Málsnúmer 2001029

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 542. fundur - 30.01.2020

Fulltrúar stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar Fellaskjól dvalarheimilis; Hildur Sæmundsdóttir, Kristján Guðmundsson og Ágúst Jónsson, sátu fundinn undir þessum lið.

Umræður um málefni heimilisins.

Þann 30. nóvember sl. var vígð ný viðbygging við húsnæði heimilisins. Með viðbyggingunni hefur skapast svigrúm fyrir fjögur ný hjúkrunarrými og bætta aðstöðu fyrir starfsemina. Farið var yfir þörf fyrir hjúkrunar- og dvalarrými. Nú eru 12 íbúar á heimilinu, en 14 manns á biðlista. Farið var yfir þá vinnu sem nú er unnið að til að fá aukið framlag til viðbyggingarinnar. Auk þess var rætt um byggingarkostnað.

Fram kom að stjórn heimilisins hefur áhuga á að stofna virknisetur fyrir þau sem glíma við minnistap. Slíkt úrræði myndi gagnast öllum sem þurfa og einnig fólki á biðlista.

Stjórn Fellaskjóls vinnur alla sína vinnu í þágu heimilisins í sjálfboðaliðastarfi. Var stjórnarmönnum þakkað fyrir sín mikilvægu störf.

Bæjarráð - 567. fundur - 29.04.2021

Hildur Sæmundsdóttir, fulltrúi Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls, sat fundinn undir þessum lið.

Hildur sagði frá rekstrarstöðu heimilisins, en til stendur að gera við þak dvalarheimilisins, sem er upprunalegt og ráðlagt er að skipta þakinu út vegna leka. Þörf er á ýmiskonar vinnu utanhúss. Stytting vinnuvikunnar hjá starfsfólki, einkum vaktavinnufólki, hefur þau áhrif að kostnaður eykst.

Eins og áður hefur verið rætt í bæjarráði og bæjarstjórn lagði Framkvæmdasjóður aldraðra framlag með viðbyggingu Dvalarheimilisins uppá um 40 millj. kr. eða allt að 40% af kostnaði sem var áætlaður byggingarkostnaður áður en byggingin fór af stað. Ríkið neitaði hinsvegar að leggja frekara framlag með framkvæmdinni, þó að almenna reglan sé sú að ríki greiði allt að 85% kostnaðar og sveitarfélag 15%. Fellaskjól er sjálfseignarstofnun og hafnaði heilbrigðisráðuneytið frekara framlagi á þeim grunni, þó fyrir lægi að það sé sveitarfélagið sem alla tíð hefur greitt byggingarkostnað og afborganir byggingarlána. Þetta mál hefur verið til skoðunar hjá Hildi og Björgu bæjarstjóra.

Fram kom hjá bæjarstjóra að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur skv. beiðni bæjarstjóra farið vel ofan í samskipti heilbrigðisráðuneytis og Fellaskjóls. Fyrir liggur bréf til bæjarstjóra þar sem fram kemur það álit sambandsins að rökstuðningur ráðuneytisins fyrir synjun á 85% hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði við uppbyggingu Fellaskjóls standist hvorki gagnvart fyrri framkvæmd né þeim lagagrundvelli sem ákvörðun var byggð á.

Ætlunin er að senda ráðuneytinu erindi á næstu dögum með ósk um endurupptöku framangreindrar ákvörðunar þess.


Gestir

  • Hildur Sæmundsdóttir - mæting: 17:30