Kirkjufellsfoss, mynd Salbjörg Nóadóttir, 6. apríl 2020.
Kirkjufellsfoss, mynd Salbjörg Nóadóttir, 6. apríl 2020.

Kæru íbúar! 

Í dag voru 11 manns í sóttkví í Grundarfirði og fækkaði um 4 síðan í gær. Alls eru 261 í sóttkví á öllu Vesturlandi og hefur fækkað. Alls voru 37 smit á Vesturlandi, sem þýðir 2 ný smit síðan í gær. Óbreytt staða hjá okkur, en eitt smit kom upp í Ólafsvík. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi

Fjarfundur hafnarstjórnar

Í dag fundaði hafnarstjórn Grundarfjarðarhafnar í fyrsta skipti á fjarfundi. Farið var yfir stöðu hafnarframkvæmda, yfir fjárhagsstöðu og nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir.

Grundarfjarðarhöfn er ein af ellefu sóttvarnahöfnum landsins. Til þessara hafna má sóttvarnalæknir, í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og aðgerðastjórn í héraði, beina skipum vegna hugsanlegra lýðheilsuógna. Í gildi er landsáætlun sem segir fyrir um skipulag og stjórn aðgerða í sóttvarnaaðgerðum þegar um borð í skipi vaknar grunur um atvik sem ógnað getur lýðheilsu. Viðbragðsáætlanir vegna sóttvarna eru svo gerðar fyrir þessar hafnir, sem flestar sinna alþjóðlegum skipakomum, og þurfa þær að hafa ákveðnar öryggisráðstafanir tiltækar. Á fundinum voru til kynningar gögn sem snúa að þessu hlutverki Grundarfjarðarhafnar.

Fundur bæjarstjórnar á morgun

Þriðjudaginn 7. apríl, kl. 16:30, fundar bæjarstjórn í fyrsta sinn formlega á fjarfundi. Fundurinn er opinn, eins og aðrir fundir bæjarstjórnar, og er hægt að fylgjast með honum á skjá í Bæringsstofu, Sögumiðstöðinni. Sjá nánar um það fyrirkomulag og dagskrá fundarins hér. Meginmál fundarins er ákvörðun um frekari aðgerðir bæjarins til viðspyrnu vegna þess ástands sem nú ríkir vegna áhrifa Covid-19. 

Viðburðir á netinu

Ýmsir viðburðir eru að færast yfir á netið og við finnum leiðir til að eiga samskipti og erindi með aðstoð tækninnar. Á fimmtudaginn í síðustu viku “hittist” starfsfólk grunnskólans á netinu og spilaði bingó. Við heyrum af kórum sem æfa sig “saman” á netinu og fjölskyldur eiga samverustundir á fjarfundum. 

Áfram heldur upplesturinn með streymi yfir á Fellaskjól. Í dag var það Lilja Magnúsdóttir sem hélt áfram að lesa Ofurefli eftir Einar Kvaran og hér má hlusta. 

Á Pálmasunnudag 5. apríl var send út messa frá Grundarfjarðarkirkju, þar sem sr. Aðalsteinn Þorvaldsson þjónaði fyrir altari, Þorkell Máni, Linda María og Kristbjörg Ásta sáu um frábæran tónlistarflutning. Takk fyrir að koma til okkar, þegar við getum ekki komið til ykkar!

Þetta kallast að laga sig að aðstæðum og finna nýjar leiðir! 

Björg