Málsnúmer 1901006

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 224. fundur - 10.01.2019

Bæjarstjórn hefur yfirfarið stöðu aðalskipulags og vinnu sem í gangi er við endurskoðun aðalskipulagsins, eins og kveðið er á um í 35. gr. skipulagslaga að gert sé í upphafi hvers kjörtímabils. Vinnslutillaga var auglýst í maí til september sl. Vegna sveitarstjórnarskipta sl. sumar og þar sem nú eru um þrjú ár liðin frá því farið var af stað með endurskoðun aðalskipulags, hefur bæjarstjórn metið hvort forsendur gefi tilefni til áherslubreytinga í yfirstandandi skipulagsvinnu, m.a. út frá þróun atvinnumála, lýðfræði eða annarra þátta.

Bæjarstjórn telur að aðalskipulagið eigi að fullvinna á grundvelli þeirra lína sem þegar hafa verið lagðar í skipulagsvinnunni, en að til viðbótar þurfi að beina sjónum enn frekar að því að styrkja ímynd og aðdráttarafl Grundarfjarðar sem lykiláfangastaðar með Kirkjufellið í forgrunni. Straumur ferðamanna hefur legið að Kirkjufelli sl. ár og farið stigvaxandi. Þessu hafa fylgt sífellt stærri áskoranir varðandi umhverfisálag, umferð og öryggismál. Ábati af ferðamannastraumnum hefur hinsvegar verið of lítill fyrir samfélagið. Til þess að draga úr álagi og stuðla að auknum ávinningi telur bæjarstjórn að leita eigi leiða til að tengja þéttbýlið og áningarstaðinn við Kirkjufellsfoss og Kirkjufell betur saman og skilgreina annan lykiláningarstað í þéttbýlinu sjálfu. Markmiðið er að sá áfangastaður verði ekki síðra aðdráttarafl með tíð og tíma og laði gesti inn í bæinn. Þannig skapist mögulega tækifæri til að dreifa álaginu og auka sókn ferðafólks í þjónustu í Grundarfirði meðan á dvöl þar stendur. Með þetta að markmiði verði rammahluti aðalskipulagsins mótaður nánar og verðmæti Kirkjufells sem táknmyndar sveitarfélagsins dregið skýrar fram.

Auk þess leggur bæjarstjórn til að í aðalskipulaginu verði sett fram stefna um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna, en með þeim er ofanvatni í þéttbýli veitt á náttúrulegan hátt niður í jarðveginn, í stað þess að veita því eingöngu í hefðbundin fráveitukerfi. Tilgangurinn er að minnka álag á fráveitukerfi og viðhalda heilbrigðum vatnsbúskap. Rigning og asahláka í þéttbýli Grundarfjarðar hefur skapað vaxandi vandamál og jafnvel valdið skemmdum og kostnaði. Vegna þessa verði horft til blágrænna ofanvatnslausna sem farið er að beita víða erlendis og einnig hérlendis. Með lausnum eins og tjörnum, ofanvatnsrásum, grænum svæðum, gróðri og gengdræpu yfirborði má leitast við að draga úr kostnaði við fráveitukerfi um leið og gæði byggða umhverfisins eru aukin. Á grunni almennrar stefnu í aðalskipulagi um blágrænar ofanvatnslausnir verði stefnt að því að útfæra skipulag slíkra lausna nánar, t.d. sem rammahluta aðalskipulags, í framhaldi af gildistöku nýs aðalskipulags.
Með hliðsjón af ofangreindu er bæjarstjóra falið að óska eftir auknu framlagi í skipulagsvinnuna.