224. fundur 10. janúar 2019 kl. 16:30 - 20:46 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Heiður Björk Fossberg Óladóttir (HBÓ)
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Vignir Smári Maríasson (VSM)
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir (SSB)
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Jónas Gestur Jónasson, frá Deloitte, sat fundinn undir lið 1.

Forseti setti fund og bauð Sigurrós Söndru Bergvinsdóttur velkomna á sinn fyrsta fund.

Gengið var til dagskrár.

1.Opið bókhald - Umræða

Málsnúmer 1806021Vakta málsnúmer

Lokaður dagskrárliður - Upplýsingaöflun.

Jónas Gestur Jónasson frá Deloitte sat fundinn undir þessum lið.

Jónas kynnti ýmsar leiðir til opins bókhalds og mismunandi dæmi frá sveitarfélögum.

Allir tóku til máls.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu - Umræða

Málsnúmer 1808012Vakta málsnúmer

Lokaður dagskrárliður.

Umræður um störf bæjarstjórnar.

3.Atvinnumál - Umræða

Málsnúmer 1808013Vakta málsnúmer

Lokaður dagskrárliður.

Umræður um atvinnumál.

4.Lögmenn Laugavegi 3 ehf. - Starfsmannamál

Málsnúmer 1901005Vakta málsnúmer

Afgreiðslu málsins frestað og vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

5.Kosning eins aðalfulltrúa í bæjarráð og kosning formanns

Málsnúmer 1901004Vakta málsnúmer

Til máls tóku JÓK, VSM, SG, UÞS og BÁ.

Lagt til að Bjarni Sigurbjörnsson verði kjörinn aðalmaður í bæjarráð í tímabundnu leyfi sem bæjarstjórn hefur veitt Rósu Guðmundsdóttur, formanni bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

Jafnframt lagt til að Heiður Björk Fossberg Óladóttir verði formaður bæjarráðs.

Samþykkt með fjórum atkvæðum. Þrír sátu hjá (VSM, SG, SSB).

Borin fram breytingatillaga þess efnis að Hinrik Konráðsson verði formaður bæjarráðs.

Tillagan felld með fjórum atkvæðum (JÓK, HBÓ, UÞS, BS). Þrír greiddu atkvæði með breytingatillögunni.

6.Skrá yfir störf undanskilin verkfallsheimild

Málsnúmer 1901001Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2. janúar sl. þar sem sveitarfélög eru minnt á að birta skrár yfir þau störf sem ekki hafa verkfallsheimild.

Jafnframt lögð fram uppfærð auglýsing um störf hjá Grundarfjarðarbæ sem undanþegin eru verkfallsheimild ásamt bréfi til stéttarfélaga, þar sem óskað er samráðs.

Auglýsing um störf sem undanþegin eru verkfallsheimild samþykkt samhljóða.

7.Endurskoðun aðalskipulags - mat bæjarstjórnar skv. 35. gr. skipulagslaga

Málsnúmer 1901006Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn hefur yfirfarið stöðu aðalskipulags og vinnu sem í gangi er við endurskoðun aðalskipulagsins, eins og kveðið er á um í 35. gr. skipulagslaga að gert sé í upphafi hvers kjörtímabils. Vinnslutillaga var auglýst í maí til september sl. Vegna sveitarstjórnarskipta sl. sumar og þar sem nú eru um þrjú ár liðin frá því farið var af stað með endurskoðun aðalskipulags, hefur bæjarstjórn metið hvort forsendur gefi tilefni til áherslubreytinga í yfirstandandi skipulagsvinnu, m.a. út frá þróun atvinnumála, lýðfræði eða annarra þátta.

Bæjarstjórn telur að aðalskipulagið eigi að fullvinna á grundvelli þeirra lína sem þegar hafa verið lagðar í skipulagsvinnunni, en að til viðbótar þurfi að beina sjónum enn frekar að því að styrkja ímynd og aðdráttarafl Grundarfjarðar sem lykiláfangastaðar með Kirkjufellið í forgrunni. Straumur ferðamanna hefur legið að Kirkjufelli sl. ár og farið stigvaxandi. Þessu hafa fylgt sífellt stærri áskoranir varðandi umhverfisálag, umferð og öryggismál. Ábati af ferðamannastraumnum hefur hinsvegar verið of lítill fyrir samfélagið. Til þess að draga úr álagi og stuðla að auknum ávinningi telur bæjarstjórn að leita eigi leiða til að tengja þéttbýlið og áningarstaðinn við Kirkjufellsfoss og Kirkjufell betur saman og skilgreina annan lykiláningarstað í þéttbýlinu sjálfu. Markmiðið er að sá áfangastaður verði ekki síðra aðdráttarafl með tíð og tíma og laði gesti inn í bæinn. Þannig skapist mögulega tækifæri til að dreifa álaginu og auka sókn ferðafólks í þjónustu í Grundarfirði meðan á dvöl þar stendur. Með þetta að markmiði verði rammahluti aðalskipulagsins mótaður nánar og verðmæti Kirkjufells sem táknmyndar sveitarfélagsins dregið skýrar fram.

