259. fundur 07. apríl 2022 kl. 16:30 - 19:59 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
 • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
 • Hinrik Konráðsson (HK)
 • Sigríður Guðbjörg Arnardóttir (SGA)
  Aðalmaður: Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
 • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
 • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
 • Garðar Svansson (GS)
 • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
Starfsmenn
 • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
 • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808018Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína. Hún sagði frá fyrirhuguðum fjarfundi sem haldinn verður á morgun með Bjargi, íbúðafélagi. Hún sagði frá samskiptum sem hún hefur átt um fjarskipti og ljósleiðaravæðingu í Grundarfirði.

Bæjarstjóri ræddi starfsmannamál og umsóknir um störf og breytingu á vinnufyrirkomulagi á höfn. Einnig var rætt um umsóknir um sumarstörf, en líklega verður auglýst að nýju eftir umsóknum um tiltekin störf.

Hún sagði frá því að starfshópur sem hún hefur setið í um endurskoðun á ákvæðum sveitarstjórnarlaga um fjármál sveitarfélaga hafi skilað af sér niðurstöðum, skýrslu til ráðherra innviða með tillögum um breytingar.

Einnig sagði hún frá fjarfundi sem hún sat ásamt framkvæmdastjóra Svæðisgarðsins Snæfellsness með innviðaráðherra sl. mánudag vegna skýrsluskila á vegum Svæðisgarðsins, um framlag uppá 15 milljónir kr. sem Svæðisgarðurinn fékk á fjárlögum.

Hún ræddi jafnframt deiliskipulagsmál og sagði frá því að skipulagsfulltrúi hefði leitað tilboða í deiliskipulag Framness og deiliskipulag hafnarsvæðis austan Nesvegar, sem er að fara af stað.

Bæjarstjóri fór yfir helstu verklegu framkvæmdir. Framkvæmdir í Þríhyrningi áttu að klárast en nást ekki vegna frosts í jörðu, framkvæmdir í samkomuhúsi eru langt komnar og tæki og innréttingar væntanleg í eldhúsið öðrum hvorum megin við helgina. Búið er að senda út verðkönnunargögn vegna þakskipta á tengigangi milli skóla og íþróttahúss. Útboð fór fram vegna þaks á samkomuhúsi í upphafi ársins og var Gráborg ehf. með lægsta tilboð. Arkitekt vinnur nú að hönnun á skrifstofurými á Grundargötu 30 og sömuleiðis er farin af stað grófhönnun á anddyri fyrir íþróttahús.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu - Umræða

Málsnúmer 1808012Vakta málsnúmer

Forseti sagði frá fundi sem bæjarfulltrúar áttu með starfsfólki leikskóla í gær og er það liður í uppbyggingarstarfi í leikskóla. Fundurinn var afar gagnlegur og upplýsandi, en þar var rætt um styrkingu leikskólastigsins, hvernig auka megi skilning á mikilvægi leikskólastarfs og um styrkingu starfsumhverfis leikskóla.

Forseti sagði frá því að á morgun sé hádegisfundur um íbúðamál, sbr. skilaboð bæjarstjóra, og á þriðjudag um fjarskiptamál, í framhaldi af ályktun bæjarstjórnar um bætt fjarskipti.

Hann sagði jafnframt frá því að HVE hefði staðfest móttöku á bréfi bæjarstjóra, í framhaldi af ályktun bæjarstjórnar um þjónustu HVE, frá síðasta fundi, og að svars HVE væri að vænta 13. apríl nk. Bæjarstjórn á einnig fund með heilbrigðisráðherra 20. apríl nk.

3.Atvinnumál - Umræða

Málsnúmer 1808013Vakta málsnúmer

Rætt með lið 2.

4.Bæjarráð - 585

Málsnúmer 2203002FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 585. fundar bæjarráðs.
 • Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsmála og skipulagsfulltrúi er gestur undir þessum dagskrárlið.

  Formaður bauð Kristínu velkomna á fundinn.
  Bæjarráð - 585 Kristín fór yfir helstu verkefni við uppbyggingu nýs sameiginlegs skipulags- og umhverfissviðs, sem bærinn stendur að í samvinnu við Stykkishólmsbæ, Eyja- og Miklaholtshrepp og Helgafellssveit.

