Málsnúmer 2105026

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 228. fundur - 26.05.2021

Landeigendur á Eiði í Grundarfjarðarbæ, sem framkvæmdaraðilar og eigendur þess lands sem um ræðir, tilkynna fyrirhugaða 25.000 m3 efnistöku af 17.000 m2 svæði, úr Gloppugili, í landi Eiðis í Grundarfjarðarbæ, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. nr. 106/2000, til ákvörðunar bæjarstjórnar um matsskyldu framkvæmdarinnar.
Fyrirhuguð efnistaka fellur undir framkvæmdir í flokki C sbr. 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Jafnframt sækja landeigendur um framkvæmdaleyfi til 10 ára, á grunni stefnu Aðalskipulags Grundarfjarðar 2019-2039, sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Bjarni Sigurbjörnsson vék af fundi undir þessum lið.
Vignir Maríasson varaformaður tók við stjórn fundarins.

Ákvörðun um matsskyldu vegna efnistöku í Gloppugili:

Fyrirhugaðri framkvæmd, svo og umhverfisáhrifum og mati á þeim, er lýst í fylgigagni; Áætlun um efnistöku: Efnistaka í Gloppugili í landi Eiðis. Í 5. kafla áætlunarinnar liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, sem unnið er á grunni gátlista Skipulagsstofnunar, sbr. viðmið í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstöður framkvæmdaraðila eru þær að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif og sé því ekki matsskyld.

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér fyrirliggjandi gögn. Niðurstaða nefndarinnar er sú að áætlunin uppfylli kröfur sem gerðar eru til gagna sem leggja þarf fram til ákvörðunar um matsskyldu sbr. lögin um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð nr. 660/2015. Framkvæmdin er einnig í samræmi við Aðalskipulag Grundarfjarðar 2019-2039, að hluta úr námu sem merkt er E-11 í aðalskipulagi og að hluta til efnistöku úr árfarvegi utan E-11, skv. ákvæðum aðalskipulagsins.

Það er niðurstaða skipulags- og umhverfisnefndar að framkvæmdin eins og henni er lýst í fyrirliggjandi gögnum, sbr. einnig hvernig hún fellur að skipulagi og á grundvelli leiðbeininga Skipulagsstofnunar um forsendur til ákvörðunar um matsskyldu, hafi ekki umtalsverð áhrif á umhverfið. Það er því ákvörðun nefndarinnar, tekin í samræmi við 4. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, til endanlegrar staðfestingar í bæjarstjórn, að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Ákvörðunin verður kynnt almenningi í samræmi við lokamálslið 3. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

---

Ákvörðun um framkvæmdaleyfi:

Vísað er til þess sem að framan er lagt til, á grunni tilkynningar og ákvörðunar nefndarinnar um matsskyldu framkvæmdar.
Í framlagðri efnistökuáætlun kemur fram, að ef haldið verði áfram að taka efni einungis innan marka efnistökusvæðis sem merkt er E-11 í aðalskipulagi, muni verða til djúp hola sem falla muni illa að landslaginu. Því sé talið heppilegra - og lagt til - að hnika efnistökusvæðinu, eins og efnistökuáætlun tilgreinir, og taka efni að hluta til úr árfarvegi utan E-11.

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur kynnt sér fylgigögn sem vísað er til í umsókn um framkvæmdaleyfi. Það er mat skipulags- og umhverfisnefndar að framlögð gögn lýsi framkvæmdinni á fullnægjandi hátt, að framkvæmdin sé í samræmi við ákvörðun um matsskyldu og gildandi skipulagsáætlun, sbr. 10. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Samræmi er á milli þeirrar framkvæmdar sem lýst er í tilkynningu framkvæmdar til leyfisveitanda og umsóknar um framkvæmdaleyfi, sbr. fyrirlagða “Áætlun um efnistöku í Gloppugili".

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í Gloppugili í samræmi við fyrrnefnda umsókn, með tilvísan í 13. gr. skipulagslaga.

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna framangreind gögn og ákvörðun um fyrirhugað framkvæmdaleyfi fyrir forsvarsaðilum aðliggjandi jarða, sbr. ákvæði í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, þar sem að hluta til er um að ræða framkvæmdaleyfi á svæði sem ekki er sérstaklega auðkennt sem efnistökusvæði í aðalskipulaginu, heldur felst í efnistöku í árfarvegi. Að öðru leyti er efnistaka innan efnistökusvæðis merkt E-11 í aðalskipulagi, eins og nánar er lýst í gögnum umsækjenda.

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna málið fyrir Umhverfisstofnun, sem og lax- og silungsveiðisviði Fiskistofu, þó að ekki sé talin fiskgegnd í árfarvegi þessum.