Grundarmön af svölum Ráðhússins, að morgni 20.10.2020
Grundarmön af svölum Ráðhússins, að morgni 20.10.2020

Kæru íbúar!

Í dag taka gildi breyttar reglur um sóttvarnir, skv. nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem gildir til 10. nóvember nk.

Þróun á landsvísu

Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni í gær, 19. október, kemur fram að tölur um ný smit annars vegar og tölur um fjölda í sóttkví hins vegar gefi til kynna að árangur sé að hafast í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn í þessari þriðju bylgju. Það sé að þakka samstöðu þjóðarinnar í að fylgja þeim reglum, leiðbeiningum og tilmælum sem hafa verið í gildi.

Þrátt fyrir að smitum hafi farið fækkandi sé samt of skammur tími liðinn til að hrósa sigri. Áríðandi sé að við höldum áfram að gæta okkar, forðast fjölmenni, þvo og sótthreinsa hendur oft og reglulega, virða fjarlægðarmörk sem eru í gildi og nota grímu þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra á milli fólks.  

Fram kemur að sóttvarnalæknir hafi mælt með því við heilbrigðisráðherra að halda núverandi aðgerðum áfram næstu tvær til þrjár vikurnar til þess að kveða veiruna niður, fækka nýjum smitum og ná að vernda þannig heilbrigðiskerfið.

Staðan hjá okkur

Engin ný smit hafa komið upp hér í Grundarfirði umfram þau fjögur smit sem greind voru í lok september og byrjun október. Það eru góðar fréttir. Við þurfum þó áfram að gæta vel að eigin sóttvörnum, eins og margoft hefur komið fram.

Á Vesturlandi öllu hefur ástandið færst í rétta átt, fólki í einangrun og sóttkví hefur fækkað, eitt nýtt smit kom upp á Akranesi sl. föstudag og fjölgaði fólki í sóttkví aðeins við það. Alls eru 16 manns nú í einangrun á Vesturlandi og 32 í sóttkví skv. upplýsingum í dag.

Á landinu öllu voru 1252 í einangrun í dag, 2878 í sóttkví og 25 á sjúkrahúsi.  

Helstu breytingar og reglur í okkar starfsemi

Helstu breytingar á okkar svæði eru þær að við förum úr eins metra í 2ja metra nándarmörk milli einstaklinga og skylt verður að nota andlitsgrímur þar sem ekki er hægt að tryggja 2ja metra nándarmörk, m.a. í verslunum. Við munum því örugglega sjá grímunotkun aukast, t.d. í verslunum og þjónustustöðum ýmsum.  

Breyttar reglur hafa ekki mikil áhrif á skólastarf barnanna. Áhrifin í skólunum eru helst þau að gæta verður 2ja metra reglunnar hjá starfsfólki. Takmarkanir eru því til dæmis á kaffistofum leik- og grunnskóla og í teymisvinnu. Fjarfundir og fjarvinna er nýtt í auknum mæli í starfseminni.   

Í reglugerð sem gildir sérstaklega um skólastarf og nýjustu breytingu á henni segir að foreldrar og aðstandendur leik- og grunnskólanemenda skuli almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til. Í leikskóla hefur grímuskylda verið um nokkurn tíma fyrir forráðamenn þegar þeir koma með og sækja börnin og dvelja í fataherbergi/anddyri þess vegna. Það helst óbreytt.

Tónlistarkennararnir Baldur og Bent hafa verið að kenna í fjarkennslu frá Reykjavík, en nemendur þeirra mæta í tónlistarskólann og taka sína tíma þar. Það fyrirkomulag verður enn um sinn. Tónlistarnemendur mæta með sín hljóðfæri, þau sem það geta, einnig kjuða, nótnabækur og blöð, þar sem reynt er að takmarka snertingu og notkun milli nemenda. Hljóðfæri eins og píanó eru sótthreinsuð á milli nemenda og handþvottur/sprittun er mikilvæg.  

Helstu reglur aðrar

Áfram er 20 manna samkomutakmörkun, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi þarf því að tryggja að ekki séu á sama tíma fleiri en 20 einstaklingar inni í sama rými, að ekki sé samgangur milli rýma, að 2 metrar séu á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ef það er ekki hægt þá er skylda að nota grímu. Það gildir t.d. í verslunum, í heilbrigðisþjónustu, á hárgreiðslustofum, nuddstofum, í innanlandsflugi og ‑ferjum, leigubifreiðum, hópbifreiðum og almenningssamgöngum. Þar skal nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn og uppfyllir ákveðnar kröfur.  

Þó nokkrar undanþágur eru á fjöldatakmörkunum, eins og t.d. í skólastarfi, við útfarir er heimilt að 50 manns séu viðstödd (þó ekki í erfidrykkjum) og í verslunum mega vera 100 manns að jafnaði.

Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innan­lands­flug, farþegaferjur og störf viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, slökkviliðs, hjálparliðs almanna­varna og heilbrigðisstarfsfólks.   

Fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímu­skylda taka ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

Fjöldatakmörkun er áfram í sundlaugar og heita potta. Skemmtistöðum og krám skal lokað, en aðrir veitinga­staðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar mega ekki hafa opið lengur en til kl. 23.00 alla daga vik­unnar.

Íþróttastarf, keppnir og líkamsræktarstöðvar

Aðrar reglur gilda um þessi mál á okkar svæði heldur en á höfuðborgarsvæðinu.

Hjá okkur gildir eftirfarandi:

  • Þrátt fyrir 2 metra nálægðartakmörk eru snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum á vegum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), en virða skal 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Þrátt fyrir 20 manna fjöldatakmörk er allt að 50 einstaklingum heimilt að koma saman á æfingum og í keppnum á vegum ÍSÍ. Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum.
  • Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.
  • Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu þó ávallt gæta að nálægðar­tak­mörkunum

Hér má lesa nánar um þetta.

Vetrarfrí í grunnskólum

Það er vetrarfrí í mörgum skólum landsins á næstunni. Í Grunnskóla Grundarfjarðar er vetrarfrí dagana 22.-26. október nk., og Tónlistarskóla 23.-26. okt.  

Í tilkynningu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis frá í gær segir:  

Fram undan eru vetrarfrí í grunnskólum og þeim hafa oft fylgt ferðalög. Almannavarnadeild og sóttvarnalæknir vilja áfram beina þeim tilmælum til fólks að halda sig sem mest heima og að ferðast ekki að nauðsynjalausu. Einnig að forðast hópamyndun í heimahúsum eða orlofshúsum.

 

Björg