Málsnúmer 1904013

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 227. fundur - 11.04.2019

Lögð fram til kynningar drög að reglugerð á kynningu í Samráðsgátt um tímabundnar lokanir veiðisvæða á grunnslóð við Ísland.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar mótmælir harðlega þeim fyrirætlunum sem fram koma í 7. gr. draga að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð við Ísland, sem auglýst voru í Samráðsgátt þann 2. apríl 2019. Greinin fjallar um bann við veiðum með línu og fiskibotnvörpu á tilgreindu svæði á norðanverðum Breiðafirði.

Breytingin kæmi sérlega illa niður á byggðarlaginu í Grundarfirði, þar sem hún snertir öll togskip sem gerð eru út héðan og önnur skip sem stunda veiðislóðina og hér landa.

Breytingin felur í sér stækkun á bannsvæði fyrir veiðar með línu og fiskibotnvörpu á norðanverðum Breiðafirði. Bæjarstjórn telur að lokunin eigi ekki við rök að styðjast hvað varðar veiðar með fiskibotnvörpu.

Tilgangur reglugerðarbreytingarinnar er að loka svæðum þar sem mest hefur verið um skyndilokanir eða smáfisk. Ekki verður séð að þessum tilgangi sé þjónað með útilokun veiða með fiskibotnvörpu, þar sem á rúmum áratug hefur einungis einu sinni komið til lokunar veiðisvæðisins vegna veiða með fiskibotnvörpu. Sú lokun var gerð árið 2008.

Bæjarstjórn leggur því til að orðin „og fiskibotnvörpu“ verði felld út úr texta 7. greinar reglugerðarinnar.