Kæru íbúar!
 
Stjórnendur og starfsfólk Grundarfjarðarbæjar hafa unnið að því um helgina að undirbúa starfsemi með þeim takmörkunum sem taka gildi nú á miðnætti, samkvæmt sóttvarnalögum. Sjá nánar í pistli frá í gær.
 
Eins og geta má nærri, verður starfsemi stofnana og þjónusta sveitarfélagsins með umtalsvert breyttu sniði, ekki síst skóla- og frístundastarfið. Stofnanir okkar og starfsfólk leggur sig fram um að mæta þeim kröfum sem fyrirmæli stjórnvalda fela í sér.
Í dag komu fram “viðmið Sambands íslenskra sveitarfélaga um takmarkanir á skóla- og frístundastarfi vegna COVID-19”. Þetta eru leiðbeiningar til sveitarfélaga í landinu, en þau reyna að samræma eins og kostur er aðgerðir í skipulagi skóla- og frístundastarfs fyrir tímabilið framundan.
 
Í dag funduðu skólastjórar grunnskólans, leikskólastjóri og deildarstjórar og í kvöld átti ég tölvufund með skólastjórunum. Dagurinn hjá þeim fór í að undirbúa nánar þessar breytingar og leggja línur fyrir starfsdag skólanna á morgun. Hann verður nýttur í að setja upp skipulag næstu vikna, þar sem skólastarfið fer fram með mikið breyttu sniði, eins og ljóst er orðið. Ég átti einnig samtöl í dag við forstöðumenn annarra stofnana bæjarins, formann Ungmennafélagsins og fleiri.
 
Ég vil segja frá því helsta sem nú liggur fyrir um starfsemi og fyrirkomulag, en skipulag skólastarfsins verður kynnt nánar seinnipartinn eða að kvöldi mánudags 16. mars.
 
Skóla- og frístundastarf:
 
Leikskólinn Sólvellir starfar á hefðbundnum tíma næstu vikur eftir því sem aðstæður leyfa. Fyrirkomulag leikskólastarfsins verður þó talsvert breytt, þar sem skipta þarf börnum og starfsfólki upp í hópa og aðskilja eftir því sem hægt er. Leikskólinn mun einnig nýta samkomuhúsið fyrir starfsemi sína að hluta.
 
Grunnskólinn stefnir að því að halda úti fullum skóladegi fyrir alla nemendur, alla daga, ef annað kemur ekki upp. Unglingunum verður kennt í íþróttahúsinu, sem alfarið verður tekið undir skólastarfið. Með því fæst ekki aðeins aukið rými fyrir starfið, heldur einnig fleiri inngangar í húsið. Það er eitt af verkefnunum sem þarf að leysa, við breytt fyrirkomulag, að nemendur komi ekki allir í einu inn um sama inngang og noti sama anddyri. Íþróttakennsla verður að miklu leyti leyst sem útikennsla.
 
Leikskóladeildin Eldhamrar verður á sínum stað, en skipta þarf upp hópnum og m.a. verður notast við annan inngang.
 
Við leggjum mikið uppúr að hádegismatur verði í boði, fyrir alla. Góð næring er algjört lykilatriði, ekki síst þegar takast þarf á við umrót af ýmsu tagi.
 
Tónlistarkennsla verður útfærð á morgun og sömuleiðis heilsdagsskóli.
 
Allar íþróttaæfingar í húsinu falla niður, um ótakmarkaðan tíma, meðan skólastarf fer fram í húsinu.
 
Félagsmiðstöðin Eden getur ekki haldið úti starfi í sínu húsnæði. Satt að segja verður það flókið í hvaða húsnæði sem er, með kröfu um 2ja metra nándartakmarkanir hjá unga fólkinu okkar. En nú er aldeilis tími fyrir nýskapandi hugsun; að finna nýjar og frumlegar leiðir. Það verður skoðað í vikunni, m.a. í samráði við unglingana sjálfa.
 
