyldu en í 16. gr. reglugerðar nr. 265/2008 um framkvæmd siglingaverndar er myndavélavöktun á hafnarsvæði heimilt í þágu eftirlits með hafnaraðstöðu. Heimild til þessa er í 3. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Persónuupplýsingar sem verða til við notkun öryggismyndavéla verða einungis notaðar ef upp koma atvik er varða eignavörslu eða öryggi einstaklinga, s.s. þjófnað, skemmdaverk eða slys. Þær má ekki afrita eða afhenda öðrum aðila, nema á grundvelli lagaheimildar, samþykki skráðra aðila eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar hverju sinni. Myndupptökur eru því almennt ekki afhentar öðrum en lögreglu og þá ef um slys eða meintan refsiverðan verknað er að ræða. Þá kann myndupptökum jafnframt að vera miðlað í þeim tilgangi að sveitarfélagið geti stofnað, haft uppi og eftir atvikum varið réttarkröfur.

Myndefni sem verður til við notkun öryggismyndavéla eyðist sjálfkrafa eftir að hámarki 30 daga nema nauðsyn krefji til að varðveita það til að geta stofnað, haft uppi og eftir atvikum varið réttarkröfur, einkum í dómsmáli, að því gefnu að lög heimili eða dómsúrskurður eða fyrirmæli þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir.

Þegar einstaklingur eða vinnuveitandi hans á í viðskiptasambandi við sveitarfélagið
Grundarfjarðarbær á í viðskiptasambandi við ýmsa aðila, svo sem þá sem selja sveitarfélaginu sérfræðiþjónustu, úthluta búnaði eða taka að sér ákveðin verk. Til þess að slíkt viðskiptasamband gangi upp verður sveitarfélagið að vinna með persónuupplýsingar. Þegar einstaklingur veitir þjónustu í eigin nafni byggir heimild vinnslunnar á 2. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga, þess efnis að vinnsla sé nauðsynleg til þess að efna samning. Þegar einstaklingur kemur fram í nafni fyrirtækis byggir vinnslan á lögmætum hagsmunum sveitarfélagsins af því að geta átt í samskiptum við birgja, samstarfsaðila og verktaka. Heimild til þessa er í 6. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Þegar þjónustugjöld eru ákveðin og innheimt
Grundarfjarðarbær hefur í mörgum tilfellum heimild samkvæmt lögum til að ákveða og innheimta gjöld fyrir þjónustu sem sveitarfélagið veitir íbúum sínum. Þegar innheimta þarf slíkt gjald er sveitarfélaginu nauðsynlegt að vinna með persónuupplýsingar og byggir heimild til þess á 5. tl. 9. gr. persónuverndar­laga.

Þegar fasteignagjöld eru ákveðin og innheimt
Í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að leggja á fasteignaskatt og heimild þeirra til að ákveða skatthlutfall innan þess ramma sem í lögunum greinir. Er Grundarfjarðarbæ annars vegar nauðsynlegt að vinna persónuupplýsingar í þeim tilgangi að uppfylla lagaskyldu og hins vegar að beita því opinbera valdi sem sveitarfélagið fer með lögum samkvæmt. Heimild til þessa er í 3. og 5. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Þegar sveitarfélagið sinnir lögbundnu eftirlitshlutverki
Grundarfjarðarbær vinnur með ýmsar persónuupplýsingar í þágu lögbundins eftirlits, s.s. á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 og mannvirkjalaga nr. 160/2010. Er vinnsla persónuupplýsinga í þessum tilfellum iðulega nauðsynleg til að uppfylla lagaskyldu sem hvílir á sveitarfélaginu og beita því opinbera valdi sem það fer með lögum samkvæmt. Heimild til þessa er í 3. og 5. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga. Þannig er megintilgangur vinnslu persónuupplýsinga af hálfu skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa að sinna lögbundnu eftirliti með framkvæmda- og byggingarleyfisskyldum framkvæmdum.

Vakin er athygli á því að mál sem eru til vinnslu af hálfu skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa eru tekin fyrir á fundum skipulags- og umhverfisnefndar og birtast upplýsingar um afgreiðslu þeirra í fundargerðum á netinu. Í fundargerðum kunna því að birtast nöfn umsækjenda og framkvæmdaraðila, s.s. húseigenda, landeigenda, lóðarhafa og annarra hagaðila, þ.m.t. byggingarstjóra, hönnuða og iðnmeistara. Einnig kunna aðrar upplýsingar að birtast í fundargerðum sem gefnar eru upp í umsóknum um framkvæmda- og byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Þá kann málum skipulags- og umhverfisnefndar að vera vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar til afgreiðslu og staðfestingar. Nefndar upplýsingar kunna því einnig að birtast í fundargerðum á netinu.

