Snæfellsnesfjallgarður, 8. apríl 2020; séð vestur að Mýrarhyrnu og Helgrindum. Mynd: Hermann G.
Snæfellsnesfjallgarður, 8. apríl 2020; séð vestur að Mýrarhyrnu og Helgrindum. Mynd: Hermann G.

Kæru íbúar! 

Í dag voru 9 manns í sóttkví í Grundarfirði, tveimur færri en í gær, af samtals 232 sem eru í sóttkví á öllu Vesturlandi. Fjöldi smita er 38 á Vesturlandi öllu, einu fleiri en í gær, en óbreytt staða á Snæfellsnesi. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi. 

Menning á tímum Covid-19 

Í morgun fundaði menningarnefnd Grundarfjarðarbæjar á fjarfundi. Eitt meginumræðuefnið var menning á tímum Covid-19. Hvað er til ráða þegar stór hluti af menningartengdri starfsemi og félagsstarfi liggur niðri vegna takmarkana á samkomuhaldi og fólk heldur sig almennt heima við? Er þá engin menning?  

Þörfin til að skapa og til að njóta menningar er manneskjum í blóð borin. Við höfum gert það frá örófi alda. Menningin finnur sér leið. Við sköpum sjálf og njótum þess sem aðrir skapa. Í samkomubanni förum við ekki á tónleika úti í bæ - við syngjum bara veiruna burt og leyfum öðrum að njóta, við bíðum spennt heima og njótum þegar Helgi Björns heldur stofutónleika fyrir okkur. Í samkomubanni sækjum við ekki messur, heldur kemur sr. Aðalsteinn og hans fólk með útsendingu, heim til okkar. Við förum ekki í bíó en vinsæl leikrit eru sýnd í sjónvarpinu. Við förum ekki á listasöfn, en fólkið í landinu tekur áskorun um að endurgera fræg listaverk heima hjá sér í áskorun listasafna. Í samkomubanni fáum við ekki bækur á bókasafninu, en við njótum upplesturs Hjöddu ofan úr kirkju eða Lilju heiman úr stofu og Ingi Hans og fleiri sögumenn halda okkur spenntum á netinu. Við höfum þörf fyrir sögur og þörf fyrir skáldskap. “Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni”  sagði Jón Prímus í Kristnihaldi undir Jökli. 

Auðvitað gerist þetta ekki af sjálfu sér; það er fólk á bak við hvern viðburð, hverja sögu. Og því ber að þakka.

Á fundi menningarnefndar í morgun var einmitt rætt um það hvernig við gætum hvatt hvert annað til að taka þátt í að skapa, á tímum veirunnar; flytja tónlist, segja sögur, birta myndir, tengja okkur við annað fólk. Nokkrar hugmyndir eru í vinnslu hjá menningarnefnd, en íbúar eru áfram hvattir til að láta sköpunargleðina taka völdin. 

Leiðbeiningar á pólsku og fleiri tungumálum

Sífellt bætist í upplýsingar sem þýddar eru yfir á önnur tungumál. Á vefnum covid.is eru komnar leiðbeiningar á 8 tungumálum, sem stöðugt er verið að endurbæta. Á vefnum landlaeknir.is er hægt að mæla með því að fara beint í flokkinn “Útgefið efni” og þar er góð leitarvél sem gefur upp útgáfur á ýmsum tungumálum, prófið t.d. að slá inn orðið “sóttkví”. 

Þann 27. mars sl. spurðist ég fyrir hjá embætti landlæknis um pólska þýðingu á leiðbeiningum um sóttkví sem embættið gefur út. Leiðbeiningarnar eru nokkuð ítarlegar og mikilvægt að allir geti nálgast þær; hvað má og hvað má ekki, á Íslandi, þegar við förum í sóttkví. Reglurnar voru ekki til þýddar á pólsku, en í gær komu þær út og má nú finna á vef landlæknis en einnig á covid-vefnum, sjá hér. Sömuleiðis komu út í dag í pólskri þýðingu leiðbeiningar fyrir almenning um einangrun í heimahúsi og leiðbeiningar fyrir áhættuhópa

Virðum SMITBILIÐ og verum HLAÐFÖST um páskana

Ég heyrði þetta fína nýyrði í dag: “smitbil” - um 2ja metra fjarlægðarmörkin og “social distancing”, sem erfitt er að þýða. Virðum smitbilið, vöndum okkur! 

Annað orð heyrði ég um daginn, en það er þó ekki nýyrði, orðið “hlaðfastur/hlaðföst” - að vera fastur við hlaðið heima, að vera heimakær. Við höfum margoft verið hvött til að halda okkur heima um páskana. Við erum flest sammála um að það séu góð ráð. Förum eftir góðum ráðum - ráðin eiga nefnilega við um okkur öll; ekki bara um “hina”. Verum “hlaðföst” - en viðrum okkur þó úti við! 

Þetta er pistill nr. 28 frá 13. mars sl. Ég ætla að taka “pistlafrí” um páskana - ég set inn efni eða tilkynningar ef nauðsyn krefur og á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi koma tölur daglega um þróun mála.

Megi páskarnir verða þér og þínum ánægjulegir, rólegir og endurnærandi - heima, innanhúss!

Gleðilega páska! 

Björg