Málsnúmer 2506026

Vakta málsnúmer

Hafnarstjórn - 19. fundur - 27.06.2025

Lagt fram til afgreiðslu erindi sóknarnefndar.



Óskað er eftir fjárstyrk úr hafnarsjóði, svo hægt sé að hafa mannaða opnun í Grundarfjarðarkirkju á skipadögum.

Bæjarstjóri og forstöðumaður menningar- og markaðsmála hittu tvo fulltrúa sóknarnefndar í vikunni, til að fara yfir erindið og möguleika á útfærslu og samstarfi bæjar/hafnar, við kirkjuna.

Hafnstjórn ræddi um hlutverk sitt, í samhengi við erindið. Hafnarsjóður hefur hingað til ekki veitt fjárstyrki, nema eins og nýlega með þátttöku í söfnun fyrir kaupum á nýja björgunarskipinu Björgu, fyrir Breiðafjarðarsvæðið, og var sú afgreiðsla gerð að tilhlutan bæjarstjórnar, í samstarfi við aðrar bæjarstjórnir á norðanverðu Snæfellsnesi.

Hafnarstjórn skilur fjárhagsvanda sóknarnefndar, en telur að aðrar útfærslur væru heppilegri m.t.t. hlutverks hafnarsjóðs og annarra aðila, og m.t.t. þeirra fjármuna sem samfélagið hefur úr að spila, sbr. þau sjónarmið sem rædd voru við fulltrúa sóknarnefndarinnar.

Hafnarstjórn hefur varið farþegagjöldum, sem innheimt eru af skemmtiferðaskipum, til uppbyggingar á aðstöðu hafnarinnar fyrir gesti skipanna og til að bæta öryggi þeirra. Sú fjárfesting, sem hafnarsjóður hefur nú í ár lagt í til að bæta aðstöðu skipagesta og þjónustu við þá, nemur margfalt þeim farþegagjöldum sem innheimt hafa verið.

Hafnarstjórn er reiðubúin til þátttöku í að þróa aðra leið, sem getur komið á móts við markmið sóknarnefndar og þá góðu hugmynd sem sóknarnefnd setur fram í erindi sínu, um gestamóttöku og að segja sögu kirkjunnar. Hafnarstjórn leggur til að það verði gert með aðkomu bæjarins og hennar starfsmanna, í samræmi við umræður fundarins að öðru leyti og þær hugmyndir sem ræddar voru í samtali bæjarstjóra og forstöðumanns menningar- og markaðsmála við fulltrúa sóknarnefndar.

Samþykkt samhljóða.