Framangreindar upplýsingar eru birtar í þeim tilgangi að efla og auka gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélagsins við meðferð opinberra hagsmuna. Vinnslan byggir því á nauðsyn vegna almannahagsmuna þar sem íbúar hafa hagsmuni af því að gagnsæi ríki í allri ákvarðanatöku við ráðstöfun opinberra hagsmuna. Heimild til þessa er í 5. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Þegar sveitarfélagið greiðir út samþykktar umsóknir um framfærsluúrræði
Í tengslum við útgreiðslu samþykktra umsókna um framfærsluúrræði vinnur Grundarfjarðarbær með nauðsynlegar persónuupplýsingar um rétt einstaklinga til fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings. Eingöngu er unnið með upplýsingar um nafn og kennitölu einstaklings auk upplýsinga um rétt til framfærsluúrræðis og bankaupplýsingar. Með þessar upplýsingar er unnið á grundvelli lagaskyldu, þ.e. skv. lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Heimild til þessa er í 3. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Þegar sveitarfélagið birtir fundargerðir og fylgigögn við fundargerðir
Grundarfjarðarbær stuðlar að auknu gagnsæi við meðferð og afgreiðslu mála og gerir viðeigandi ráðstafanir til þess að stjórnsýsla sveitarfélagsins sé opin. Einn liður í því er að veita almenningi með reglubundnum hætti upplýsingar um starfsemi sveitarfélagsins með birtingu fundargerða og fylgigagna þeirra á vefsíðunni www.grundarfjordur.is.

Birtar fundargerðir og fylgigögn kunna að innihalda persónuupplýsingar málsaðila, umsækjenda, íbúa og annarra einstaklinga. Persónuupplýsingar kunna því að vera birtar í þeim tilgangi að efla og auka gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Grundarfjarðarbær byggir vinnsluna annars vegar á nauðsyn til þess að uppfylla lagaskyldu en í 13. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er meðal annars kveðið á um skyldu stjórnvalda til þess að veita almenningi með reglubundnum hætti upplýsingar um starfsemi sína. Þá byggir sveitarfélagið vinnsluna sömuleiðis á nauðsyn vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem sveitarfélagið fer með. Heimild til þessa er í 3. og 5. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Samkvæmt verklagi eru öll skjöl yfirfarin áður en þau eru birt m.a. til þess tryggja að birting samræmist lögum sem gilda um starfsemi sveitarfélagsins, þ.m.t. upplýsingalögum og persónuverndarlögum.

Þegar einstaklingur sendir okkur umsögn eða athugasemd við skipulag í kynningu
Grundarfjarðarbær notar þær persónuupplýsingar sem settar eru fram vegna umsagna/athugasemda við skipulag, s.s. nafn, kennitölu og netfang til þess að vinna úr umsögnum/athugasemdum og auðkenna bæjarbúa. Tilgangur vinnslunnar er að tryggja lögbundið samráð við gerð skipulagsáætlana. Sveitarfélagið byggir vinnsluna á nauðsyn vegna lagskyldu en í skipulagslögum nr. 132/2010 er meðal annars kveðið á um lögbundna þjónustu við skipulagsmál. Heimild til þessa er í 3. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Allar ákvarðanir um skipulagsbreytingar eru staðfestar af Skipulagsstofnun. Að auglýsingaferli loknu miðlar sveitarfélagið því öllum viðeigandi gögnum, þ.m.t. framangreindum persónuupplýsingum, til Skipulagsstofnunar í þágu staðfestingarferlis. Byggir sú vinnsla á nauðsyn vegna lagaskyldu en á grundvelli skipulagslaga nr. 132/2010 er sveitarfélaginu skylt að afhenda Skipulagsstofnun umræddar upplýsingar. Heimild til þessa er í 3. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Að auglýsingarferli loknu eru gögn varðveitt í 30 ár og flytjast að þeim tíma liðnum til Þjóðskjalasafns Íslands skv. lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn.

