Kæru íbúar!

Í dag ákvað heilbrigðisráðherra, eftir tillögu frá sóttvarnalækni, að setja enn frekari takmarkanir á samkomuhald. Um er að ræða nokkrar ráðstafanir til að draga úr útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.
Helstu ráðstafanir eru að: 

  • Allar fjöldasamkomur þar sem fleiri en 20 manns koma saman eru óheimilar meðan takmörkunin er í gildi, bæði í opinberum rýmum og einkarýmum.

  • Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi skal tryggt að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

  • Á vinnustöðum eða þar sem önnur starfsemi fer fram mega ekki vera fleiri en 20 einstaklingar í sama rými, m.a. í almenningssamgöngum og sambærilegri starfsemi.

  • Sérstakar reglur gilda um matvöruverslanir og lyfjabúðir hvað varðar fjölda viðskiptavina og stærð húsnæðis. 

  • Loka skal samkomustöðum og ýmissi starfsemi vegna sérstakrar smithættu. Þetta á t.d. við um sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, skemmtistaði og starfsemi sem krefst mikillar nálægðar milli fólks eða skapar hættu á of mikilli nálægð, s.s. hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og annað sambærilegt. 

  • Íþróttastarf fellur einnig hér undir, þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér. 

Hér má lesa nánar um þessa auglýsingu heilbrigðisráðherra, sem verður birt í Stjórnartíðindum mánudaginn 23. mars. Auglýsingin tekur gildi á miðnætti á mánudagskvöld, þ.e. kl. 00:01 þann 24. mars og gildir til 12. apríl næstkomandi. Takmörkunin tekur til landsins alls. 

Hvaða áhrif hefur þetta á starfsemi og þjónustu?

Skólastarf

Ákvörðun um takmörkun skólastarfs, sem tók gildi 16. mars sl. er óbreytt, a.m.k. um sinn. Skólahald heldur því áfram óbreytt í bili, eins og foreldrum og forráðamönnum hefur verið kynnt. 

Á fundi sem ég átti í dag með skólastjórum leikskóla og grunnskóla var þó ákveðið að gera viðbótarráðstafanir til að aðskilja enn frekar börn og starfsfólk í leikskóla. Leikskólastjóri og deildarstjórar útfærðu það svo nánar á fundi undir kvöldið og hafa foreldrar fengið skilaboð um þetta. 

Frá og með mánudeginum 22. mars fer leikskólastarfið fram algjörlega þrískipt. Eldri börnin af músadeild (svonefnd ugludeild) verða alveg sér í samkomuhúsinu og tekið verður á móti þeim þar. Gerðar verða ráðstafanir til að draga enn frekar úr því að börn og starfsfólk af músadeild og drekadeild séu á sama tíma í fatahenginu, við upphaf og lok skóladags. Auk þess eru ráðstafanir í leik- og grunnskóla til að aðskilja starfsfólk enn frekar.

Heitir pottar og íþróttahús

Heitum pottum í sundlauginni var lokað fyrir viku, með fyrirvara um frekari skoðun. Ljóst er nú að þeir verða lokaðir áfram. Íþróttahúsið er ekki opið.

Íþróttastarf barna og ungmenna

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, birti tilkynningu þann 20. mars sl. þar sem þeim tilmælum er beint til íþróttafélaga um allt land að gera hlé á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna. Allar æfingar á vegum UMFG falla því niður á meðan takmörkun gildir um skólastarf og samkomuhald. 

Félagsstarf eldri íbúa

Eins og áður hefur komið fram er ekki lengur í gangi heilsuefling 60+ sem fram fór í íþróttahúsi og líkamsrækt. Hins vegar hafa þjálfararnir, þau Kristín Halla og Gaui, sett myndbönd og leiðbeiningar um heppilega heimahreyfingu inná Facebook-síðu heilsueflingarinnar með hvatningu um að fólk hreyfi sig heima við. 

Handavinnuhópurinn er sömuleiðis kominn í tímabundið frí, kór eldri borgara líka, karlakaffið er komið í páskafrí og Vinahús Rauða krossins starfar með takmörkunum.

Hreyfum okkur!

Hjá bænum reynum við eftir bestu getu að moka vel gönguleiðir og halda hlaupabrautinni kringum íþróttavöllinn opinni með snjómokstri, fyrir fólk á öllum aldri sem vill fá sér göngutúr. Þegar veðrið batnar verður gott að komast út í hreyfingu, fyrir þau sem það geta.

Stöllurnar úr Líkamsræktinni - “spinning-gengið” góða, þær Ágústa, Rut og Lilja - hafa útbúið skemmtilegt myndband sem öllum stendur opið til að nýta við að gera æfingar heima. Ég fékk leyfi til að deila því með ykkur hér. Þær eru síðan að undirbúa sérstakt myndband með æfingum sem henta vel eldri íbúum - meira um það fljótlega. 

Félagsmiðstöðin Eden

Félagsmiðstöð unglinga er komin í sjálfgert hlé. Það þýðir hins vegar ekki að starfið sé í algerum dvala. Síðastliðinn fimmtudag átti ég fjarfund með Ragnheiði Dröfn og Helgu Sjöfn vegna starfs félagsmiðstöðvarinnar. Þær munu áfram vinna með unglingunum, með aðstoð tækni og samskiptamiðla til að finna eitthvað skemmtilegt sem hægt er að gera. Við fáum að heyra meira um það síðar. 

 

Skilaboð og upplýsingar fyrir erlenda íbúa 

Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú að skilaboð frá stjórnvöldum nái til þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Það er mjög gott að á vefnum www.covid.is er að finna upplýsingar bæði á ensku og pólsku. Af þeirri ástæðu látum við þýða mikilvæg skilaboð sem varða þjónustu í Grundarfirði yfir á pólsku, hér á vefnum. Ég hvet ykkur til að deila því til erlendra vina og samstarfsfólks.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga eru leiðbeiningar á ensku, pólsku og spænsku. Á vefnum Iceland review er að finna mikið af fréttum á ensku, sömuleiðis á vef RÚV á ensku.

Ég hef ekki fundið þýðingar á helstu skilaboðum af upplýsingafundum almannavarna sem haldnir eru á hverjum degi kl. 14 í sjónvarpinu. Ef einhver veit hvort það er gert, þá þigg ég upplýsingar um það. 

Á Íslandi ríkir samkomubann, þ.e. verulegar takmarkanir á samkomum og tveggja metra nálægðartakmarkanir milli einstaklinga. Samkomubann er ekki eins í öllum löndum. Það er mikilvægt að við kynnum okkur það vel. Við erum hvött til þess að vera ekki að ferðast að óþörfu, ekki fara í heimsóknir eða milli landshluta, nema af brýnni nauðsyn. Á Íslandi er þessu banni hins vegar ekki framfylgt eins og í mörgum öðrum löndum. Við eigum ekki her og hér er lögreglan ekki sýnileg til að framfylgja þessu banni. Það er engu að síður mjög mikilvægt að við virðum þetta og reynum að draga úr því sem allra fyrst að veiran smitist meira á milli fólks.

Finnum aðrar - tímabundnar - leiðir til að eiga samskipti og njóta félagsskapar. Þannig klárum við þetta hratt og vel. 

Björg