563. fundur 27. janúar 2021 kl. 16:30 - 22:58 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Rósa Guðmundsdóttir (RG) formaður
  • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Sögumiðstöðin

Málsnúmer 1801048Vakta málsnúmer

Í upphafi fundar fóru fundarkonur í Sögumiðstöðina og skoðuðu þær breytingar sem eru farnar af stað þar. Ætlunin er að í Sögumiðstöðinni verði "samfélagsmiðstöð" bæjarbúa. Þar verður áfram starfsemi bókasafnsins og upplýsingamiðstöðvar og Bæringsstofa verður með nær óbreyttu sniði. Með breytingunum verður hins vegar skapað aukið rými og betri aðstaða fyrir margvíslegt félagsstarf og minni samkomur. Með hliðsjón af því er bæjarstjóra falið að ræða forsvarsfólk félagsstarfs og Verkalýðsfélag Snæfellinga vegna þeirrar starfsemi sem farið hefur fram að Borgarbraut 2.

Samþykkt samhljóða.

Rætt var við Inga Hans Jónsson hjá Ildi ehf./Sögustofunni, sem hefur umsjón með breytingunum. Formaður menningarnefndar var jafnframt viðstödd.

Farið var yfir áður fram komnar tillögur Inga Hans að grunnhönnun rýma í Sögumiðstöð. Næstu skref eru að ljúka frágangi teikninga vegna þeirra breytinga sem tillögurnar gera ráð fyrir.

Bæjarstjóri sagði frá því að til stæði að Eyrbyggjar, hollvinasamtök, myndu leggja verkefninu til fjárstyrk.

Bæjarráð fagnar því, sem og þeim styrk sem Uppbyggingarsjóður Vesturlands veitti nú nýverið til uppbyggingar í húsinu fyrir þróun og breytta starfsemi.

Inga Hans var þakkað fyrir leiðsögnina.

Gestir

  • Ingi Hans Jónsson - mæting: 16:30
  • Eygló Bára Jónsdóttir - mæting: 16:30

2.Lausafjárstaða 2021

Málsnúmer 2101039Vakta málsnúmer


Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.

3.Greitt útsvar 2020

Málsnúmer 2002001Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-desember 2020. Skv. yfirlitinu hækkaði útsvar um 0,6% milli áranna 2019 og 2020. Upphafleg fjárhagsáætlun ársins 2020 gerði hins vegar ráð fyrir um 5% hækkun.

Bæjarráð ræddi um þá stöðu sem upp kom í lok síðasta árs, í samræmi við það sem fram kemur í frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 11. janúar sl. - sjá hér: https://www.samband.is/frettir/utsvar-i-stadgreidslu-haekkar-um-4-milli-ara/

“Í því skyni að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins var gerð breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Breytingin færði launagreiðendum sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna faraldursins heimild til að fresta allt að þremur gjalddögum skatta, þ.m.t. útsvari, á tímabilinu apríl til desember 2020. Í lok árs var sveitarfélögum greitt útsvar, sem frestað hafði verið, alls 3,1 milljarður króna. Rétt er að taka fram að sveitarfélögum hafði ekki verið gerð grein fyrir áhrifum frestunar greiðslna og komu greiðslur í lok árs þeim nokkuð á óvart.?

Í samræmi við þetta bárust Grundarfjarðarbæ útsvarsgreiðslur í lok desember sem ekki voru fyrirséðar þegar endurskoðun fjárhagsáætlunar fór fram í september/október og endurspeglaðist ekki í spám um útsvarsgreiðslur á síðasta ári sem unnið hafði verið eftir. Grundarfjarðarbæ var ekki kunnugt um það á síðasta ári að innborgaðar útsvarsgreiðslur ársins væru ekki að skila sér að fullu þegar þær voru greiddar inná reikning sveitarfélagsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram um bókun:

Útsvarið er langveigamesti tekjustofn sveitarfélaganna. Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar lýsir furðu á því verklagi af hálfu ríkisins, að útsvar hafi ekki verið greitt sveitarfélögunum í samræmi við skilagreinar og fyrri upplýsingar af hálfu ríkisins um að heimiluð frestun á staðgreiðslu opinberra gjalda hefði ekki áhrif á greiðslur útsvars til sveitarfélaganna.

Bæjarráð og bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hafa gagnrýnt laka upplýsingagjöf af hálfu ríkisins til sveitarfélaga um útsvarið og hafa í þó nokkurn tíma kallað eftir haldbetri upplýsingum, m.a. um uppruna útsvars og skiptingu eftir atvinnugreinum. Þegar miklar sviptingar eru í efnahagsmálum þjóðarinnar og óvissa mikil, eins og allt síðasta ár vegna áhrifa Covid, þá er það sérlega bagalegt hve litla innsýn sveitarfélögin hafa í eðli og uppruna útsvarstekna sinna. Það er að auki allsendis óviðunandi að sveitarfélög þurfi að byggja fjárhagsstjórn sína á misvísandi upplýsingum um megintekjustofn sinn.