Vakin er athygli á því að umsagnir/athugasemdir við skipulag teljast til opinberra gagna í allri skipulagsmeðferð. Því kunna meðal annars nöfn bæjarbúa og eftir atvikum efni athugasemda/umsagna að birtast í skjölum á vefsíðu sveitarfélagsins, þ.m.t. í fundargerðum bæjarstjórnar og nefnda á netinu. Upplýsingar eru birtar í þeim tilgangi að efla og auka gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélagsins og byggir vinnslan á nauðsyn vegna almannahagsmuna þar sem íbúar hafa hagsmuni af gagnsæju samráðsferli við gerð skipulagsáætlana. Heimild til þessa er í 5. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Hversu lengi geymir Grundarfjarðarbær persónuupplýsingar um þig?

Grundarfjarðarbær geymir persónuupplýsingar eins lengi og þörf krefur samkvæmt þeim lögum og reglum sem við eiga í starfsemi sveitarfélagsins, eða eins lengi og lögmætir hagsmunir sveitarfélagsins krefjast og málefnaleg ástæða gefur tilefni til. Sem dæmi er myndefni úr öryggismyndavélum varðveitt í að hámarki 30 daga, að þeim tímaliðnum er myndefninu sjálfkrafa eytt nema nauðsyn krefji til að varðveita það til að geta stofnað, haft uppi og eftir atvikum varið réttarkröfur, einkum í dómsmáli.

Grundarfjarðarbær hefur afhendingarskyldu á grundvelli laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og eftir atvikum annarra lagaákvæða sem gilda um vistun gagna sveitarfélagsins. Það þýðir að sveitarfélaginu er óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali sem fellur undir gildissvið laganna, nema með lagaheimild eða sérstakri heimild þjóðskjalavarðar. Almennt er gögnum og skjölum skilað til Þjóðskjalasafns að 30 árum liðnum frá tilurð þeirra.

Frá hverjum safnar Grundarfjarðarbær þínum persónuupplýsingum?

Sveitarfélagið safnar persónuupplýsingum frá þér og í vissum tilvikum eru persónuupplýsingar fengnar frá þriðja aðila, t.d. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Þjóðskrá og Ríkisskattstjóra, þá kann sveitar­félaginu að vera nauðsynlegt að afla tiltekinna upplýsinga um rétt einstaklinga til framfærsluúrræða frá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga en sú stofnun annast rekstur félagsþjónustu fyrir sveitarfélögin á Snæfellsnesi og kemur fram sem sameiginlegur ábyrgðaraðili að vinnslu persónu­upplýsinga í tengslum við útgreiðslu samþykktra umsókna um fjárhagsaðstoð og sérstakan húsnæðisstuðning. Einungis er aflað upplýsinga frá Félags- og skólaþjónustu sem eru nauðsynlegar í því skyni að greiða út samþykktar umsóknir um fjárhagsaðstoð og sérstakan húsnæðisstuðning.

Hvenær miðlar Grundarfjarðarbær persónuupplýsingum þínum til þriðju aðila og af hverju?

Grundarfjarðarbær kann að veita þriðju aðilum, sem veita sveitarfélaginu upplýsingatækniþjónustu og/eða aðra þjónustu sem tengist vinnslu og er hluti af rekstri Grundarfjarðarbæjar, aðgang að persónuupplýsingum sem unnið er með, s.s. hýsingaraðila.

Þessir aðilar kunna að vera staðsettir utan Íslands. Grundarfjarðarbær miðlar þó ekki persónu­upplýsingum utan Evrópska efnahagssvæðisins nema slíkt sé heimilt á grundvelli viðeigandi persónuverndarlöggjafar, s.s. á grundvelli staðlaðra samningsskilmála, samþykkis viðkomandi einstaklings eða auglýsingar Persónuverndar um ríki sem veita persónuupplýsingum fullnægjandi vernd.

Komi til innheimtuaðgerða vegna kröfu Grundarfjarðarbæjar getur jafnframt þurft að miðla persónuupplýsingum til innheimtuaðila.

Persónuupplýsingar kunna jafnframt að vera afhentar þriðja aðila að því marki sem heimilað er eða krafist er á grundvelli viðeigandi laga, stjórnvaldsfyrirmæla, reglna eða til að bregðast við löglegum aðgerðum eins og húsleitum, stefnum eða dómsúrskurði.

