Málsnúmer 2204003F

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 259. fundur - 07.04.2022

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 161. fundar skólanefndar.
 • Gestir undir þessum dagskrárlið eru Heiðdís Lind Kristinsdóttir leikskólastjóri, Sigurborg Knarran Ólafsdóttir fulltrúi starfsfólks og Karítas Eiðsdóttir fulltrúi foreldra.

  Leikskólastjóri lagði fram minnispunkta sína.
  Einnig lá fyrir fundinum erindi leikskólastjóra um breytingu á skóladagatali, dags. 25. mars 2022, sem áður hafði verið samþykkt rafrænt af nefndarmönnum.

  Skólanefnd - 161 Leikskólastjóri fór yfir minnispunkta um starfsemi leikskólans.
  Eftirfarandi kom fram í minnispunktum hennar:

  Starfsmannamál og nemendur
  Starfið í vetur hefur falið í sér heilmiklar áskoranir. Covid og veikindi hafa sett strik í reikninginn, auk þess sem þó nokkrir starfsmenn eru í leyfi og hefur þurft að fá starfsfólk í afleysingar. Mönnun eldhúss hefur reynst umtalsverð áskorun.

  Nýr starfsmaður hefur störf í lok apríl og þá verður hægt að taka inn fjögur ný börn sem urðu/verða 12 mánaða í mars og apríl. Þá eru orðin ellefu börn á yngstu deildinni, músadeild. Þau hafa verið átta, en eitt barn færist nú yfir á ugludeild. Rýmið fyrir þau yngstu, sem búið var til með kerfisveggnum, hentar nú illa stærðarlega séð. Verið er að skoða fyrirkomulag og möguleika í rýminu.

  Starfið
  Í vetur hefur verið farið í íþróttahúsið og klifurhúsið þegar veður hefur leyft - og hefur það verið frábær viðbót við starfið. Elsta deildin hefur einnig verið að fara á bókasafnið undanfarið. Leikskólastjóri segir frábært að geta átt samstarf um þetta og að geta boðið upp á fjölbreytt starf.
  Leikskólastjóri er farin að huga að næsta vetri, hvernig húsnæðið hentar og árgangar eru samsettir.

  Faglegt starf og umbótavinna
  Spennandi vinna er í gangi við að byggja upp faglegt starf leikskólans eftir ákveðnum gæðaviðmiðum, en þar hefur verið unnið með skólaráðgjöfum frá fyrirtækinu Ásgarði, sem sérhæfir sig í skólaráðgjöf. Starfsdagur leikskólans þann 18. mars sl. var mjög vel heppnaður, þar sem farið var yfir grunnþætti menntunar og var hafin vinna við deildarnámskrár. Mikil ánægja er með að hefja þá vinnu og með að efla enn frekar faglega starfið.

  Leikskólastjóri gerði grein fyrir þeim verkefnum sem Ásgarður liðsinnir stjórnendum og starfsfólki nú með. Það eru verkefni sem felast í að rýna dagsskipulag skólastarfsins, en þá er starfið skoðað „tíma fyrir tíma“ yfir daginn. Fundið er út hvernig tíminn og mannauðurinn sé sem best nýttur í þágu skólastarfs barnanna. Út úr þeirri rýni vinnur starfsfólkið tillögur að mögulegum umbótum.
  Einnig er verið að endurskoða starfslýsingar, skoða verklýsingar, vinna við starfsáætlun næsta skólaárs, endurskoða námsskrána, auk þess sem deildarnámskrár eru í vinnslu núna eins og áður sagði.
  Einnig vinnur Ásgarður að því með stjórnendum að endurskoða fyrirkomulag og verklag sérkennslu og stuðnings. Sjá einnig næsta dagskrárlið.

  Heimasíða leikskólans
  Leikskólastjóri hefur lagt áherslu á að heimasíða leikskólans sé aðgengileg, snyrtileg og í sinni því hlutverki að vera handbók bæði foreldra og einnig starfsfólks: að öll þau gögn sem eiga að vera til séu aðgengileg þar inni. Í samráði við bæjarstjóra var ákveðið að fá tilboð og ganga til samnings við Stefnu um að setja upp nýjan vef fyrir leikskólann, og er hann í samræmi við vef bæjarins.
  Heimasíðan er gluggi inn í skólastarfið, og mikilvægur ekki síst fyrir fólk sem er að flytja t.d. í sveitarfélagið.

  Námsferð
  Starfsfólks leikskólans fer í námsferð á Akueyri dagana 26. - 28. maí nk. og er skipulagning í gangi. Ætlunin er að skoða aðra leikskóla, fræðast og fá innblástur. Starfsdagur leikskólans verður 27. maí og óskaði leikskólastjóri eftir breytingu á skóladagatali þannig að starfsdagur í byrjun júní færist til 27. maí.
  Vorgleði starfsmannafélags leikskólans verður einnig hluti af ferðinni þar sem starfsfólkið ætlar að gera sér dagamun og enda þennan vetur saman á gleðilegum nótum.

