Málsnúmer 2012037

Vakta málsnúmer

Íþrótta- og tómstundanefnd - 99. fundur - 18.12.2020

Til skoðunar er, að beiðni bæjarráðs, erindi sem snýr að húsnæði og aðstöðu fyrir Félagsmiðstöðina Eden og tengist erindi UMFG um aðstöðu fyrir rafíþróttir.
Bæjarráð hafði óskað eftir því að íþrótta- og æskulýðsnefnd tæki til skoðunar húsnæðismál og aðstöðu Félagsmiðstöðvarinnar Eden. Til skoðunar hafa verið húsnæðismál í framhaldi af beiðni stjórnar UMFG um aðstöðu fyrir rafíþróttastarf sem hleypa á af stað á komandi ári.

Sú hugmynd hefur komið upp, að félagsmiðstöð fái aðstöðu í grunnskóla, auk þess að nýta aðstöðu í samkomuhúsi og Sögumiðstöð, en þar er verið að vinna að breytingum á húsnæði og rými, þannig að það nýtist betur fyrir margvíslegt menningar- og félagsstarf. Félagsmiðstöðin hefur verið með aðstöðu í húsnæði sveitarfélagsins að Borgarbraut 18 og er hugmynd um að UMFG fái það til afnota fyrir rafíþróttastarf.

Húsnæði grunnskólans, neðri hæð, var skoðað með tilliti til þess hvernig nýta mætti rými þar fyrir félagsstarf á vegum Eden. Rætt var um útfærslu og það sem hafa þyrfti í huga í þessu sambandi. Ákveðin samlegð er í því fólgin að nýta rýmið fyrir félagsstarf unglinga, en einnig fylgja því áskoranir og forðast þarf árekstra. Rætt var, að kostir séu við það að dreifa starfseminni og hafa úr ólíku húsnæði að velja fyrir félagsstarf unglinganna, s.s. samkomuhús, íþróttahús, Sögumiðstöð-Bæringsstofu, o.fl.

Ragnheiður forstöðumaður Eden lagði áherslu á það að hafa þyrfti unglingana með í ráðum um fyrirkomulag og að meta þyrfti reynsluna.

Fundarmenn voru sammála um að vanda þyrfti til útfærslu á þessu fyrirkomulagi og samskipta sem því fylgja og einnig að meta þyrfti reynsluna jafnóðum. Taka þyrfti stöðuna næst vorið 2021.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd er jákvæð fyrir því að þetta fyrirkomulag verði prófað, en leggur áherslu á að vel verði staðið að breytingum, leitað eftir afstöðu unglinganna sjálfra og metið hvernig þetta muni ganga.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskólans
  • Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Eden
  • Rósa Guðmundsdóttir formaður bæjarráðs

Bæjarráð - 562. fundur - 21.12.2020

Ungmennafélag Grundarfjarðar (UMFG) hefur óskað eftir því við Grundarfjarðarbæ að fá aðgang að húsnæði þar sem hægt væri að þjálfa og æfa rafíþróttir. Mikið hefur verið leitað að húsnæði og var fyrst talið að kjallari að Grundargötu 30 væri besti kosturinn. Eftir skoðun á loftræstingu og neyðarútgöngum kom í ljós að húsnæðið hentar ekki.

Eftir skoðun á öðru húsnæði bæjarins var talið að húsnæði félagsmiðstöðvar, að Borgarbraut 18, myndi henta vel fyrir rafíþróttir og annað húsnæði fundið fyrir félagsmiðstöð. Íþrótta- og æskulýðsnefnd, bæjarstjóri, formaður bæjarráðs og forstöðumaður félagsmiðstöðvar hafa farið yfir málið með skólastjóra grunnskólans, en grunnskólinn getur hýst félagsmiðstöð, til reynslu á vorönn. Skólastjóri grunnskólans og forstöðumaður félagsmiðstöðvar munu í byrjun árs 2021 gera með sér frekara samkomulag. Að reynslutíma liðnum yrði framhaldið ákveðið.

Bæjarráð felst á ofangreint fyrirkomulag, að Borgarbraut 18 standi UMFG til boða fyrir rafíþróttir og að félagsmiðstöð verði flutt í grunnskólann til reynslu.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 563. fundur - 27.01.2021

Fundarkonur hittu fulltrúa Ungmennafélags Grundarfjarðar (UMFG) að Borgarbraut 18, þar sem hafinn er undirbúningur að aðstöðu fyrir rafíþróttastarfsemi.

Lögð fram drög að leigusamningi Grundarfjarðarbæjar og UMFG um Borgarbraut 18. Húsið hefur verið afhent og búið er að semja við Símann um nettengingar.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi leigusamning og felur bæjarstjóra frágang hans.

Samþykkt samhljóða.