Málsnúmer 2011005

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 559. fundur - 05.11.2020

Lagt fram bréf frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu dags. 13. október 2020. Erindið var sent Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi sem áframsendi það til sveitarfélaga á Vesturlandi.

Í bréfinu er óskað eftir niðurfellingu fasteignagjalda, frestun til allt að tíu ára á greiðslu gjalda 2020-2022 með lagaheimild, og/eða lengingu á lögveði vegna fasteignaskatta, til að styðja við atvinnurekendur í ferðaþjónustu.

Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar bendir á að Grundarfjarðarbæ er þröngur fjárhagslegur stakkur sniðinn. Fasteignagjöld eru hluti af lögbundnum tekjum sveitarfélaga, sbr. lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fer með málefni sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa lítið svigrúm til að bregðast við og heimild til breytinga eða frestunar greiðslu fasteignagjalda er háð skýrri lagaheimild, líkt og heimild til frestunar á greiðslu fasteignagjalda sem samþykkt var á Alþingi 30. mars sl. Ljóst er að sveitarfélögum landsins er því ekki heimilt að afsala sér lögboðnum tekjum eins og fasteignaskatti. Auk þess yrði þá að mæta því með öðrum tekjum sem ekki blasa við nú. Um leið vill bæjarráð árétta að staða sveitarfélagsins eins og margra annarra sveitarfélaga er þröng og hugmyndir um slíkar breytingar á greiðslu fasteignagjalda eru grundvallaratriði, sem ekki verða ákveðin án samstöðu allra sveitarfélaga og aðkomu ríkisins.

Samþykkt samhljóða.