Málsnúmer 2009020

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 241. fundur - 10.09.2020

Til máls tóku JÓK, BÁ og UÞS.

Lögð fram svohljóðandi bókun:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum af neikvæðri þróun tekna sveitarfélagsins, einkum útsvars og jöfnunarsjóðsframlaga. Vegna áhrifa Covid-19 hafa útsvarstekjur sveitarfélagsins dregist saman frá áætlunum ársins, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur skert framlög sín, auk þess sem þjónustutekjur og tekjur Grundarfjarðarhafnar hafa dregist saman. Á sama tíma hafa útgjöld bæjarins aukist vegna viðbótarfjárfestingar í innviðum auk annarra ráðstafana sem grípa hefur þurft til vegna ástandsins.

Sveitarfélögin standa undir fjölþættri, lögskyldri grunnþjónustu við íbúa sína. Sú þjónusta hefur aldrei verið eins mikilvæg og í því ástandi sem nú ríkir. Framlög úr Jöfnunarsjóði eru umtalsverður hluti þeirra tekna sem sveitarfélagið reiðir sig á til að standa undir lögskyldri þjónustu. Það hlutverk sjóðsins verður að hafa í huga nú.

Á síðustu árum hafa engin lát verið á nýjum skyldum og verkefnum sem sveitarfélögum er ætlað að sinna, án þess að tryggt sé að tekjur fylgi til að standa undir þeim, hvort heldur sem er á grunni laga eða stjórnvaldsfyrirmæla.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á Alþingi og ráðherra ríkisstjórnarinnar að virða ákvæði 129. gr. sveitarstjórnarlaga og leggja ekki nýjar skyldur og verkefni í fang sveitarfélaga, án þess að áhrif þeirra séu metin og án þess að tekjur séu tryggðar til að standa undir þeim.

Bæjarstjórn mótmælir harðlega niðurskurði á framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Bæjarstjórn beinir jafnframt þeirri fyrirspurn til ráðherra sveitarstjórnarmála og fjármála- og efnahagsráðherra, til hvaða aðgerða verði gripið nú í því skyni að styðja sveitarfélög, svo þau geti rækt lögskyld verkefni sín og komist yfir þær erfiðu aðstæður sem uppi eru.

Samþykkt samhljóða.