  Kristín tók til starfa í ágúst sl. og Fannar Þór Þorfinnsson, sem er byggingarfulltrúi, í október sl. Að auki er Þuríður Gía Jóhannesdóttir í 50% starfi sem aðstoðarmaður á sviðinu með aðsetur í Grundarfirði og í Stykkishólmi er annar aðstoðarmaður í 50% starfi. Undir sviðið heyra áhaldahús og fasteignaumsjón og hafa Kristín og Fannar Þór verklega yfir þeim einingum að segja, en bæjarstjórarnir fara með það sem lýtur að ráðningar- og starfsmannahluta eininganna. Lagt hefur verið uppúr því að koma á skilvirku verklagi og verkaskiptingu. Haldnir eru mánaðarlegir sviðsfundir þar sem farið er yfir verkefnastöðu sviðsins, auk þess sem Fannar vinnur með verkstjórum og fasteignaumsjón og fylgist með framgangi verkefna þeirra.

  Komið hefur verið á fastri viðveru skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa í Grundarfirði og Stykkishólmi, og í hinum sveitarfélögunum tveimur eftir þörfum.

  Unnið hefur verið að því að uppfæra ýmis grunngögn, sem nauðsynleg eru í starfseminni. Fram kom t.d. að skipulagsvefsjá Grundarfjarðarbæjar sé að nýtast mjög vel og alltaf sé að bætast við virkni og gögn. Sjá hér: https://geo.alta.is/grundarfjordur/vefsja/

  Gjaldskrár mun þurfa að endurskoða og samræma að einhverju leyti.

  Kristín sagði ennfremur frá skipulagsverkefnum sem eru í gangi í Grundarfirði.

  Unnið hefur verið að endurskoðun á deiliskipulagi Ölkeldudals. Í samræmi við aðalskipulag, verður gert ráð fyrir nýjum íbúðarlóðum upp eftir Ölkelduvegi. Auk þess verður bætt við lóðum vestan við dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, fyrir íbúðir ætlaðar fólki 60 ára og eldri. Fram kom hjá bæjarstjóra að lóðirnar eru innan eignarlóðar Fellaskjóls og að stjórn Fellaskjóls óski eftir því að bærinn kaupi svæðið út úr lóð Fellaskjóls.

  Í undirbúningi er vinna við nýtt deiliskipulag á Framnesi, sem bæjarstjórn hefur ákveðið að láta vinna. Auk þess endurskoðun á gildandi deiliskipulagi Framness austan Nesvegar (hafnarsvæði). Ætlunin er þá að útvíkka skipulagið þannig að það nái yfir Norðurgarð og athafnalóðirnar þar, og mögulega stærra svæði einnig.
  Kristín sagði frá vali á skipulagsráðgjöfum í þessi tvö deiliskipulagsverkefni sem fara eiga af stað á næstunni. Það er orðið mjög aðkallandi að breyta deiliskipulagi Framness austan Nesvegar (hafnarsvæðis). Áhersla er á að ljúka því sem fyrst - og á undan deiliskipulagi Framness - þó í upphafi séu svæðin rýnd samhliða.

  Rætt var um uppbyggingu og lóðir fyrir íbúðarhúsnæði og um miðbæjarreit (Grundargata/Hrannarstígur/Hamrahlíð) og möguleika til uppbyggingar þar, sjá reit innan miðbæjarsvæðis, M-1 í skipulagsuppdrætti - sjá hér:
  https://www.grundarfjordur.is/static/files/Byggingarfulltrui/Ask_2019_2039/ask-grfj-thettbylisuppdrattur.pdf

  Einnig rætt um tækifæri tengd frístundabyggð (F-2) sem skipulögð er sunnan hesthúsabyggðar.

  Að lokum voru einnig ræddar hugmyndir um að fegra miðbæjarreitinn ("Víkingasvæðið" og nærliggjandi plan) með einföldum hætti í sumar, en bæjarstjórn gerði ráð fyrir fjármunum í einfaldar aðgerðir í því skyni.

  Kristínu var þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar og vék hún hér af fundinum.
 • 4.2 2202005 Greitt útsvar 2022
  Bæjarstjóri sagði frá því að dr. Vífill Karlsson / Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) vinni nú úttekt á tekjum Grundarfjarðarbæjar.

  Bæjarráð - 585 Bæjarstjóri sagði frá því að hún hefði óskað eftir því að SSV myndu rýna tekjuþróun Grundarfjarðarbæjar. Sambærileg úttekt var unnin af SSV haustið 2018, fyrir bæjarstjórn.

