Málsnúmer 1802036

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 212. fundur - 08.03.2018

Lagt fram erindi Sýslumannsins á Vesturlandi frá 20. febrúar sl., þar sem óskað er umsagnar vegna umsóknar GG18 ehf. um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II að Grundargötu 18.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn áréttar fyrri bókanir sínar um að ekki séu veittar jákvæðar umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir í íbúðabyggð, þar sem sú starfsemi samræmist ekki gildandi skipulagsáætlunum, né ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og -reglugerðar nr. 90/2013, sem og ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010.

Bæjarstjórn áréttar jafnframt að fyrirhugað sé að leggja skýrar línur um fjölda gistirýma í íbúðabyggð í þéttbýli sveitarfélagsins í aðalskipulagi sem nú er í endurskoðun. Áætlað er að endurskoðun aðalskipulags verði lokið í maí 2018.

Jafnframt er vegna þessa lagt fram erindi Pacta lögmanna f.h. Grundarfjarðarbæjar til Skipulagsstofnunar dags. 2. mars sl., þar sem m.a. er óskað leiðbeininga stofnunarinnar varðandi umsagnir bæjarins vegna umsókna um rekstrar- og gistileyfi í íbúðabyggð í þéttbýli Grundarfjarðar á grundvelli 2. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni.

Í erindinu er m.a. óskað leiðsagnar um það hvort samþykkt bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 14. desember 2017 geti staðið óbreytt eða ekki. Samþykktin var gerð á grundvelli álitsgerðar Pacta lögmanna frá 20. nóv. sl. sem unnin var fyrir bæinn.

Framangreindri afstöðu bæjarstjórnar, sem áðurnefnd samþykkt gerir grein fyrir, hefur verið mótmælt af rekstrarleyfishöfum sem eru nú, eða þurfa fyrirsjáanlega á næstu mánuðum, að sækja um endurnýjun rekstrarleyfa. Á grundvelli þessa telur bæjarstjórn, með vísan til 1. mgr. 4. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að nauðsynlegt hafi verið að óska eftir leiðsögn Skipulagsstofnunar vegna þeirra álitaefna sem tiltekin eru í bréfinu.

Kallað hefur verið eftir því við Skipulagsstofnun að leiðsögn stofnunarinnar verði flýtt eins og frekast er kostur. Leiðbeiningar stofnunarinnar liggja ekki fyrir á fundinum en búast má við þeim á næstu dögum. Ekki liggur því fyrir á fundinum hvort einhverjar forsendur séu til þess að bæjarstjórn endurskoði efni bókunar frá fundi bæjarstjórnar þann 14.12.2017.

Endanleg umsögn bæjarstjórnar verður ekki afgreidd fyrr en leiðsögn Skipulagsstofnunar liggur fyrir.

Samþykkt samhljóða.