Bæjarráð kallar eftir skoðun og reikningsskilum frá Fjársýslunni á útsvarsgreiðslum Grundarfjarðarbæjar.

Samþykkt samhljóða.

4.Launaáætlun 2020

Málsnúmer 2006020Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit sem sýnir samanburð á launaáætlun og útgreiddum launum Grundarfjarðarbæjar janúar til desember 2020. Við endurskoðun fjárhagsáætlunar sl. haust var launaáætlun ársins lækkuð um 23 millj. kr. vegna ýmissa breytinga, en skv. framlögðu yfirliti enduðu raunlaun ársins í að vera 5,5 millj. kr. yfir hinni endurskoðuðu áætlun. Var það m.a. vegna breytinga og hækkana á kjarasamningum á seinni hluta ársins.

5.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Afskriftarbeiðnir

Málsnúmer 2012014Vakta málsnúmerLagt fram bréf Sýslumannsins á Vesturlandi, þar sem óskað er eftir að afskrift á álögðum opinberum gjöldum með höfuðstól að fjárhæð 1.439.546 kr. ásamt dráttarvöxtum.

Bæjarráð samþykkir samhljóða beiðni sýslumanns.

6.Grundarfjarðarbær - stytting vinnuvikunnar skv. kjarasamningum

Málsnúmer 2009046Vakta málsnúmer

Ragnheiður Agnarsdóttir ráðgjafi sat fundinn undir þessum lið.

Lagðir fram tölvupóstar frá Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsness (SDS) ásamt bréfi frá fulltrúum í starfshópi grunnskólans um styttingu vinnuvikunnar.

Í erindunum er lýst vonbrigðum með að ekki hafi verið samþykkt að fara í fulla styttingu vinnuvikunnar, þ.e. í 36 klst. á viku fyrir fullt starf. Jafnframt kemur fram að bæjarráð hefði átt að hafna tillögum vinnutímanefnda stofnana, fyrst ekki var samþykkt að ganga alla leið og fara í fulla styttingu.

Bæjarráð samþykkti styttingu vinnuvikunnar um 30 mínútur á dag, eða 2 ½ klst. á viku sem þýðir að virkur vinnutími starfsfólks í 100% starfi sé 36 klst. á viku, auk 20 mínútna neysluhlés á dag, eða samtals 37,5 klst. vinnuvika.

Því getur bæjarráð ekki fallist á að tillögum starfsmanna hafi verið hafnað. Þvert á móti var fallist á meginhluta tillagna sem vörðuðu útfærslur á styttingu sem bárust bæjarráði og kosið hafði verið um á hverjum vinnustað. Með höfnun á tillögum starfsmanna myndi 13 mínútna stytting á dag skv. kjarasamningum taka gildi, sem er 65 mínútna stytting á viku fyrir fullt starf, eða 38,9 klst. vinnuvika.

Bæjarráð vill árétta að faglega var staðið að vinnu við styttingu vinnuvikunnar af hálfu Grundarfjarðarbæjar. Ekki verður annað séð en að almenn ánægja ríki meðal starfsfólks um styttinguna. Í upphafi vinnunnar var gerð könnun meðal þeirra starfsmanna sem stytting nær til. Af 50 starfsmönnum svöruðu 34, sem er 68% svarhlutfall.

Niðurstöður könnunarinnar leiddu m.a. í ljós eftirfarandi:
-
að flestir telja heppilegast að safna styttingu upp innan mánaðar
-
að meirihluti þeirra sem hafa fastan kaffitíma innan vinnudagsins eru ekki reiðubúin til að stytta kaffitíma til þess að ná fram meiri styttingu, eða 67% svarenda
-
að mikill meirihluti þeirra sem eru með fastan matartíma innan vinnudagsins eru ekki reiðubúin að stytta matatíma með það að markmiði að ná fram meiri styttingu, eða 84% svarenda
-
að meirihluti starfsfólks er tilbúinn að vinna sveigjanlegan vinnutíma til að tryggja óbreytta þjónustu eftir að stytting tekur gildi

Bæjarráði þótti því ljóst að það væri ekki í hag starfsfólks að afsala sér með öllu forræði yfir matar- og/eða kaffitímum innan dagsins, enda eru hvíldarhlé innan dagsins nauðsynleg. Því var lögð áhersla á að starfsfólk héldi forræði sínu yfir 20 mínútna daglegu neysluhléi. Með því væri betur hlúð að velferð og heilsu starfsfólks og góðri vinnustaðamenningu. Eins og fram kom í fyrri bókun bæjarráðs, sem og í vinnu vinnutímanefndarinnar, er hér um mikilvægt skref að ræða og því er brýnt að vel takist til. Þá er lögð áhersla á að tryggt sé jafnræði milli stofnana en að hver stofnun útfæri sína styttingu í sínu nærumhverfi.