  Úttektin nú snýr einkum að útsvari og þróun þess, sveiflum í útsvarstekjum, atvinnugreinaflokkun, áhrifum íbúafjölda o.fl., auk þess að helstu tekjuforsendum Grundarfjarðarbæjar.

  Gögn um útsvarstekjur eru orðin betri og aðgengilegri núna en þau voru 2018, m.a. vegna þess að Grundarfjarðarbær hefur átt þátt í að þrýsta á um haldbetri upplýsingar um þennan megintekjustofn sveitarfélaga.

  Auk útsvarsins á að skoða Jöfnunarsjóðstekjur bæjarins og þróun þeirra, sem og fasteignamatið og þróun þess.

  Greiningin ætti að liggja fyrir í apríl nk.
 • Heiðdís Lind Kristinsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla er gestur undir þessum dagskrárlið.

  Formaður bauð Heiðdísi velkomna á fundinn.

  Bæjarráð - 585 Leikskólastjóri fór yfir starfsemi leikskólans. Rætt var um það starf sem nú fer fram með ráðgjöfum frá Ásgarði, sem vinna með stjórnendum leikskólans. Ásgarður veitir faglegan stuðning við skipulag og framkvæmd skólastarfs í leik- og grunnskólum.

  Það sem einkum er til skoðunar nú er "skipulag og barngildi" þar sem unnið er með starfsfólki leikskólans að því að rýna fyrirkomulag starfseminnar og finna bestu útfærslur m.v. starfið í dag. Auk þess er unnið að endurskoðun verklags við veitingu sérkennslu og stuðnings.

  Út úr vinnunni kemur eftirfarandi:

  i) dagsskipulag, sett niður eftir rýni starfsfólks (mögulega breytt frá því sem nú er)
  ii) tillaga um endurskoðuð barngildisviðmið, þ.e. mönnun og skipulag út frá viðmiðum um barngildi fyrir leikskólastig,
  iii) tillaga um fyrirkomulag við að meta sérkennsluþörf nemenda og viðmið um stuðning, og um stjórnskipulag og verklag skólans við að veita þá þjónustu
  og
  iv) svokallaðar "fáliðunarreglur", sem eru bindandi viðmið um hvernig unnið er þegar margir starfsmenn eru forfallaðir eða þegar ekki tekst að ráða leikskólakennara/starfsfólk. Slíkar reglur hafa verið settar hjá mörgum sveitarfélögum/leikskólum, m.a. hjá Reykjavíkurborg.

  Liðir ii), iii) og iv) eru teknir til umsagnar í skólanefnd og bæjarráði, og til staðfestingar hjá bæjarstjórn. Ætlunin er að þær tillögur verði tilbúnar og teknar fyrir í bæjarráði og skólanefnd fyrir páska.

  Rætt var um mönnun í leikskólanum. Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar eftir starfsfólki hefur ekki tekist að ráða að fullu í afleysingar vegna þeirra starfsmanna sem nú eru í leyfi vegna fæðingarorlofs og í lækkuðu starfshlutfalli vegna náms.
  Á þessu ári hefur einnig gengið erfiðlega að manna stöður í eldhúsi.

  Af þessum sökum hefur ekki verið unnt að taka inn tvö 12 mánaða gömul börn nú í mars. Tvö börn verða síðan 12 mánaða í apríl.

  Bæjarráð tekur undir með leikskólastjóra, um að ekki sé hægt að fórna gæðum leikskólastarfsins með því að taka inn börn umfram það sem mönnun leyfir. Inntaka 12 mánaða barna í leikskólann sé því alltaf háð þeim skilyrðum að hægt sé að tryggja öryggi og gæði í leikskólastarfi.

  Leikskólastjóri ræddi sérstaklega um starfsemi eldhúss í leikskólanum, um mönnun og fyrirkomulag, sem hefur verið talsverð áskorun undanfarnar vikur.

  Heiðdísi var þakkað fyrir komuna og góðar umræður og vék hún hér af fundinum.
 • Í vinnslu eru drög að endurskoðuðum samþykktum um stjórn Grundarfjarðarbæjar og endurskoðuðum erindisbréfum fastanefnda.
  Bæjarráð - 585 Rætt var um endurskoðun samþykktanna og um fjölda nefndarmanna.
  Bæjarstjórn mun taka endurskoðaðar samþykktir til afgreiðslu á næsta fundi sínum.
 • Málefnið var til umræðu á 257. fundi bæjarstjórnar þann 10. mars sl.

