Kirkjufell og Grundarfjörður, séð ofan af Grundarmön, júlí 2019.
Kirkjufell og Grundarfjörður, séð ofan af Grundarmön, júlí 2019.

Kæru íbúar! 

Í dag voru 15 manns í sóttkví í Grundarfirði, en alls eru 313 í sóttkví á öllu Vesturlandi. Alls voru 35 smit á Vesturlandi, sem þýðir 3 ný smit síðan í gær. Óbreytt staða hjá okkur. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi.

Það eru engin sérstök skilaboð í dag, sunnudag, en ég leyfi mér að setja fram eftirfarandi hugleiðingu:

Við erum hvött til að taka veirufrí á sunnudagskvöldum kl. 20-21. Frábær áminning um að það er nauðsynlegt að gleyma sér við “eitthvað annað”, uppbyggilegt og nærandi og loka um stund fyrir áreiti frétta og umræðna um mál málanna.

Án efa erum við þó flest að reyna að eiga eins mikið af “veirufríum” stundum og við mögulega getum.
Alla daga. Að viðhalda gleðinni eða bara að ríghalda í hversdagslegar athafnir eins og hægt er; þetta litla, venjulega sem við höfum gert daglega, án þess að láta hvarfla að okkur að í því sé fólginn einhver sérstakur munaður. Sem það samt er.

Í þriðjungi ríkja heims búa hundruðir milljóna íbúa nú við tímabundnar hömlur á athafnir daglegs lífs, af mismiklu tagi. Mjög víða hefur líf fólks í stórborgum og hjá milljónaþjóðum umturnast á örskömmum tíma. Að því ónefndu að áhrifin, bein og afleidd, munu vara lengi. Ástandið er alvarlegt. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að útlista það í þessum pistli. 

En í ástandinu miðju, þá áttum við okkur á því að þetta er gríðarstór æfing í öllu því sem mun í raun ráða því hvernig við komumst í gegnum þetta núna og svo ótalmargt annað í lífinu; hvert okkar persónulega, en líka heildin, við öll sem samfélag. Síðustu vikur, og enn frekar komandi vikur, eru í raun gríðarstór æfing í eiginleikum eins og hjálpsemi, umburðarlyndi og samvinnu, æfing í frumleika, frumkvæði og hæfni til aðlögunar, einnig nægjusemi, æfing í jákvæðni og bjartsýni, í því að sýna auðmýkt og æðruleysi, og í þolinmæði og þrautseigju. Þetta ástand er risastórt próf í getu okkar til að sjá okkur sem hluta af heild; að verða ekki of nærsýn eða sjálfhverf, heldur vinna með hag heildarinnar að leiðarljósi - sem hlekkur í keðju. Umfram allt eru þessir tímar prófsteinn á það að kunna að sýna þakklæti. 

Þetta eru eiginleikar sem alltaf eru mikilvægir - en aldrei eins og nú. Auðvitað mun okkur ekki takast allt og við munum gera fullt af mistökum, á þessum tíma sem öðrum. Við erum jú mannleg. En að reyna er mikilvægt.

Að sjá okkur sem hluta af heild og að sýna þakklæti, finnst mér vera nátengt. Ef við sjáum okkur sem hluta af heild allra jarðarbúa, þá ætti þakklætið ekki að vera langt undan. Að átta okkur á því að stór hluti jarðarbúa býr alla daga við margfalt verra ástand en það sem við þurfum að sætta okkur við, tímabundið. Að átta okkur á því að við eigum stórkostleg tækifæri til að verjast veiru og sjúkdómi, öfugt við þau. Ef við sjáum okkur sem hluta af þeirri heild sem samfélagið okkar í Grundarfirði er, þá ætti þakklætið heldur ekki að vera langt undan. Að átta okkur á því að við eigum allt okkar undir því að við getum öll sinnt okkar hlutverkum, sem lengst, hvort sem hlutverkin felast í að láta fyrirtækin ganga, sem eiga tök á því, eða í því að halda á floti fyrirtækjunum sem nú þreyja erfiðan tíma. Hlutverkin felast í því að framleiða matvöru; að veita margskonar þjónustu; flytja afurðir frá og aðföng til byggðarlagsins; að afgreiða okkur sem viðskiptavini í búðinni - þar sem við öll komum hvað oftast, alla daga vikunnar; að sjá um menntun barnanna okkar; að hjúkra okkur í veikindum eða á efri árum; að vinna í sjálfboðastarfi að samfélagslegum verkefnum; að sækja ruslið hjá okkur svo við getum viðhaldið hreinlæti, o.s.frv. Við erum öll hlekkur í einni keðju, öll mikilvæg og öll háð hvert öðru. 

Velferð okkar (og í raun munaður) felst í því að ná að halda þessari keðju gangandi, eins lengi og hægt er, á næstu vikum og mánuðum, helst allan tímann. Áskorunin felst í að gera allt sem við getum, hvert og eitt okkar, til að það sé hægt. Tímabundið þurfum við að leggja ýmislegt á okkur; sleppa ferðalögum, sleppa heimsóknum, sleppa matarboðum - nema kannski net-boðum, sem eru víst orðin mjög vinsæl :-) Við þurfum jafnvel að leggja á okkur að vinna við breyttar og flóknari aðstæður, tímabundið. Og til að gera þetta vel, þá reynir á að við nýtum áðurnefnda eiginleika.

En upp með gleðina - góðu fréttirnar eru að við getum þetta vel!

 

Björg