Málsnúmer 1803046

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 510. fundur - 21.03.2018

Lagt fram svar Skipulagsstofnunar frá 9. mars sl., þar sem stofnunin svarar fyrirspurnum bæjarins vegna umsagna um rekstrar- og gistileyfisumsóknir í íbúðabyggð í þéttbýli Grundarfjarðar á grundvelli laga og reglugerða sem um málið gilda.

Með bókun dags. 14.12.2017 ákvað bæjarstjórn Grundarfjarðar að jákvæðar umsagnir um umsóknir um rekstrarleyfi gististaða í flokki II, sbr. lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, yrðu aðeins veittar ef fyrirhuguð starfsemi væri í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og ef öll tilskilin leyfi skv. lögum um mannvirki væru fyrir hendi vegna þeirrar fasteignar sem fyrirhugað væri að hafa reksturinn í.

Framangreind ákvörðun var tekin í framhaldi af ráðgjöf lögmanns bæjarins þar um, en sú ráðgjöf var síðar staðfest með leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um efnið, en leitað var sérstaklega til stofnunarinnar vegna þessa. Með hliðsjón af ráðgjöf lögmanns bæjarins og leiðbeiningum Skipulagsstofnunar telur bæjarráð að framangreind ákvörðun bæjarstjórnar sé lögum samkvæmt.

Frá því að framangreind ákvörðun var tekin hafa bæjaryfirvöld orðið þess áskynja að ákvörðunin kunni að koma illa við núverandi rekstrarleyfishafa sem séu í þeirri stöðu nú að þurfa að sækja um nýtt leyfi í stað leyfis sem er að renna út. Þeir hafi þannig lent á milli steins og sleggju sem ekki hafi verið ætlun bæjaryfirvalda.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn með tilliti til framangreindra atriða að æskilegt sé að veittar séu jákvæðar umsagnir um umsóknir um rekstrarleyfi í húseignum sem þegar hafa slík rekstrarleyfi, þar til endurskoðað aðalskipulag tekur gildi.

Bæjarráð samþykkti samhljóða að vísa málsmeðferð þessari til afgreiðslu bæjarstjórnar.