  Frekari ábendingar hafa borist frá íbúum um fyrirkomulag þjónustu HVE um helgar, þegar sjúklingum er gert að sækja þjónustu læknis til Ólafsvíkur. Ábendingarnar gefa tilefni til að leita eftir skýringum HVE á fyrirkomulagi við veitingu þjónustunnar.

  Bæjarráð - 585 Bæjarráð telur að ábendingarnar gefi enn frekari ástæðu til þess að kalla eftir skýrum svörum HVE um fyrirkomulag á vaktþjónustu lækna um helgar við íbúa Grundarfjarðar, og eftir svörum heilbrigðisyfirvalda um þjónustustig.

  Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir skýringum í samræmi við umræður fundarins.
  Bókun fundar Bæjarstjóri sagði frá svarbréfi framkvæmdastjóra HVE við erindi bæjarstjóra í framhaldi af bókun bæjarstjórnar. Þar kemur fram að svars sé ekki að vænta fyrr en 13. apríl nk.
 • Lögð fram svör félagsmálaráðuneytis í tölvupósti 18. mars sl. við spurningum frá bæjarstjóra um ýmis atriði varðandi framkvæmd við móttöku flóttafólks frá Úkraínu.
  Auk svara ráðuneytisins bendir ráðuneytið á vefinn:
  https://www.mcc.is/fagfolk/

  Bæjarráð - 585
 • Lagt fram bréf Fellaskjóls um að matarverð hækki um 200 kr.

  Bæjarráð - 585 Bæjarráð samþykkir samhljóða að hækka gjaldskrá fyrir heimsendan mat sem þessari hækkun nemur og fari því úr 950 í 1150 kr.

  Í erindinu er jafnframt óskað eftir viðgerðum (holufyllingum) í innkeyrslu að Fellaskjóli. Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma þeirri beiðni áleiðis til áhaldahúss, til framkvæmdar.
 • Lagður fram til kynningar undirritaður samningur bæjarins við mennta- og barnamálaráðherra og UNICEF frá 11. mars 2022.
  Ennfremur til kynningar handbók um hlutverk umsjónarmanns og stýrihóps.

  Bæjarráð - 585 Bæjarstjóri sagði frá því að íþrótta- og tómstundafulltrúi vinni að undirbúningi vegna innleiðingar sveitarfélagsins á verklagi barnvænna sveitarfélaga. Meðal annars er unnið að því að fá börn og ungmenni í ungmennaráð, en skipa þarf viðbótarfulltrúa í það.
 • Lögð fram sjálfvirk skýrsla fyrir Grundarfjarðarbæ með lykiltölum frá Þjóðskrá, m.v. dagsetninguna 22. mars 2022.

  Sjá hér:
  https://storage.googleapis.com/a2p-v2-storage/4ddc5e33-c019-41f2-a623-bf638ac03d41

  Bæjarráð - 585 Í skýrslunni kemur m.a. fram að fjölgað hefur um 6 íbúa í sveitarfélaginu frá 1. desember 2021.
 • Lagður fram samningur Grundarfjarðarbæjar við Skátafélagið Örninn um fánaumsýslu fyrir bæinn 2021-2022.

  Bæjarráð - 585
 • Lögð fram til kynningar skýrsla (febrúar 2022) um reynslu og viðhorf kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum á Íslandi.


  Bæjarráð - 585
 • Lagt fram til kynningar minnisblað Sambandsins frá 22. febrúar 2022 um hækkun lífeyrisskuldbindinga sveitarfélaga.
  Bæjarráð - 585 Fram kemur að lífeyrisskuldbindingar margra sveitarfélaga vegna ársins 2021 hafa hækkað verulega. Rekja má hækkunina til (1) hækkunar launa, (2) breyttra forsendna um lífaldur og (3) hækkandi hlutar launagreiðenda.

  Breytingin leiðir til talsverðrar hækkunar lífeyrisskuldbindinga og ákvað fjármálaráðherra að heimila lífeyrissjóðum að innleiða hinar breyttu forsendur á næstu tveimur árum, þ.e. 2021 og 2022.
  Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga ákvað að nýta ekki heimild til frestunar á lokuðum sjóðum í hans umsjón. Sveitarfélögum gefst því ekki kostur á frestun og því ljóst að lífeyrisskuldbindingar munu hækka strax á árinu 2021.

