Grundarfjörður, apríl 2017.
Grundarfjörður, apríl 2017.

Kæru íbúar! 

Í dag ákvað landlæknir að birta mætti tölur um fjölda smitaðra og fólks í sóttkví innan einstakra landshluta. Þessar tölur eru lagðar fram daglega á fundi í aðgerðastjórn almannavarna og ég á von á  að lögreglan á Vesturlandi muni birta þær á Facebook-síðu sinni. 

Í dag voru 474 manns í sóttkví á Vesturlandi, þar af 28 hjá okkur, sem er óbreytt frá í gær. Á Vesturlandi voru greind 28 smit, sem er aukning um fjögur frá í gær, en engin breyting er á Snæfellsnesi frá því á föstudaginn var. 

Hvatning til foreldra 

Í dag birti lögreglan á Vesturlandi hvatningu til foreldra, en á Facebook-síðu lögreglunnar segir: 

Samkvæmt upplýsingum lögreglu eru engar skipulagðar íþróttaæfingar í gangi en við höfum verið að fá tilkynningar um að fjöldi barna og ungmenna sé að hittast til þess að spila t.d. fótbolta á sparkvöllum í umdæminu. Við hvetjum foreldra til þess að útskýra fyrir börnum sínum mikilvægi þess að virða nálægðartakmarkanir og fylgja þeim fyrirmælum sem gefin hafa verið út.

Það er mikilvægt að við gætum að þessu, ræðum þetta við börn og ungmenni og útskýrum. 

Gagnlegar upplýsingar fyrir foreldra 

Samtökin Heimili og skóli birta gagnlegar upplýsingar til foreldra á vefsíðu sinni, m.a. þessar leiðbeiningar: 

Spurt og svarað á covid.is - enn betri upplýsingar

Samhæfingarmiðstöð almannavarna vakti í dag athygli sveitarfélaga á að búið er að uppfæra upplýsingar á vefnum covid.is í níu aðgreindum spurningaflokkum undir “Spurt og svarað”. 

Á vef landlæknis er einnig að finna ítarlegar upplýsingar undir “spurt og svarað”.  

Almenningsbókasöfnum óheimilt að lána bækur

Í dag fékkst svar frá heilbrigðisráðuneyti við undanþágubeiðni vegna útlána bóka hjá almenningsbókasöfnum. 

Í 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, segir m.a. að sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum skuli lokað. Með söfnum er einnig átt við almenningsbókasöfn og er þá hvorki heimild til að hafa söfnin opin, né til þess að lána út bækur "snertilaust", t.d. með heimsendingum. 

Í samræmi við þetta, þurftum við því frá og með deginum í dag, að loka á útlán og heimsendingu bóka frá Bókasafni Grundarfjarðar. Okkur þykir það leitt og hvetjum til áframhaldandi lesturs, annað hvort með því að eiga stefnumót við gamla kunningja í bókaskápunum eða með því að nýta fjölda möguleika til að hlusta rafrænt á bækur.

Ef þú ert með bók í láni frá bókasafninu, hafðu hana bara áfram í láni, þangað til safnið opnar að nýju.

Félagsmiðstöðin - starfsemi 

Þær Ragnheiður Dröfn og Helga Sjöfn hafa unnið með unglingunum í félagsmiðstöðinni að undanförnu.
Í gangi er m.a. leikur sem gengur út á að krakkarnir fara út og taka myndir og þurfa svo að deila þeim með hópnum. Safnað er stigum fyrir að taka margar og mismunandi myndir og leysa þraut, svo eru verðlaun í lokin. Fleira er í undirbúningi, sem vonandi verður hægt að segja frá fljótlega. 

Önnur verkefni 

Þó mikil vinna fari í sérstakar aðgerðir og utanumhald vegna sóttvarna og takmarkana á samkomuhaldi og skólastarfi, þá látum við önnur verkefni og starfsemi ganga samhliða, eftir því sem það er unnt og með tilliti til þeirra takmarkana sem í gildi eru. Vinna stendur yfir við undirbúning endurskoðunar og ársreikningagerðar, ýmislegt er í gangi á vettvangi skipulags- og byggingamála, hafnarframkvæmdir halda áfram og fleira mætti nefna. 

Ég minni á auglýsingu Grundarfjarðarbæjar um sumarstörf 2020 - sjá nánar hér. Umsóknarfrestur er til og með mánudagsins 6. apríl nk. 

Mars 2020 á enda! 

Þá er þessum óvenjulega marsmánuði að ljúka. Þetta er tuttugasti pistillinn minn frá því að tilkynnt var um fyrirhugaðar takmarkanir á skólahaldi og samkomuhaldi, fyrir hádegi þann 13. mars sl. Með pólskum þýðingum eru þetta samtals um 40 pistlar, fyrir utan fjölda annarra auglýsinga bæjarins vegna veiru og sóttvarna, sem og tilkynningar sem við miðlum frá öðrum. Ég mun reyna að halda þessum pistlaskrifum áfram, eftir því sem ástæða og tími verður til og hvet ykkur til að deila pistlunum, ef í þeim er efni sem ykkur finnst að eigi erindi til vina og kunningja - t.d. pistlarnir á pólsku.

Með samkomubanninu fór í gang gríðarleg vinna í þjóðfélaginu við að umbreyta starfsemi, umhverfi og daglegu lífi okkar allra. Veikindi og takmarkanir hafa því miður sett svip á daglegt líf margra á Íslandi og um heim allan. Við skulum öll hjálpast að við að fylgja þeim fyrirmælum sem okkur eru gefin, af samviskusemi og ábyrgð, vegna heilsu og velferðar okkar sjálfra og allra hinna.

Förum eftir þessu og tökum öll þátt í að kveða niður þennan óvelkomna gest, sem þessi veira er. Við getum það saman. 

Björg