Að leik á skólalóð grunnskóla. Mynd Tómas Freyr Kristjánsson.
Að leik á skólalóð grunnskóla. Mynd Tómas Freyr Kristjánsson.

Í dag hefur starfsfólk skóla og félagsmiðstöðvar unnið að því að skipuleggja skóla- og æskulýðsstarf í samræmi við reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, sem sett var í morgun. Reglugerðin tekur gildi frá og með þriðjudeginum 3. nóvember 2020 og gildir til og með 17. nóvember nk., með fyrirvara um breytingar eftir því hvernig framvinda smita verður á landinu. Markmiðið með reglugerðinni er að tryggja að sem minnst röskun verði á skólastarfi vegna COVID-19 sjúkdómsins með ýtrustu sóttvarnarsjónarmið að leiðarljósi.

Foreldrar og forráðamenn fengu í dag tölvupósta frá skólunum, auk þess sem leiðbeiningar voru birtar á Facebook-síðu grunnskóla.

Hér er samantekt um helstu ráðstafanir í skóla- og æskulýðsstarfi hjá Grundarfjarðarbæ: 

Leikskólinn

Samkvæmt nýju reglugerðinni þarf ekki að hólfa starfsemina niður eins og sl. vor, áherslan er á grímunotkun og 2ja metra persónubil starfsfólks og sótthreinsun viðkvæmra snertiflata.  

  • Foreldrar koma ekki lengur inn í anddyri leikskólans á morgnana og seinni partinn. Starfsfólk tekur á móti börnum í anddyri.
    • Börn á músadeild koma inn frá pallinum, hlið sem snýr út að Sólvöllum verður opnað. Tekið á móti börnunum í svaladyrum. 
    • Börn á drekadeild koma inn í gegnum garðinn. Fötin þeirra verða á snögunum sem eru frammi í nýja rýminu. Hlið út að Sólvöllum verður opnað.
    • Börn á ugludeild koma inn um aðalinngang.
  • Þegar foreldrar/forráðamenn sækja börnin, hringja þeir á undan sér í gsm-síma deilda og þá eru börnin klædd og þeim fylgt út. Þetta á sérstaklega við nemendur á músadeild, þar sem þau eru ekki alltaf úti á þessum tíma. Einnig ef foreldrar koma fyrr að sækja. 
  • Enn meiri áhersla á sótthreinsun á viðkvæmum snertiflötum. 
  • Hressing og hádegismatur í boði, eins og verið hefur.  

Leikskóladeildin Eldhamrar 

Óbreytt starfsemi að mestu.

  • Foreldrar/forráðamenn koma ekki inní skólann - starfsfólk Eldhamra tekur á móti þeim í anddyri, eins og verið hefur.
  • Hressing og hádegismatur í boði, eins og verið hefur.  
  • Sami inngangur og áður - aðalinngangur skólans.  

Grunnskólinn 

  • Búið er að koma upp sóttvarnarhólfum og skipta nemendum upp.
    • 1. – 4. bekkur mæta á sínum stað kl. 8:10
    • 5. – 7. bekkur mæta kl. 8:20 við sinn inngang.
    • 8. – 10. bekkur mæta á sínum stað, skv. stundaskrá. Starfið með óbreyttu sniði nema á mánudag 9. nóv. mæta nemendur kl. 8:50
  • Nemendur í 5. – 10. bekk:
    • þurfa að halda 2ja metra fjarlægð við aðra nemendur og við starfsfólk. 
    • Þar sem ekki er hægt að halda 2ja metra fjarlægð, notast nemendur við andlitsgrímur.
    • Grímur eru einnig notaðar þegar farið er á milli hólfa og verið í sameiginlegum rýmum, s.s. í anddyri, á göngum og á salernum.
    • Þetta verður útskýrt betur fyrir nemendum. Allt kapp er lagt á það að hafa skólastarf með sem eðlilegustum hætti.  
  • Nemendur í 1. - 4. bekk: 
    • Fjarlægðarmörk og grímuskylda gildir ekki um þau, en gildir fyrir kennara þeirra og annað starfsfólk. 
  • Öll íþróttakennsla fellur niður. Í staðinn kemur útivist þegar hægt er að koma því við. Því er mikilvægt að nemendur komi klæddir eftir veðri.
  • List- og verkgreinar falla ekki niður, en nýta þarf andlitsgrímur í þeim kennslustofum.
  • Áfram verður hafragrautur í boði á morgnana og hádegismatur í skólanum. Breytt fyrirkomulag á því að skammta hádegismat.

Lengd viðvera/heilsdagsskólinn

  • Heilsdagsskólinn verður opinn fyrir 1. – 2. bekk
  • Starfsemin verður að öðru leyti með óbreyttum hætti og óbreytt fyrirkomulag á hressingu og mat

Tónlistarskólinn 

  • Einkatímar:

    • Allir tímar haldast og er nemendum leyfilegt að sækja tíma á grunnskólatíma. 
    • Vegna 10 manna fjöldatakmörkunar í húsinu (eitt rými) verða allir tímar örlítið styttri, til að rýma til áður en nemendur í næstu tímum koma í hús.
    • Alexandra mun halda 2 m fjarlægð en í einhverjum tilfellum er það erfiðara og þá er að sjálfsögðu grímuskylda. 
    • Í söngtímum hjá Lindu Maríu verður búið að setja upp svokallað "frusstjald" sem skilur að nemendur og kennara og þá þarf ekki að vera með grímu þar. 
  • Hóptímar:

    • Hljómsveitaræfingar falla niður.
    • Flestir hóptímar í söng verða óbreyttir, en Linda verður í sambandi við þá sem þarf að breyta v/blöndunar á milli bekkja. 
    • Allir tímar hjá Baldri og Bent fara áfram fram í gegnum fjarkennslubúnað og er nemendum áfram velkomið að sækja sína tíma í tónlistarskólann. Ef einhverjir kjósa að vera heima setja foreldrar sig í samband við kennarann. 
    • Ekki er í boði að bíða í lengri tíma í anddyri tónlistarskólans. Við biðjum alla sem eru að koma í tíma að mæta rétt áður en tími byrjar og yfirgefa skólann um leið og tíma lýkur. Sófinn góði verður ekki í notkun heldur setjast nemendur á stól fyrir framan stofuna sína (allir stólar eru merktir). 
    • Nemendur þurfa að koma með hljóðfæri með sér (þar sem við á) og einnig möppur/nótur.  

Félagsmiðstöðin Eden

  • Ekki er heimilt að halda úti skipulögðu íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi barna og unglinga á grunnskólaaldri, þannig að Eden verður lokað. 
  • Umsjónarmenn munu skoða aðra möguleika á að eiga uppbyggileg samskipti/félagsstarf, án "hittings". 

 

Hjá öllu starfsfólki gilda 2ja metra fjarlægðarmörk og grímuskylda þegar ekki er hægt að koma fjarlægð. 

Ef eitthvað er óljóst er velkomið að senda tölvupóst; 

Anna leikskólastjóri - solvellir@gfb.is 
Sigurður Gísli grunnskólastjóri - sigurdur@gfb.is 
Linda María v. tónlistarskóla - lindam@gfb.is 
Ragnheiður Dröfn v. Eden - ragnheidurd@gfb.is