Almenningssalerni eru í anddyri samkomuhússins.
Almenningssalerni eru í anddyri samkomuhússins.

Kæru íbúar! 

Enn eru 11 íbúar í sóttkví í Grundarfirði, skv. upplýsingum dagsins. Þrettán eru nú í einangrun með smit á Vesturlandi, þremur fleiri en í fyrradag, en ekki hefur bæst við smit á Snæfellsnesi. Vaxandi fjöldi fer í sýnatökur á heilsugæslustöðvum HVE. 

Fréttir dagsins voru dapurlegar, 109 eru nú í einangrun vegna smita, en voru 91 í fyrradag. Samkvæmt covid.is eru 914 manns í sóttkví á landinu öllu, sem er fjölgun um 168 manns frá því í fyrradag. Haft var eftir sóttvarnalækni að engin merki séu um að kórónuveiran sé veikari nú en áður og að hann óttaðist að nú færi að bera á fleiri alvarlegum veikindum.

Almenningssalernin í samkomuhúsinu

Eins og komið hefur fram opnaði Grundarfjarðarbær almenningssalerni í anddyri samkomuhússins 12. mars sl. rétt áður en samkomubann tók fyrst gildi. Það er mikilvægt að geta boðið þessa aðstöðu fyrir ferðafólk, ekki síst til að létta “klósettálagi” af öðrum stöðum. Í síðustu viku lokaði Kjörbúðin salernum aftur fyrir gestum og gangandi af skiljanlegum ástæðum, vegna sóttvarna. 

Við biðjum foreldra barna og ungmenna að brýna fyrir þeim að nota EKKI anddyri samkomuhússins sem afdrep eða samkomustað á opnunartíma almenningssalernanna, hvorki að degi né kvöldlagi. Þó að þrif séu þar regluleg alla daga, er samt ekki æskilegt að börn safnist saman eða séu að leik þarna, eins og aðeins hefur borið á síðustu daga í rigningunni. Hjálpumst að við að koma þessum skilaboðum á framfæri. 

Hvernig náum við til unga fólksins? 

Fram hefur komið í fréttum að í þessari “nýju bylgju kórónaveirusmita” sé áberandi hve ungt fólk er stór hluti smitaðra, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Um fjörutíu prósent fólks í einangrun með virkt COVID-19 smit sé undir þrítugu, langflestir á aldrinum 18 til 29 ára. 

Landlæknir hefur biðlað til foreldra um að aðstoða við að koma upp­lýs­ing­um til barna, ungmenna og ungs fólks, ræða um smitleiðir og hvernig hægt sé að verjast smitum. 

Það hefur líka komið fram að þetta sé “markaðslegt vandamál”, þ.e. að upplýsingar, auglýsingar og hvatning sé ekki að skila sér til yngra fólks. Yngra fólk sjái e.t.v. ekki heldur “nægan tilgang í að breyta lífi sínu í ótakmarkaðan tíma einungis fyrir almannaheill” og sé minna hrætt við að fá COVID-19 sjálft. Góðu fréttirnar eru að stjórnvöld hafa áttað sig á þessu og leita leiða til að sníða skilaboð enn betur að þessum hópi. 

Við vitum að ungt fólk getur smitað aðra og smitast sjálft, jafnvel lent í alvarlegum veikindum. Nú er okkur einnig sagt að eftirköst af Covid-19 geti verið mun alvarlegri en fyrst var talið og geti jafnvel haft áhrif á heilsufar okkar ævilangt, eins og margar aðrar veirur gera. Þetta gildi líka um heilsuhraust fólk og þau sem smitast af Covid-19 án þess að fá alvarleg einkenni.

Ég ætla ekki að þykjast hafa réttu ráðin eða “patent-lausnir” á því hvernig á að ná til yngra fólksins. Það eina sem hægt er að gera, er að treysta því að við foreldrar gefum okkur tíma til að fara yfir þessi mál með börnunum, ekki síst til að komast að því hvernig þau skilja og skynja staðreyndir og aðstæður. Ýmsir sem vinna náið með yngra fólki segja að það geti þurft að vinda ofan af mistúlkun og misskilningi, sem sé algengur meðal ungs fólks. Hér gæti verið efni sem hjálpar.

Við erum líka beðin um að aðstoða við upplýsingagjöf til vina og samstarfsfólks sem ekki hefur íslenskuna að móðurmáli, t.d. með því að miðla síðunni www.covid.is sem er sett fram á 10 tungumálum auk íslensku. 

Þessi veira verður ekki sigruð nema með sameiginlegu átaki og góðum skammti af þolinmæði. Öndum inn - og öndum út. Þetta mun taka tíma, en þetta mun samt líða hjá, svo töpum ekki gleðinni! 

Björg