Íþróttastarf á vegum UMFG er í skoðun, með breyttu sniði. ÍSÍ gaf í dag út tilkynningu þar sem mælst er til að íþróttafélög geri hlé á æfingum sínum næstu vikuna, meðan skóla- og frístundastarf er endurskipulagt. Það skýrist því vonandi þegar líður á vikuna, hvernig framhaldið verður.
 
Endilega fylgist vel með tilkynningum á vef sveitarfélagsins, hér á Facebook og beint frá skólunum.
 
Starfsemi annarra stofnana:
 
Ráðhúsið heldur sínum opnunartíma, kl. 10-14, en við hvetjum viðskiptavini til að koma aðeins með brýn erindi. Við munum í vikunni rýmka símatímann, meira um það síðar, og bendum á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur, á netföng starfsfólks á www.grundarfjordur.is og síma 430 8500.
 
Bókasafnið er opið, en það er góður kostur að fá bækur sendar heim. Það er í boði.
Síminn er 438 1881 og netfangið er bokasafn@grundarfjordur.is
Minnum líka á síðuna https://www.facebook.com/Bokasafngrundarfjardar/
 
Heitir pottar sundlaugarinnar eru nú lokaðir, a.m.k. til að byrja með.
 
Hafnarhúsinu hefur verið lokað, nema fyrir viðskiptavini með brýnustu erindin.
 
Engir fundir - nema fjarfundir:
 
Í flestum stofnunum erum við starfsfólkið síðan að draga okkur í sundur eins og hægt er. Það er nokkuð síðan forstöðumenn fóru að hætta að hittast og á morgun göngum við enn lengra í því. Við höfum tekið samtöl í síma og notum netið fyrir fjölmennari samtöl og fundi. Nefndir, ráð og bæjarstjórn halda enga fundi þar sem hist er. Við erum byrjuð að halda fjarfundi fyrir óformlega fundi, en bíðum útfærslu á því hvernig megi halda formlega, bókaða nefndarfundi með öðrum hætti en að mæta öll á sama staðinn. Það er sú aðferð sem sveitarstjórnarlög mæla fyrir um, sem meginreglu, en nú stendur til að breyta því tímabundið.
 
 
Við erum öll almannavarnir!
 
Slagorðið “Við erum öll almannavarnir” hangir í loftinu. Ekki að ástæðulausu. Sóttvarnir eru almannavarnir. Og það erum við, almenningur, sem ráðum því hvernig til tekst með sóttvarnirnar sem nú þarf að grípa til. Hvert okkar ber mikla ábyrgð. Ekki bara á okkar heilsu og vellíðan, heldur líka samferðafólks okkar. Jafnvel þó að við séum hraust og getum búist við að hrista af okkur smitsjúkdóm, þá gildir það ekki um alla sem við umgöngumst. Svo er líka það, að því betur sem við gætum að okkur, þeim mun fyrr klárum við þetta!
Á www.covid.is er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar - lesum!
 
Að lokum vil ég nefna eitt. Það nota ekki allir tölvur, netið, Facebook og hvaðeina. Einmitt á netinu streyma upplýsingarnar; fleiri og hraðar heldur en hægt er að fylgjast með á RÚV eða í bæjarblaðinu Jökli. Nokkuð af eldra fólki á t.d. á hættu að missa af gagnlegum, jafnvel nauðsynlegum upplýsingum. Sem aldrei fyrr er líka mikilvægt að tungumál sé ekki hindrun. Hjá Grundarfjarðarbæ erum við sérstaklega að skoða hvernig við getum komið upplýsingum sem snerta starfsemi okkar til þeirra sem eru líklegir til að fara á mis við þær. Réttar upplýsingar auka á öryggi okkar. Engar upplýsingar geta ýtt undir óvissu og jafnvel kvíða.

Ég vil því hvetja ykkur til að hugsa sérstaklega til þeirra sem þið þekkið, sem ekki fylgjast með þessum miðlum. Getum við sett okkur í samband við þau og deilt upplýsingum, öllum til gagns?
 
Björg
 
 
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson.