Málsnúmer 2001031

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 542. fundur - 30.01.2020

Stjórnarmenn úr Skotgrund, Skotfélagi Snæfellsness, þeir Jón Pétur Pétursson og Birgir Guðmundsson, sátu fundinn undir þessum lið.

Fulltrúar stjórnar Skotfélags Snæfellsness ræddu um starfsemi og uppbyggingu á skotsvæði Snæfellsness. Formaður félagsins var með glærukynningu og fór yfir sögu félagsins, starfsemi, umhverfi og framkvæmdir. Félagið var stofnað árið 1987, og er þriðja elsta skotfélag landsins. Nú eru um 160 félagsmenn í félaginu, en félögum hefur fjölgað mikið síðustu ár.

Umhverfi klúbbsins í Kolgrafafirði er einstakt og aðstaða góð. Klúbburinn er með samning við bæinn um aðstöðu á svæðinu, en bærinn á landið í Hrafnkelsstaðabotni. Klúbburinn er með nýlega riffilskotbraut, sem verið er að klára og eldri leirdúfuskotvöll, sem til stendur að endurnýja fljótlega og verður honum snúið, en þá verður svæðið með bestu keppnisskotvöllum á landinu. Þá á félagið með 20 ferm. félagsheimili, sem er of lítið fyrir starfsemi félagsins og ætlunin er að endurnýja á næstu árum. Næstu uppbyggingarverkefni eru að klára framkvæmdir við riffilvöll og að endurbyggja leirdúfuskotvöllinn.
Öll uppbygging hefur byggst á sjálfboðaliðastarfi. Á svæðinu er hvorki vatn né rafmagn og háir það frekari uppbyggingu.

Rætt var um starfsemi félagsins, um uppbyggingu á félagssvæðinu í Kolgrafafirði, um aðstöðu til skotæfinga innanhúss, sbr. umræður í bæjarráði/bæjarstjórn um aðstöðu til slíks í samkomuhúsinu.

Stjórnarmönnum Skotfélagsins var þakkað fyrir góða kynningu og umræður.

Bæjarráð - 543. fundur - 27.02.2020

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Skotfélaginu Skotgrund dags. 8. febrúar sl., þar sem kynnt er að undirbúningur sé hafinn á alþjóðlegu riffilskotmóti sem haldið verður á skotsvæði félagsins í Kolgrafafirði.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með starfsemi félagsins og þá miklu uppbyggingu sem hefur verið á svæðinu. Hafi stjórn skotfélagsins hugmyndir að því hvernig unnt er að veita félaginu liðsinni við undirbúning og framkvæmd riffilskotmótsins, er bæjarráð tilbúið til viðræðna.

Samþykkt samhljóða.