Að morgni sumardagsins fyrsta, 23. apríl 2020.
Að morgni sumardagsins fyrsta, 23. apríl 2020.

Veturinn 2019-2020 er liðinn. Sumarið 2020 er gengið í garð og við tökum því fagnandi!

Við virðum takmarkanir samkomuhalds þetta árið, en engu að síður er ýmislegt um að vera.

Skátarnir efna til útivistardags og skora á okkur að fara í gönguferðir á þrjá vel valda áfangastaði; í skógræktarlundinn í þéttbýli Grundarfjarðar, um Kirkjufellsfjöru að Hnausavita og síðast en ekki síst, uppá Klakk! Göngufólk er hvatt til að taka myndir, pósta þeim á samfélagsmiðla og merkja #grundosumar, auk þess að setja nafn sitt á miða í sérstaka bauka sem staðsettir eru á hverjum áningarstað. Dregið verður úr nöfnum þátttakenda kl. 18.00. Hér má lesa nánar um þetta frábæra framtak Skátanna. Að sjálfsögðu gætum við fyllstu varúðar, fjölskyldur ganga saman og gæta fjarlægðartakmarkana við aðra.

Uppúr kl. 14 í dag fer kirkjukór Grundarfjarðarkirkju í heimsókn fyrir utan Dvalarheimilið Fellaskjól og syngur fyrir íbúa. Við fáum frekari fréttir og myndir af því vonandi.

Það er líka tilvalinn dagur til að fara í fjöruferð, hjólaferð eða kanna umhverfið okkar betur.

Að gera sér dagamun ...

Kaffi 59 hefur opnað ísvélina og frá kl. 15 er opið fyrir ís og kökur, auk þess sem veitingastaðurinn er opinn. Hægt að panta pizzur líka.

Láki hafnarkaffi er opið frá 18 fyrir pizzur sem hægt er að sækja.

Bjargarsteinn - mathús er með tilboð á heimagerðum ís í boxi og býður lasagne og hvítlauksbrauð sem "Taka með"-kvöldverð dagsins.

Krums, handverk og hönnun er með opið kl. 13 - 16 á vinnustofunni/búðinni.
Allrar varúðar gætt, handföng og annað sem við á er sprittað eftir hvern viðskiptavin og einungis snertilaus viðskipti.
Hrafnhildur Jóna hefur verið í margvíslegri vöruþróun að undanförnu og má líka sjá inná vefverslun Krums.

Liston - alþýðulistamaður bendir á útisvæðið að Sólvöllum 6 og Facebook-síðuna, þar sem hægt er að velja sér listaverk til kaups.

Lavaland - litla búðin með stóra hjartað, sjá Facebook-síðu.

Blossi/Snæþvottur er með allskyns vörur fyrir sumarið og eru þær mæðgur nýfarnar að vera með reiðhjól frá Erninum í sölu.

Kjörbúðin er með helgartilboð, sem borin hafa verið í hvert hús. Opið er frá 12-17 í dag.

Útsýnið mitt

Við minnum síðan á að það væri gaman að fá mynd frá ykkur um útsýnið ykkar í dag - sjá nánar hér.

Njótum dagsins!