Málsnúmer 2010001

Vakta málsnúmer

Íþrótta- og tómstundanefnd - 98. fundur - 21.10.2020

Lögð fram viðbrögð íþróttafélaga við beiðni um umsögn um reglur um kjör íþróttamanns Grundarfjarðar.
Íþrótta- og æskulýðsnefnd sendi íþróttafélögum í Grundarfirði póst þann 27. september sl. þar sem óskað var eftir áliti þeirra á þörf fyrir breytingar á reglum um kjör íþróttamanns Grundarfjarðar.

Eftirfarandi athugasemdir bárust:

Golfklúbburinn Vestarr:
- Telur reglurnar sem slíkar mjög góðar.
- Spurning sé með faglegt mat, með hvaða hætti mat við kosninguna eigi að fara fram. Hvað eigi að greiða mörgum atkvæði, eigi að raða í sæti við kosninguna, o.fl.

Stjórn UMFG:
- Vangaveltur um faglegt mat á tilnefningunum, hvernig það fari fram.
- Telur að val á íþróttamanni Grundarfjarðar, undirbúningur og kosning eigi að vera alfarið í höndum íþrótta- og æskulýðsnefndar, sbr. íþróttamaður ársins sem valinn er af félagi íþróttafréttamanna, en ekki af félögunum sjálfum né íþróttasamböndum. Rök: óljóst sé hver á að tilnefna íþróttamenn hjá UMFG; er það stjórnin, þjálfarar, meistaraflokkar eða foreldraráð.
- Gera eigi því hærra undir höfði að vera íþróttamaður Grundarfjarðar og leggja meiri vinnu í kringum undirbúning og kynningu heldur en verið hefur. Dæmi um útfærslu gæti verið að íþrótta- og æskulýðsnefnd fari og hitti t.d. þjálfara, ræði við stjórnir allra félagasamtaka, og safni t.d. 2-3 nöfnum í pottinn frá hverju félagi.
- Þetta gefi nefndinni meiri möguleika að leggja hlutlaust mat á valið í stað þess að fulltrúar frá hverju félagi auk nefndarinnar komist að niðurstöðu.
- Treysta eigi íþrótta- og æskulýðsnefnd til að taka bestu ákvörðunina.
Ástæða breytinga sé sú að Grundarfjarðarbær beri ábyrgð á þessum verðlaunum/tilnefningum og bærinn eigi að ganga úr skugga um að þetta sé rétt og vel gert. Taka eigi ábyrgðina af félagasamtökum og að stjórn eins og hjá UMFG eigi ekki að svara fyrir þessa ákvörðun ár hvert.

Einnig athugasemd við orðalag 2. gr.
- Regla þar sem segir: "Viðkomandi hafi lögheimili í Grundarfjarðarbæ og sé á fimmtánda aldursári."
- Lagfæri eigi orðalagið. Þetta hljómi eins og aðilinn verði að vera 15 ára, hvorki yngri né eldri. Mætti vera "eigi yngri en á fimmtánda aldursári" eða "á fimmtánda aldursári og eldri".

---
Íþrótta- og æskulýðsnefnd þakkar fyrir innsendar ábendingar.

Í ljósi þessara svara, og eftir umræður í nefndinni, telur íþrótta- og æskulýðsnefnd ástæðu til að gefa sér rýmri tíma í að yfirfara reglur um kjör íþróttamanns Grundarfjarðar og útfæra mögulegar breytingar. Í ár fari því kjör íþróttamanns Grundarfjarðar fram í samræmi við þær reglur sem í gildi eru.

Samþykkt samhljóða.

Til áframhaldandi vinnslu hjá nefndinni.