  Ljóst er að hækkun lífeyrisskuldbindinga mun leiða til minni rekstrarafgangs margra sveitarfélaga.
 • Lagður fram til kynningar tölvupóstur Sambandsins til sveitarfélaga og kjörstjórna um undirbúning fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí nk., um breytingar á kosningalögum og um kynningarfundi.

  Bæjarráð - 585
 • Lagt fram til kynningar bréf Sambandsins um samráðs- og upplýsingafundi sem haldnir eru með sveitarstjórnarmönnum til undirbúnings stefnumótunarvinnu á landsþingi sambandsins í september 2022.

  Bæjarráð - 585
 • Lögð fram til kynningar samantekt frá morgunverðarfundi sem vátryggingarfélagið Sjóvá hélt 3. mars sl. um forvarnir sveitarfélaga.

  Upptöku fundarins má finna hér: https://www.youtube.com/watch?v=uoYtL28yZ1E

  Bæjarráð - 585
 • JÓK vék sæti áður en liðurinn var tekinn til afgreiðslu og yfirgaf fundinn þar sem þetta var síðasti dagskrárliðurinn.

  Lagt fyrir erindi Líkamsræktarinnar Grundarfirði þar sem sett er fram hugmynd um sameiginlega nýtingu Líkamsræktarinnar á sal Tónlistarskólans, fyrir spinningtíma sem eru hluti af starfsemi Líkamsræktarinnar. Innangengt er úr húsnæði því sem Líkamsræktin leigir og inní salinn.

  Einnig liggur fyrir umsögn skólastjóra grunn- og tónlistarskóla um nýtingu skólanna á rýminu.

  Bæjarráð - 585 Bæjarráð þakkar Líkamsræktinni fyrir erindið.

  Í ljósi upplýsinga skólastjóra um nýtingu rýmisins sér bæjarráð sér ekki fært að verða við erindinu.
  Bókun fundar Til máls tóku JÓK, GS og BÁ.

5.Bæjarráð - 586

Málsnúmer 2203003FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 586. fundar bæjarráðs.
 • Bæjarráð - 586 Lögð fram drög að viðmiðum um barngildi og mönnun sem og reglur um fáliðun á Leikskólanum Sólvöllum.

  Undir þessum lið sátu fundinn gegnum teams Gunnþór E. Gunnþórsson, ráðgjafi hjá Ásgarði, Heiðdís Lind Kristinsdóttir, leikskólastjóri, bæjarfulltrúarnir Hinrik Konráðsson, Rósa Guðmundsdóttir og Garðar Svansson, sem jafnframt er formaður skólanefndar og aðrir fulltrúar skólanefndar, þau Valdís Ásgeirsdóttir og Loftur Árni Björgvinsson, auk Sigríðar G. Arnardóttur, varabæjarfulltrúa.

  Kynning þessi er til undirbúnings umsagna bæjarráðs og skólanefndar og afgreiðslu bæjarstjórnar síðar í vikunni.

  Gunnþór, ráðgjafi hjá Ásgarði, fór yfir tilurð vinnu við setningu barngildisviðmiða og reglur um fáliðun á leikskólum. Með þessum tillögum er verið að skerpa á þeim viðmiðum sem unnið hefur verið eftir. Tillögurnar eru unnar með stjórnendum Leikskólans Sólvalla og eru þær hluti af frekari vinnu við að styrkja starf leikskólans.

  Skv. reglunum er gert ráð fyrir að grunnmönnun sé 8 börn á hvert stöðugildi. Að jafnaði skulu stöðugildi vera í takt við fjölda barna, en fjöldi barna á hvert stöðugildi fækkar með lækkandi aldri, en miðað er við 4 börn á hvert stöðugildi í yngsta aldurshópnum. Til viðbótar koma svo stöðugildi sem miða við stuðningsþarfir barna hverju sinni. Unnið er að verklagsreglum um sérkennslu og stuðning, sem verða lagðar fyrir á næstu vikum.

  Fáliðun telst þegar fáir starfsmenn eru við vinnu og viðmiðið er að fjöldi barna fari ekki yfir 8 á hvern starfsmann. Reglurnar gera grein fyrir því til hvaða úrræða skuli gripið ef fjöldi barna á hvert stöðugildi fer yfir grunnviðmið.

  Fram fór umræða fundarmanna um tillögurnar.