  Leikskólakennarar
  Á næstunni verður auglýst eftir starfsfólki fyrir næsta vetur, leikskólakennurum þá sérstaklega. Ánægjulegt er þó að það er að fjölga hjá okkur um einn leikskólakennara þegar Sigurborg útskrifast í vor og einnig er starfsfólk að ljúka fyrri áfanga í grunnnámi, sem er frábær þróun, segir leikskólastjóri.

  Heiðdísi var þakkað fyrir yfirferðina.

  Undir þessum dagskrárlið er einnig erindi leikskólastjóra frá 25. mars sl. þar sem hún óskar eftir að skólanefnd samþykki breytingu á skóladagatali, þannig að starfsdagur sem vera átti 3. júní 2022 verði 28. maí 2022. Með þeirri breytingu verður hægt að fara í endurmenntunar- og starfsmannaferð. Nefndarmenn höfðu áður samþykkt ósk leikskólastjóra rafrænt og er sú ákvörðun staðfest með bókun nú.

 • Undir þessum dagskrárlið sátu áfram sömu gestir og undir dagskrárlið nr. 1.

  Fyrir fundinum lá tillaga til umsagnar skólanefndar, um barngildisviðmið og mönnun, sem og reglur um fáliðun fyrir Leikskólann Sólvelli.

  Skólanefnd - 161 Formaður sagði frá því að í gær, á fundi bæjarráðs, hefðu bæjarfulltrúar og skólanefndarfulltrúar fengið kynningu Gunnþórs E. Gunnþórssonar, skólaráðgjafa hjá Ásgarði, en hann fór yfir tilurð vinnu við setningu barngildisviðmiða og drög að reglum um fáliðun á leikskólum. Með tillögum sem nú liggja fyrir er verið að skerpa á þeim viðmiðum sem unnið hefur verið eftir. Tillögurnar eru unnar með stjórnendum Leikskólans Sólvalla og hafa verið kynntar starfsfólki, og eru þær hluti af frekari vinnu við að styrkja starf leikskólans.

  Skv. reglunum er gert ráð fyrir að grunnmönnun sé 8 börn á hvert stöðugildi. Að jafnaði skulu stöðugildi vera í takt við fjölda barna, en fjöldi barna á hvert stöðugildi fækkar með lækkandi aldri, og er miðað við 4 börn á hvert stöðugildi í yngsta aldurshópnum.

  Til viðbótar koma svo stöðugildi sem miða við stuðningsþarfir barna hverju sinni. Unnið er að verklagsreglum um sérkennslu og stuðning, sem verða lagðar fyrir skólanefnd til umsagnar á næstu vikum.

  Fáliðun telst þegar fáir starfsmenn eru við vinnu og viðmiðið er að fjöldi barna fari ekki yfir 8 á hvern starfsmann og færri eftir því sem börnin eru yngri, sbr. það sem fyrr segir.
  Reglurnar gera grein fyrir því til hvaða úrræða skuli gripið ef fjöldi barna á hvert stöðugildi fer yfir grunnviðmið.

  Fram fór umræða fundarmanna um tillögurnar. Fram kom að reglurnar verði einnig kynntar fyrir foreldrum/forráðamönnum leikskólabarna.

  Skólanefnd fagnar framlögðum tillögum og þeirri vinnu sem fram hefur farið. Skólanefnd leggur til við bæjarstjórn að reglurnar verði samþykktar.


  Að lokinni umræðu um þennan lið véku gestir af fundi og var þeim þakkað fyrir komuna.

 • Lagt fram erindi mennta- og barnamálaráðherra frá 22. febrúar 2022 þar sem fram kemur að samræmd könnunarpróf verði ekki lögð fyrir á árinu 2022. Hafin sé vinna við hönnun Matsferils, nýrrar yerkfærakistu kennara og skóla. Matsferill mun innihalda fjölbreytt og hnitmiðuð verkfæri fyrir kennara, til nota í umbótaskyni, nemendum til hagsbóta. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að vorið 2022 liggi fyrir verkáætlun um innleiðingu Matsferils.
  Skólanefnd - 161
 • Lagt frá bréf mennta- og barnamálaráðuneytis frá 3. mars 2022, þar sem óskað er eftir góðu samstarfi við nemendur, starfsfólk grunnskóla, sveitarfélög og skólaþjónustu sveitarfélaga um þátttöku í PISA könnuninni sem framundan er.

  Skólanefnd - 161 Í bréfinu kemur eftirfarandi fram:

  "PISA er alþjóðleg könnun á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem mælir lesskilning 15 ára nemenda og læsi þeirra á stærðfræði og náttúruvísindi á þriggja ára fresti. Einnig fylgja ýmsir spurningalistar með PISA könnuninni sem gefa mikilvægar upplýsingar. PISA könnunin sem nær til yfir 80 þjóða er eina alþjóðlega samanburðarrannsóknin á frammistöðu menntakerfisins sem fram fer hér á landi."

 • Lagt fram fréttabréf SSV og erindi um "List fyrir alla".

  Einnig var rætt um að í gær rann út frestur til að sækja um styrk í Barnamenningarsjóð, en sótt er um til Rannís. Bæjarstjóri sagði frá því að Grundarfjarðarbær hefði sótt um styrk í Barnamenningarsjóð til að efla listgreinar í dagskrá sumarnámskeiðs fyrir börn í 1.-4. bekk.

  Skólanefnd - 161