Á grundvelli lagaskyldu er Grundarfjarðarbæ þannig t.a.m. skylt að skila upplýsingum til Þjóðskjala­safns Íslands. Þá er ýmsum upplýsingum er tengjast lögbundinni þjónustu á sviði skipulagsmála miðlað til Skipulagsstofnunar og upplýsingum um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Öryggi persónuupplýsinga og tilkynning um öryggisbrest

Öryggi í vinnslu persónuupplýsinga er Grundarfjarðarbæ mikilvægt og hefur sveitarfélagið gripið til viðeigandi tæknilegra og skipulagslegra öryggisráðstafana til að tryggja vernd persónuupplýsinga þinna í takt við stefnu sveitarfélagsins um öryggi, þ.m.t. með viðeigandi aðgangsstýringu.

Komi upp öryggisbrestur sem varðar þínar persónuupplýsingar, og teljist slíkur brestur hafa í för með sér mikla áhættu fyrir frelsi og réttindi þín, mun sveitarfélagið tilkynna þér um það án ótilhlýðilegrar tafar. Í þessum skilningi telst öryggisbrestur atburður sem leiðir til þess að persónuupplýsingar þínar glatist eða eyðist, þær breytist, séu birtar eða óviðkomandi fái aðgang að þeim í leyfisleysi.

Réttindi þín

Með fyrirvara um þau skilyrði sem nánar er fjallað um persónuverndarlögum, átt þú rétt á að:

 • fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar sveitarfélagið hefur skráð um þig og uppruna þeirra, sem og upplýsingar um hvernig unnið er með persónuupplýsingar um þig,
 • fá aðgang að og afrit af öllum þeim persónuupplýsingum sem eru unnar um þig, standi hagsmunir annarra því ekki í vegi, s.s. vegna réttinda annarra sem skulu vega þyngra, eða óska eftir að þær séu sendar til þriðja aðila, t.d. til annars sveitarfélags,
 • óska þess að rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar sæti leiðréttingu, lokað verði fyrir notkun þeirra eða þeim eytt, eftir því sem lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn heimila,
 • koma á framfæri andmælum ef þú vilt takmarka eða koma í veg fyrir að persónuupplýsingar þínar séu unnar,
 • fá upplýsingar um það hvort fram fari sjálfvirk ákvarðanataka, og þá á hvaða rökum slík ákvarðanataka er byggð og endurskoðun á sjálfvirkri ákvarðanatöku,
 • afturkalla samþykki þitt um að sveitarfélagið megi safna, skrá, vinna eða geyma persónuupplýsingar þínar, þegar vinnsla byggist á þeirri heimild. Afturköllun samþykkis skal ekki hafa áhrif á lögmæti vinnslu á grundvelli samþykkis fram að afturkölluninni.

Viljir þú nýta rétt þinn getur þú sent skriflega beiðni á personuvernd@grundarfjordur.is. Sveitarfélagið mun staðfesta móttöku á beiðninni og að jafnaði bregðast við innan mánaðar frá móttöku beiðni. Verði ekki unnt að bregðast við innan mánaðar mun sveitarfélagið tilkynna þér um töf á afgreiðslu innan mánaðar.

Beiðnir um afrit af persónuupplýsingum sem Grundarfjarðarbær vinnur um þig skulu afmarkaðar við tiltekin gögn eða tiltekin mál, sbr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Ekki er innheimt gjald þegar einstaklingar nýta rétt sinn í samræmi við ofangreint, nema í þeim tilvikum sem beiðni telst óhófleg eða augljóslega tilefnislaus. Það skal vera sveitarfélagsins að sýna fram á að beiðni sé tilefnislaus eða óhófleg samkvæmt 12. gr. persónuverndarlaga.

Þú hefur einnig rétt til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd sjáir þú ástæðu til þess. Upplýsingar um Persónuvernd má finna á vefsíðu stofnunarinnar, www.personuvernd.is.

Frekari upplýsingar

Ef þú vilt fá frekari upplýsingar um málefni sem snúa að þínum persónuupplýsingum þá bendum við þér á að hafa samband við persónuverndarfulltrúa Grundarfjarðarbæjar í gegnum netfangið personuvernd@grundarfjordur.is.

Yfirferð og endurskoðun persónuverndaryfirlýsingar Grundafjarðarbæjar

Persónuverndaryfirlýsing Grundarfjarðarbæjar er endurskoðuð reglulega og uppfærð ef tilefni er til. Síðast var yfirlýsingin uppfærð þann 14.09.2023 og samþykkt af bæjarstjórn.