  Bæjarráð fagnar framlögðum og skýrum tillögum og leggur til við bæjarstjórn að þær verði samþykktar.

  Samþykkt samhljóða.
  Bókun fundar Til máls tóku JÓK og SGA.
 • Bæjarráð - 586 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
 • 5.3 2202005 Greitt útsvar 2022
  Bæjarráð - 586 Lagt fram bráðabirgðayfirlit yfir greitt útsvar. Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar lækkað um 1,3% miðað við sama tímabil í fyrra.
 • Bæjarráð - 586 Lögð fram tillaga um afskrift viðskiptakrafna Grundarfjarðarbæjar að fjárhæð 36.389 kr.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 586 Lögð fram til kynningar tillaga til þingsályktunar frá heilbrigðisráðherra um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

  Bæjarstjóra falið að gera umsögn um málið í samræmi við umræður á fundinum.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 586 Lagt fram til kynningar bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 25. mars sl., um viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka.
 • Bæjarráð - 586 Lagður fram til kynningar ársreikningur Hesteigendafélags Grundarfjarðar vegna ársins 2021.
 • Bæjarráð - 586 Lagður fram til kynningar ársreikningur Artaks ehf. vegna ársins 2021.

6.Skólanefnd - 161

Málsnúmer 2204003FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 161. fundar skólanefndar.
 • Gestir undir þessum dagskrárlið eru Heiðdís Lind Kristinsdóttir leikskólastjóri, Sigurborg Knarran Ólafsdóttir fulltrúi starfsfólks og Karítas Eiðsdóttir fulltrúi foreldra.

  Leikskólastjóri lagði fram minnispunkta sína.
  Einnig lá fyrir fundinum erindi leikskólastjóra um breytingu á skóladagatali, dags. 25. mars 2022, sem áður hafði verið samþykkt rafrænt af nefndarmönnum.

  Skólanefnd - 161 Leikskólastjóri fór yfir minnispunkta um starfsemi leikskólans.
  Eftirfarandi kom fram í minnispunktum hennar:

  Starfsmannamál og nemendur
  Starfið í vetur hefur falið í sér heilmiklar áskoranir. Covid og veikindi hafa sett strik í reikninginn, auk þess sem þó nokkrir starfsmenn eru í leyfi og hefur þurft að fá starfsfólk í afleysingar. Mönnun eldhúss hefur reynst umtalsverð áskorun.

  Nýr starfsmaður hefur störf í lok apríl og þá verður hægt að taka inn fjögur ný börn sem urðu/verða 12 mánaða í mars og apríl. Þá eru orðin ellefu börn á yngstu deildinni, músadeild. Þau hafa verið átta, en eitt barn færist nú yfir á ugludeild. Rýmið fyrir þau yngstu, sem búið var til með kerfisveggnum, hentar nú illa stærðarlega séð. Verið er að skoða fyrirkomulag og möguleika í rýminu.

  Starfið
  Í vetur hefur verið farið í íþróttahúsið og klifurhúsið þegar veður hefur leyft - og hefur það verið frábær viðbót við starfið. Elsta deildin hefur einnig verið að fara á bókasafnið undanfarið. Leikskólastjóri segir frábært að geta átt samstarf um þetta og að geta boðið upp á fjölbreytt starf.
  Leikskólastjóri er farin að huga að næsta vetri, hvernig húsnæðið hentar og árgangar eru samsettir.

  Faglegt starf og umbótavinna
  Spennandi vinna er í gangi við að byggja upp faglegt starf leikskólans eftir ákveðnum gæðaviðmiðum, en þar hefur verið unnið með skólaráðgjöfum frá fyrirtækinu Ásgarði, sem sérhæfir sig í skólaráðgjöf. Starfsdagur leikskólans þann 18. mars sl. var mjög vel heppnaður, þar sem farið var yfir grunnþætti menntunar og var hafin vinna við deildarnámskrár. Mikil ánægja er með að hefja þá vinnu og með að efla enn frekar faglega starfið.