Bæjarráð bendir á að í fylgiskjali 2 með kjarasamningi aðila segir:
„Breyting á skipulagi vinnutíma á að öðru óbreyttu ekki að leiða til breytinga á launum eða launakostnaði sveitarfélaga. Jafnframt er forsenda breytinganna að starfsemi vinnustaðarins raskist ekki og að opinber þjónusta sé að sömu gæðum og áður.“

Bæjarráð telur að full stytting vinnuvikunnar í 36 klst. á viku fyrir fullt starf muni leiða af sér aukinn rekstrarkostnað og/eða þjónustuskerðingu. Ef ráða þarf inn starfsmenn til afleysinga er ljóst að um kostnaðarauka er að ræða. Ef það er ekki gert er ljóst að um þjónustuskerðingu er að ræða.

Eins og fram kom í bókun bæjarráðs þann 21. desember sl. verður fyrirkomulag þetta endurmetið í maí 2021 með tilliti til markmiða þeirra sem sett voru með breytingunni.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Ragnheiður Agnarsdóttir - mæting: 17:45

7.Advania - Tilboð í tímaskráningarkerfið VinnuStund

Málsnúmer 2101023Vakta málsnúmer

Lagt fram tilboð Advania í tímaskráningarkefið Vinnustund ásamt kynningu á kerfinu, sem bæjarstjóri, skrifstofustjóri og launafulltrúi sátu. Gert er ráð fyrir stofnkostnaði í fjárhagsáætlun.

Bæjarráð samþykkir samhljóða að gengið verði að tilboði Advania.

8.Heilbrigðiseftirlit Vesturlands - Beiðni um afgreiðslu fjárhagsáætlunar

Málsnúmer 2101030Vakta málsnúmer

Lögð fram fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands (HeV) fyrir árið 2021. Áætlunin hafði verið lækkuð frá þeirri sem upphaflega barst sveitarfélögunum.

Bæjarstjóri sat fund í sl. viku þar sem farið var yfir ákvarðanir Heilbrigðisnefndar/Heilbrigðiseftirlits, gerð fjárhagsáætlunar og gjaldskrár. Endurskoðuð áætlun er send til bæjarstjórna á Vesturlandi til formlegrar samþykktar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að fjárhagsáætlun HeV verði samþykkt.

Samþykkt samhljóða.

9.Ungmennafélag Grundarfjarðar - aðstaða fyrir rafíþróttir

Málsnúmer 2012037Vakta málsnúmer

Fundarkonur hittu fulltrúa Ungmennafélags Grundarfjarðar (UMFG) að Borgarbraut 18, þar sem hafinn er undirbúningur að aðstöðu fyrir rafíþróttastarfsemi.

Lögð fram drög að leigusamningi Grundarfjarðarbæjar og UMFG um Borgarbraut 18. Húsið hefur verið afhent og búið er að semja við Símann um nettengingar.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi leigusamning og felur bæjarstjóra frágang hans.

Samþykkt samhljóða.

10.Grundargata 65

Málsnúmer 2001008Vakta málsnúmer

Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulags- og byggingarfulltrúi, sat fundinn undir þessum lið, í gegnum síma.

Lagðir fram minnispunktar skipulags- og byggingarfulltrúa eftir skoðun á íbúð bæjarins að Grundargötu 65. Íbúðin hefur verið á söluskrá. Í ljósi upplýsinga frá skipulags- og byggingarfulltúa og í samræmi við umræður fundarins, er lagt til að gerðar verði minniháttar lagfæringar í íbúðinni. Jafnframt verði veitt heimild til tímabundinnar útleigu íbúðarinnar.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Sigurður Valur Ásbjarnarson - mæting: 21:20

11.Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, Kirkjufellsfoss, styrkur 2018

Málsnúmer 1803061Vakta málsnúmer

SÞ vék af fundi undir þessum lið.

Lögð fram drög að samningi Grundarfjarðarbæjar við fyrirtækið Sanna landvætti um bílastæði við Kirkjufellsfoss ásamt beiðni Grundarfjarðarbæjar til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í júlí 2019 um að verkþáttur vegna bílastæða verði tekinn út úr framkvæmdaáætlun vegna styrkveitingar við áningarstaðinn Kirkjufellsfoss.

