Kæru íbúar!
 
Í dag vil ég aðallega minna á nokkra mikilvæga hluti:
 
Fellaskjól - ákall
 
Í auglýsingu í gær kallaði Fellaskjól eftir því að fá fólk á lista í sína bakvarðasveit. Þau segja: “Ef við þurfum á því að halda, getur þú lagt okkur lið?” Leitað er að fólki sem gæti létt undir í starfseminni, með einum eða öðrum hætti. Hér er slóð á auglýsinguna - henni var deilt 21 sinnum af síðu bæjarins, takk kærlega fyrir það!
 
Í færslu á Facebook-síðu Fellaskjóls í dag er síðan þakkað fyrir hlýhug og skilning. Allt gangi þar vel og öll séu hress. Svo segir:
 
“Við leggjum aukna áherslu á gleði og samveru á fjölbreytta vegu, t.d. líflega leikfimi, bíódaga, söng og lestur. Endilega verið dugleg að hafa samband. Við gerum okkar allra besta til að viðhalda gleðinni og góðum anda á heimilinu. Höfum í huga að sólin kemur alltaf upp á ný.”
 
Ég veit að mörg sakna þess að geta ekki heimsótt sitt fólk á Fellaskjóli og að það er gagnkvæmt. Í þannig aðstæðum finnum við aðrar leiðir til að auka samskiptin. Meira síðar.
 
Upplýsingar - sóttkví - veikindi
 
Í bæjarblaðinu Jökli í dag birtu sveitarfélögin á Snæfellsnesi sameiginlega tilkynningu um það sem okkur fannst mikilvægast að koma til íbúa. Upplýsingar breytast hratt og því var bent á vefsíður og netföng. Áherslubreyting hefur orðið í vikunni, frá því þessi auglýsing fór í prentun. Rétt er því að koma eftirfarandi áherslum á framfæri:
 
a) Til að leita upplýsinga - byrjum á að fara á www.covid.is eða á okkar heilsugæslustöð á www.hve.is Ef okkur vantar enn upplýsingar, þá er betra að senda póst heldur en hringja, ef erindið er ekki áríðandi. Netfangið er hve@hve.is
 
b) Þegar við þurfum að fara í sóttkví - t.d. þegar við komum frá útlöndum eða þegar við höfum “verið útsett fyrir smiti” (umgengist smitað fólk) - ber okkur að tilkynna um það til heilsugæslunnar okkar. Við látum einfaldlega vita af okkur. Best er að senda póst á hve@hve.is eða hringja á heilsugæslustöðina okkar í síma 432 1350 (Grundarfjörður). Munum; að það er skylda að fara í sóttkví þegar það á við. Leiðbeiningar landlæknis um sóttkví má finna hér.
 
c) Ef um alvarleg veikindi er að ræða - hringjum þá á heilsugæsluna 432 1350 eða í síma 1700.
 
Ekki hafa allir netaðgang og þar þurfum við að hjálpast að við að koma upplýsingum betur á framfæri. Meira síðar um það.
 
Grunnskólinn
 
Þakklæti fyrir að öll séum við að gera okkar besta til að láta skóladaginn og reglubundinn takt ganga upp. Ég heyri í Sigurði skólastjóra oft á dag og get fullyrt að það er stöðugt unnið í því að betrumbæta; að fyrirkomulagið virki og að öllum líði sem bes
Við reynum í lengstu lög að halda í hádegismatinn, mikilvægt að börnin nærist vel. Og höldum í gleðina! Á morgun er veðurspáin ekki hagstæð - sem reynir á nýju inngangana móti suðri. Hjálpumst að við það.
Kjörbúðin
 
Að lokum vil ég hrósa Kjörbúðinni okkar fyrir gott framtak, en milli 9-10 alla virka daga er séropnun fyrir eldra fólk og viðkvæma - sjá auglýsingu.
 
Vel gert Kjörbúðin - og við hin pössum okkur að fara bara eftir kl. 10 (sum okkar passa sig meira en aðrir og fara bara rétt fyrir lokun
 
Björg