Málsnúmer 1909019

Vakta málsnúmer

Öldungaráð - 9. fundur - 12.09.2019

Erindisbréf öldungaráðs lagt fram til kynningar.
Farið var yfir efni erindisbréfsins. Þar segir að hlutverk öldungaráðs og tilgangur sé að gæta hagsmuna eldri borgara í Grundarfirði og vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni eldri borgara.

Rætt var um þau verkefni sem ráðið hefur verið að sinna og ætti að hafa á sinni könnu.

Kosningu formanns, varaformanns og ritara er frestað þar til allir aðalmenn eru mættir á fund.

Farið var yfir eftirfarandi mál:

- Bæjarstjóri sagði frá samtali forsvarsfólks sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, um heilbrigðisþjónustu á Snæfellsnesi. Meðal annars var rætt um það hvernig mætti auka samtal og samstarf Heilbrgðisstofnunarinnar, félagsþjónustu sveitarfélaganna og dvalar- og hjúkrunarheimila á svæðinu um þjónustu við eldri borgara.
Ráðið fagnar þessu.

- Bæjarstjóri sagði frá endurskoðun fjölskyldustefnu bæjarins og annarri stefnumörkun bæjarins og að ráðið yrði kallað til samtals fljótlega vegna þess.

- Fulltrúi ráðsins mun sitja kynningarfund skipulags- og umhverfisnefndar um aðalskipulagstillögu síðar í dag.

- Fulltrúi ráðsins mun einnig koma á spjallfund með fulltrúum menningarnefndar um dagskrá Rökkurdaga, menningarhátíðar, nk. mánudag.

- Spurt var um heimsendingu matar til eldri borgara, en Dvalarheimilið hafði séð um það. Bæjarstjóri upplýsti um stöðu málsins.

Ráðið mun á næsta fundi fara betur yfir verkefni sín.

Öldungaráð - 10. fundur - 27.03.2021

Bæjarstjóri kynnti breytingar á lögum um málefni aldraðra og félagsþjónustu sveitarfélaga hvað varðar skipan öldungaráðs sveitarfélaga, auk tillögu um breytingu hjá Grundarfjarðarbæ.

Í öldungaráði Grundarfjarðarbæjar sitja í dag þrír aðalmenn og jafnmargir til vara. Öldungaráð gegnir skv. erindisbréfi hlutverki þjónustuhóps aldraðra og starfar skv. 7. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999. Öldungaráð getur komið ábendingum til bæjarstjórnar um allt það sem betur kann að fara er varðar málefni aldraðra í bæjarfélaginu.

Árið 2018 urðu breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem mælti fyrir um að starfandi ætti að vera formlegur samráðsvettvangur er nefndist ölrungaráð. Þar ættu að sitja að lágmarki þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni. Vettvangurinn ætti að fjalla um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Ákvæðið var í andstöðu við ákvæði laga um málefni aldraðra, þar til á síðasta ári að síðarnefndu lögunum var breytt. Í frumvarpi með lagabreytingunni segir að breytingin sé gerð til samræmis við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í samræmi við þessi tvenn lög þarf því núna að breyta skipan öldungaráðs bæjarins.

Bæjarstjóri mun leggja eftirfarandi tillögu um breytingu fyrir bæjarstjórn:

- Bæjarstjórn kjósi öldungaráð samkvæmt nýju fyrirkomulagi á næsta eða þar næsta fundi (apríl eða maí), þannig að skilyrði laganna séu strax uppfyllt.
- Núverandi öldungaráð eru 3 aðalmenn og 3 varamenn. Bærinn leggi til við Félag eldri borgara að þrír af þessum sex verði tilnefndir (út kjörtímabilið) sem fulltrúar Félagsins og þrír verði skipaðir af bæjarstjórn. Leitað verði eftir fulltrúa Heilbrigðisstofnunar Vesturlands að auki. Þannig verði sömu einstaklingar áfram í öldungaráði (þannig breyttu) út kjörtímabilið.
- Ef Félag eldri borgara óskar eftir að koma stjórnarmönnum eða öðrum sínum fulltrúum að umræðu í öldungaráði á þessu kjörtímabili, þá geti þeir verið sem gestir inná fundi öldungaráðs.
- Breyting verði gerð á samþykkt um stjórn Grundarfjarðarbæjar hvað varðar skipan öldungaráðs, í samræmi við fyrrgreind lög, næst þegar ástæða er til, mögulega fyrir vorið 2022, skv. nánari ákvörðun bæjarstjórnar. Umrædd tvenn lög leiðbeina alveg fram á næsta ár og segja fyrir um hlutverk ráðsins.

Öldungaráð gerir ekki athugasemdir við þessa framkvæmd og RG fulltrúi FEBG mun bera þetta undir stjórn félagsins.