Auk þess leggur bæjarstjórn til að í aðalskipulaginu verði sett fram stefna um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna, en með þeim er ofanvatni í þéttbýli veitt á náttúrulegan hátt niður í jarðveginn, í stað þess að veita því eingöngu í hefðbundin fráveitukerfi. Tilgangurinn er að minnka álag á fráveitukerfi og viðhalda heilbrigðum vatnsbúskap. Rigning og asahláka í þéttbýli Grundarfjarðar hefur skapað vaxandi vandamál og jafnvel valdið skemmdum og kostnaði. Vegna þessa verði horft til blágrænna ofanvatnslausna sem farið er að beita víða erlendis og einnig hérlendis. Með lausnum eins og tjörnum, ofanvatnsrásum, grænum svæðum, gróðri og gengdræpu yfirborði má leitast við að draga úr kostnaði við fráveitukerfi um leið og gæði byggða umhverfisins eru aukin. Á grunni almennrar stefnu í aðalskipulagi um blágrænar ofanvatnslausnir verði stefnt að því að útfæra skipulag slíkra lausna nánar, t.d. sem rammahluta aðalskipulags, í framhaldi af gildistöku nýs aðalskipulags.
Með hliðsjón af ofangreindu er bæjarstjóra falið að óska eftir auknu framlagi í skipulagsvinnuna.

8.Íslenska gámafélagið ehf.- Sorphirðudagatal 2019

Málsnúmer 1812014Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar uppfært sorphirðudagatal 2019. Gert er ráð fyrir aukalosun kringum jól, líkt og á árinu 2018.


9.Ljósleiðari, breyting hjá ráðgjafa

Málsnúmer 1801012Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar samningur við Raftel ehf. vegna utanumhalds um lagningu ljósleiðara. Bæjarstjóra falið umboð til að ganga frá samningi við ráðgjafa verksins, í samræmi við fyrirliggjandi samning. Verkið er á lokametrum.

10.Samband ísl. sveitarfélaga - ályktun um vinnumansal og fyrirspurn bæjarstjóra

Málsnúmer 1901002Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ályktun Sambands íslenskra sveitarfélaga um vinnumansal ásamt fyrirspurn bæjarstjóra til Sambandsins í því sambandi.

11.CreditInfo - Fjölmiðlaumfjöllun um Grundarfjörð 2017 og 2018

Málsnúmer 1901003Vakta málsnúmer

Lagðar fram skýrslur CreditInfo varðandi fjölmiðlaumfjöllun um Grundarfjörð árin 2017 og 2018.

12.Umhverfisráðstefna Gallup 18. janúar 2019

Málsnúmer 1812013Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar fundarboð umhverfisráðstefnu Gallup sem haldin verður 18. janúar nk.

13.Tilraunasveitarfélag í húsnæðismálum

Málsnúmer 1809058Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Íbúðalánasjóðs frá 12. desember sl., þar sem tilkynnt er að Grundarfjarðarbær sé ekki meðal þeirra sveitarfélaga sem fyrst verða tekin inn í tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs í húsnæðismálum landsbyggðarinnar. Íbúðalánasjóður auglýsti eftir þátttakendum í verkefnið í haust og sóttu 33 sveitarfélög um þátttöku, en einungis sjö sveitarfélög voru samþykkt. Íbúðalánasjóður mun í kjölfarið bjóða hinum sveitarfélögunum 26 til samtals fljótlega með það fyrir augum að hægt verði að ráðast í uppbyggingu á sambærilegum forsendum.

14.Íbúðalánasjóður - Leigufélagið Bríet ehf

Málsnúmer 1812021Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Íbúðalánasjóðs frá 20. desember sl. þar sem kynnt er að stofnað hafi verið Leigufélagið Bríet ehf. sem yfirtaki eignarhald og rekstur á fasteignum Íbúðalánasjóðs um allt land.

15.Minnispunktar bæjarstjóra

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 20:46.