Landað var úr Viðey RE-50 í Grundarfirði í dag. Mynd: Sverrir Karlsson, 25. nóv. 2021
Landað var úr Viðey RE-50 í Grundarfirði í dag. Mynd: Sverrir Karlsson, 25. nóv. 2021

Atvinnulífið 

Það er ánægjulegt að segja frá því að vinnsla gat hafist hjá Soffaníasi Cecilssyni ehf. nú í morgun, fimmtudag. Þar er verið að pakka saltfiski á fullu, en jólavertíðin er framundan og hún er mjög stór í saltfiski. SC selur mest á Spán og Ítalíu. Keppst er við að ná að útbúa sendingar fyrir jólin og með síðasta skipi sem fer 3. desember, svo náist í jólasölu. Nánast allir starfsmenn eru komnir aftur til vinnu, segir Mjöll Guðjónsdóttir yfirmaður landvinnslu SC.

Hjá Guðmundi Runólfssyni hf. hefur fyrirtækið náð að halda sjó með ítrustu ráðstöfunum. Þar vantar þó nokkra starfsmenn, en þrátt fyrir það hefur fyrirtækið náð að halda landvinnslunni gangandi. Vinnslan er í glænýju húsnæði og aðstaðan hjálpar mikið til, þannig að starfsfólk getur t.d. dreift vel úr sér, segir Guðmundur Smári Guðmundsson framkvæmdastjóri.

Togarinn Runólfur fór út á sjó í gær, miðvikudag. Á honum, eins og hinum heimaskipunum þremur, Farsæl, Sigurborgu og Hring SH, fara nú allir í áhöfninni í hraðpróf á heilsugæslustöðinni, áður en lagt er af stað til veiða. 

Á höfninni var í dag, fimmtudag, landað úr Viðey RE-50. Í gær komu Hringur SH og Sighvatur GK til löndunar og á morgun, föstudag, verður Harðbakur EA hér. 

Nóvembermánuður hefur verið annasamur á höfninni en fjöldinn allur af skipum hefur komið hingað til löndunar. Eftir daginn í dag er landaður afli kominn í 2.600 tonn en til viðmiðunar var landaður afli í nóvember 2020 samtals 1.339 tonn. Nóvembermánuður stefnir því í tvöföldun á lönduðum afla á milli ára, rétt eins og í októbermánuði. Þá var landað um 2.100 tonnum í Grundarfjarðarhöfn, sem er stærsti októbermánuður frá upphafi hjá höfninni, eins og sagt var frá í frétt hér á vefnum, og tvöföldun frá árinu áður.  

Á Dvalarheimilinu gengur allt ágætlega, sérstaklega eftir gærkvöldið, en þá losnaði um starfsmenn sem áttu leikskólabörn í sóttkví. Íbúar og starfsfólk hlakka þó til þegar hægt verður að leyfa heimsóknir að nýju.

Heimalífið 

Grundfirskar fjölskyldur eru margar hverjar heima við núna þegar fjölskyldumeðlimir eru í einangrun eða sóttkví. Grunnskóli og leikskóli hafa þurft að hafa lokað í vikunni. Hjólin snúast líka þar, þó með öðrum hætti sé - nemendur grunnskólans fá heimaverkefni send og sum eru í kennslu á Teams. Vonast er til að hægt verði að opna aftur nk. mánudag.

En hvað er fólk að gera heima fyrir, börn og fullorðnir? Margar fjölskyldur hafa skipt sér upp, annað hvort í sínu eigin húsnæði eða þá með því að hluti fjölskyldunnar fer annað. Við fengum innsýn í verkefnin hjá nokkrum fjölskyldum og fengum leyfi hjá þeim til að deila því með ykkur:

  • Við erum búin að vera með flensueinkenni og því svolítið úthaldslítil. En það er búið að taka fram pússl, taka til í “drasl”skúffunni sem búið er að standa til mjög lengi :-)
    Tíminn er nýttur í verkefni sem hafa svolítið setið á hakanum, því dagarnir eru frekar langir! Við reynum auðvitað líka að halda rútínu með heimalærdóminn. 

  • Hér er verið að spila, jólaskreyta, halda skipulagi (það skiptir höfuðmáli - að hafa stundaskrá eða verkefnalista), taka til, versla á netinu, vinna, föndra, reyna að gera það besta úr dögunum! 

Heimaverkefni og þrautir hjá þeim yngri

  • Svo erum við með æfingarprógramm líka: hreyfing, dans, söngur. 

  • Hér er mikið borðað!

  • Búin með námsefnið frá kennaranum, eigum von á fleiri bókum í dag.
    Svo er það þvottur - uppvask - ryksuga og búið að jólaskreyta! 

  • Megum fara út, en ekki hitta neinn.
    Vorum að klára heitt súkkulaði með rjóma, piparkökum
    og glóðuðum sykurpúðum. 

  • Tók Teams-vinnufund, en það var heldur mikið fjör í kringum mig.

  • Krakkarnir eru að spila helling saman á öllum aldri. 
    Helsta afþreying er nú tölvan þar sem öll samskipti eru við vini. 

  • Hér var í gangi spurningakeppni. 

  • Pabbinn er búinn að vera með kennslustund fyrir börnin fyrir hádegi.

  • Hér eru allir bara frekar hressir. Smá slappleiki.

  • Við förum út í garð í fótbolta. Erum búin að baka smá og spila og vorum nú að fá púsl. Kennarinn kom svo með aukabækur áðan. Svo það er ýmislegt brallað. 

  • Það má líka koma fram þakklæti til allra sem eru að hugsa til okkar sem erum föst heima. Verslanir hér í bænum og nágrannabæjum bjóða frábæra þjónustu og eins og Aníta að bjóða heimsendingu á bökunarkössum. Samstaðan er mögnuð!

  • Svo er bara ótrúlegt hvað allir eru búnir að standa í þessu og allir tilbúnir að aðstoða. Hingað hafa borist allskonar "hjálparpakkar" á húninn og við höfum fengið MARGAR hringingar um að við getum leitað til þeirra ef það vantar eitthvað og svo mætti lengi telja.