  Leikskólastjóri gerði grein fyrir þeim verkefnum sem Ásgarður liðsinnir stjórnendum og starfsfólki nú með. Það eru verkefni sem felast í að rýna dagsskipulag skólastarfsins, en þá er starfið skoðað „tíma fyrir tíma“ yfir daginn. Fundið er út hvernig tíminn og mannauðurinn sé sem best nýttur í þágu skólastarfs barnanna. Út úr þeirri rýni vinnur starfsfólkið tillögur að mögulegum umbótum.
  Einnig er verið að endurskoða starfslýsingar, skoða verklýsingar, vinna við starfsáætlun næsta skólaárs, endurskoða námsskrána, auk þess sem deildarnámskrár eru í vinnslu núna eins og áður sagði.
  Einnig vinnur Ásgarður að því með stjórnendum að endurskoða fyrirkomulag og verklag sérkennslu og stuðnings. Sjá einnig næsta dagskrárlið.

  Heimasíða leikskólans
  Leikskólastjóri hefur lagt áherslu á að heimasíða leikskólans sé aðgengileg, snyrtileg og í sinni því hlutverki að vera handbók bæði foreldra og einnig starfsfólks: að öll þau gögn sem eiga að vera til séu aðgengileg þar inni. Í samráði við bæjarstjóra var ákveðið að fá tilboð og ganga til samnings við Stefnu um að setja upp nýjan vef fyrir leikskólann, og er hann í samræmi við vef bæjarins.
  Heimasíðan er gluggi inn í skólastarfið, og mikilvægur ekki síst fyrir fólk sem er að flytja t.d. í sveitarfélagið.

  Námsferð
  Starfsfólks leikskólans fer í námsferð á Akueyri dagana 26. - 28. maí nk. og er skipulagning í gangi. Ætlunin er að skoða aðra leikskóla, fræðast og fá innblástur. Starfsdagur leikskólans verður 27. maí og óskaði leikskólastjóri eftir breytingu á skóladagatali þannig að starfsdagur í byrjun júní færist til 27. maí.
  Vorgleði starfsmannafélags leikskólans verður einnig hluti af ferðinni þar sem starfsfólkið ætlar að gera sér dagamun og enda þennan vetur saman á gleðilegum nótum.

  Leikskólakennarar
  Á næstunni verður auglýst eftir starfsfólki fyrir næsta vetur, leikskólakennurum þá sérstaklega. Ánægjulegt er þó að það er að fjölga hjá okkur um einn leikskólakennara þegar Sigurborg útskrifast í vor og einnig er starfsfólk að ljúka fyrri áfanga í grunnnámi, sem er frábær þróun, segir leikskólastjóri.

  Heiðdísi var þakkað fyrir yfirferðina.

  Undir þessum dagskrárlið er einnig erindi leikskólastjóra frá 25. mars sl. þar sem hún óskar eftir að skólanefnd samþykki breytingu á skóladagatali, þannig að starfsdagur sem vera átti 3. júní 2022 verði 28. maí 2022. Með þeirri breytingu verður hægt að fara í endurmenntunar- og starfsmannaferð. Nefndarmenn höfðu áður samþykkt ósk leikskólastjóra rafrænt og er sú ákvörðun staðfest með bókun nú.

 • Undir þessum dagskrárlið sátu áfram sömu gestir og undir dagskrárlið nr. 1.

  Fyrir fundinum lá tillaga til umsagnar skólanefndar, um barngildisviðmið og mönnun, sem og reglur um fáliðun fyrir Leikskólann Sólvelli.

  Skólanefnd - 161 Formaður sagði frá því að í gær, á fundi bæjarráðs, hefðu bæjarfulltrúar og skólanefndarfulltrúar fengið kynningu Gunnþórs E. Gunnþórssonar, skólaráðgjafa hjá Ásgarði, en hann fór yfir tilurð vinnu við setningu barngildisviðmiða og drög að reglum um fáliðun á leikskólum. Með tillögum sem nú liggja fyrir er verið að skerpa á þeim viðmiðum sem unnið hefur verið eftir. Tillögurnar eru unnar með stjórnendum Leikskólans Sólvalla og hafa verið kynntar starfsfólki, og eru þær hluti af frekari vinnu við að styrkja starf leikskólans.

  Skv. reglunum er gert ráð fyrir að grunnmönnun sé 8 börn á hvert stöðugildi. Að jafnaði skulu stöðugildi vera í takt við fjölda barna, en fjöldi barna á hvert stöðugildi fækkar með lækkandi aldri, og er miðað við 4 börn á hvert stöðugildi í yngsta aldurshópnum.

  Til viðbótar koma svo stöðugildi sem miða við stuðningsþarfir barna hverju sinni. Unnið er að verklagsreglum um sérkennslu og stuðning, sem verða lagðar fyrir skólanefnd til umsagnar á næstu vikum.

