Hluti af mynd eftir nemendur í þriðja bekk Grunnskóla Grundarfjarðar; hugmyndir um fjölskyldugarð í …
Hluti af mynd eftir nemendur í þriðja bekk Grunnskóla Grundarfjarðar; hugmyndir um fjölskyldugarð í Þríhyrningi.

 

Kæru íbúar!

Viðburðaríkri vinnuviku er farið að halla. Merkilegt hvað taktur daglegs lífs breytist á skömmum tíma.

Sem dæmi þá var ég ein á vakt á bæjarskrifstofunni í dag, með samstarfskonur mínar í fjarvinnu heiman frá sér. Ég svaraði tveimur símtölum á símatímanum (helmingi fleiri en í fyrradag!) og svo kom pósturinn með pakka. Þetta hefði verið óhugsandi fyrir 2-3 vikum.

Þess utan var auðvitað meira en nóg að gera í samskiptum við samstarfsfólkið við að undirbúa starfsemi næstu vikna á tímum breytinga. Við fundum reglulega á fjarfundum, forstöðumenn stofnana og starfsemi hjá bænum; sumir í tölvum og aðrir í snjalltækjum. Það gengur ljómandi vel.  Í dag fórum við m.a. yfir viðbragðsáætlun bæjarins, einkum þætti sem snúa að starfsfólki.

Aðrir fjarfundir dagsins voru nokkrir og eru nú orðnir daglegt brauð. Fyrir aðeins mánuði voru sumir þessara funda haldnir með því að aka í önnur byggðarlög og taka dágóðan hluta dagsins í fundarsetu. Meira og minna allir eru komnir á fjarfundi núna. Framhaldsskólanemarnir okkar eru í fjarnámi, sömuleiðis hluti nemenda tónlistarskólans og víða um landið eru grunnskólanemendur það líka.

Þetta kallast að læra hratt og breyta hratt. Af nauðsyn. Ég er sannfærð um að það mun skilja eftir sig hellings þekkingu og tæknifærni, en einnig reynslu af því að laga sig að breyttum aðstæðum.

Nýr bæjarvefur

Í dag settum við nýja vefsíðu Grundarfjarðarbæjar í loftið. Gamli vefurinn var kominn verulega til ára sinna og nýr vefur var á lokametrunum. Þegar ljóst var hvert stefndi með stöðuna í samfélaginu í síðustu viku ákváðum við að keyra sem fyrst á að taka nýja vefinn í notkun, þrátt fyrir að ýmislegt snurfus sé enn eftir. Gamli vefurinn var mjög óaðgengilegur í vinnslu, auk þess sem hann hentaði illa fyrir snjalltæki. Með því að setja nýja vefinn sem fyrst í loftið næst vinnusparnaður fyrir starfsfólk bæjarins, fleiri geta sett efni inná vefinn, nú þegar upplýsingum þarf að koma út hratt og vel, auk þess sem efnið er mun aðgengilegra. Á næstu dögum og vikum verður svo ýmislegt smálegt fært til betri vegar. Ég bið fólk um að vera því ekki að rýna í útlitið mikið núna, en skoða efnið þeim mun betur.

Þakkir

Í lok skólavikunnar þakka ég samstarfsfólki mínu fyrir þeirra vinnu síðustu vikuna, við gjörbreyttar aðstæður. Sérstaklega starfsfólki leik- og grunnskóla, sem bar hitann og þungann af því að láta skólahald ganga upp, ásamt nemendum og foreldrum. Bestu þakkir og göngum nú inní helgina með það að markmiði að safna kröftum fyrir komandi daga og þakka fyrir allt það góða í kringum okkur.

Góða helgi!

Björg