Sannir landvættir höfðu áður gert samning við landeigendur Kirkjufells. Félag á þeirra vegum tekur þá yfir rekstur bílastæðisins og sinnir þjónustu á því. Bílastæðinu yrði þá afsalað til félagsins gegn greiðslu framkvæmdakostnaðar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ljúka samingaviðræðum við Sanna landvætti á þeim grunni sem framlögð gögn sýna. Endanlegur samningur verður lagður fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

Samþykkt samhljóða.

SÞ tók aftur sæti sitt á fundinum.

12.Sameiginlegt embætti skipulags- og byggingarfulltrúa á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2011052Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað HLH ráðgjafar varðandi stöðu á viðræðum um samstarf fjögurra sveitarfélaga á Snæfellsnesi um verkefni skipulags- og byggingarfulltúa. Bæjarstjóri fór stuttlega yfir stöðuna í undirbúningsvinnunni. Tillaga um samstarfssamning er í smíðum, en þar mun koma fram fyrirkomulag samstarfs, kostnaðarskipting, stjórnskipuleg staða starfsmanna o.fl.

Stefnt er að sameiginlegum fundi fulltrúa sveitarfélaganna fjögurra í febrúar til að fara yfir tillögu um fyrirkomulag hins sameiginlega embættis, til undirbúnings afgreiðslu í sveitarstjórnunum sjálfum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

Samþykkt samhljóða.

13.Grundarfjarðarbær - Opinber birting gagna með fundargerðum

Málsnúmer 2011055Vakta málsnúmer


Lagðar fram verklagsreglur sjö sveitarfélaga um birtingu gagna með fundargerðum stjórna og ráða.

Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið að gera drög að verklagsreglum Grundarfjarðarbæjar.

Samþykkt samhljóða.

14.Húsnæðis- og mannvirkjastofnun - Samstarf á sviði brunamála

Málsnúmer 2005056Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar varðandi samstarf á sviði brunamála.

15.Sorpurðun Vesturlands hf. - Skýrsla starfshóps um stöðu og stefnu úrgangsmála á Vesturlandi

Málsnúmer 2011034Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla starfshóps um stöðu og stefnu úrgangsmála á Vesturlandi. Boðað hefur verið til eigendafundar þann 1. febrúar nk. um málið.

16.Veitur ohf. - efni samráðsfundar 13. janúar 2021 með Grundarfjarðarbæ

Málsnúmer 2101020Vakta málsnúmer

Lagðir fram til kynningar minnispunktar frá fundi Veitna og Grundarfjarðarbæjar sem haldinn var 13. janúar sl. Bæjarstjóri sagði frá samskiptum við Veitur í framhaldi af fundinum.

17.Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti - Úthlutun byggðakvóta 2020-2021

Málsnúmer 2012025Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um úthlutun byggðakvóta 2020-2021.

18.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið - Drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021-2023 - í Samráðsgátt

Málsnúmer 2101012Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021-2032 sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.

19.SSV - Sorpmál í brennidepli - Ráðstefna 11.01.21

Málsnúmer 2101011Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ýmis gögn í framhaldi af ráðstefnu um sorpbrennslu sem haldin var 11. janúar sl.

20.Svæðisgarðurinn Snæfellsnes - Fundargerðir stjórnar

Málsnúmer 2010007Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Svæðisgarðsins frá 11. og 18. nóvember sl.

21.Skátafélagið Örninn - Samningur um fánaumsýslu 2020-2021

Málsnúmer 2012017Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar samningur um fánaumsýslu 2020-2021.

22.Félagsmálaráðuneytið - Sérfræðingateymi vegna barna með fjölþættan vanda - umsóknarform

Málsnúmer 2101014Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur og önnur gögn frá félagsmálaráðuneytinu varðandi skipun sérfræðingateymis til að vera sveitarfélögum til ráðgjafar um viðeigandi þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir.

23.Íþrótta- og Ólympíusamband - Lífshlaupið

Málsnúmer 2101027Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, dags. 18. janúar sl., varðandi Lífshlaupið, sem haldið verður 3. febrúar nk.

24.Skrá yfir störf undanþegin verkfallsheimild

Málsnúmer 2101028Vakta málsnúmer


Lögð fram til kynningar skrá yfir störf sem undanþegin eru verkfallsheimild, sem er óbreytt frá árinu 2019, ásamt bréfum til stéttarfélaga og svörum þeirra.

25.HMS - Húsnæðisþing 2021

Málsnúmer 2101037Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar boð um þátttöku í Húsnæðisþingi sem haldið var í dag, 27. janúar. M.a. var farið yfir nýja skýrslu um stöðu og þróun á húsnæðismarkaði, rætt við sveitarstjórnarfólk og byggingaraðila, auk þess sem embættismenn og stjórnmálamenn sátu fyrir svörum.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 22:58.