  Fáliðun telst þegar fáir starfsmenn eru við vinnu og viðmiðið er að fjöldi barna fari ekki yfir 8 á hvern starfsmann og færri eftir því sem börnin eru yngri, sbr. það sem fyrr segir.
  Reglurnar gera grein fyrir því til hvaða úrræða skuli gripið ef fjöldi barna á hvert stöðugildi fer yfir grunnviðmið.

  Fram fór umræða fundarmanna um tillögurnar. Fram kom að reglurnar verði einnig kynntar fyrir foreldrum/forráðamönnum leikskólabarna.

  Skólanefnd fagnar framlögðum tillögum og þeirri vinnu sem fram hefur farið. Skólanefnd leggur til við bæjarstjórn að reglurnar verði samþykktar.


  Að lokinni umræðu um þennan lið véku gestir af fundi og var þeim þakkað fyrir komuna.

 • Lagt fram erindi mennta- og barnamálaráðherra frá 22. febrúar 2022 þar sem fram kemur að samræmd könnunarpróf verði ekki lögð fyrir á árinu 2022. Hafin sé vinna við hönnun Matsferils, nýrrar yerkfærakistu kennara og skóla. Matsferill mun innihalda fjölbreytt og hnitmiðuð verkfæri fyrir kennara, til nota í umbótaskyni, nemendum til hagsbóta. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að vorið 2022 liggi fyrir verkáætlun um innleiðingu Matsferils.
  Skólanefnd - 161
 • Lagt frá bréf mennta- og barnamálaráðuneytis frá 3. mars 2022, þar sem óskað er eftir góðu samstarfi við nemendur, starfsfólk grunnskóla, sveitarfélög og skólaþjónustu sveitarfélaga um þátttöku í PISA könnuninni sem framundan er.

  Skólanefnd - 161 Í bréfinu kemur eftirfarandi fram:

  "PISA er alþjóðleg könnun á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem mælir lesskilning 15 ára nemenda og læsi þeirra á stærðfræði og náttúruvísindi á þriggja ára fresti. Einnig fylgja ýmsir spurningalistar með PISA könnuninni sem gefa mikilvægar upplýsingar. PISA könnunin sem nær til yfir 80 þjóða er eina alþjóðlega samanburðarrannsóknin á frammistöðu menntakerfisins sem fram fer hér á landi."

 • Lagt fram fréttabréf SSV og erindi um "List fyrir alla".

  Einnig var rætt um að í gær rann út frestur til að sækja um styrk í Barnamenningarsjóð, en sótt er um til Rannís. Bæjarstjóri sagði frá því að Grundarfjarðarbær hefði sótt um styrk í Barnamenningarsjóð til að efla listgreinar í dagskrá sumarnámskeiðs fyrir börn í 1.-4. bekk.

  Skólanefnd - 161

7.Ársreikningur 2021 - Fyrri umræða

Málsnúmer 2204002Vakta málsnúmer

Jónas Gestur Jónasson, lögg. endurskoðandi og Marinó Mortensen, frá Deloitte, sátu fundinn undir þessum lið. Þeir fóru yfir helstu tölur í ársreikningi 2021 við fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Allir tóku til máls.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 1.316 millj. kr., en endurskoðuð áætlun gerði ráð fyrir 1.245 millj. kr. Rekstrartekjur vegna A-hluta námu 1.097 millj. kr. en áætlun gerði ráð fyrir 1.057 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 29,5 millj. kr., en rekstarafkoma A hluta var neikvæð um 38,7 millj. kr. Fjárhagsáætlun samstæðu með viðauka gerði ráð fyrir 14,0 millj. kr. jákvæðri niðurstöðu. Rekstrarafkoma ársins er því 15,5 millj. kr. betri en endurskoðuð áætlun gerði ráð fyrir.

Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins námu 1.884 millj. kr., en námu 1.883 millj. kr. árið 2020. Skuldaviðmið er 111,66% en var 119,37% árið 2020.

Eigið fé sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi var 963,9 millj. kr. í árslok 2021 og eiginfjárhlutfall var 32,24% en var 33,48% árið áður.

Veltufé frá rekstri í samanteknum ársreikningi var 180,8 millj. kr. og handbært fé í árslok 103,6 millj. kr., en var 135,3 millj. kr. árið áður.

Samþykkt samhljóða að vísa ársreikningi 2021 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

8.Skoðun á tekjum Grundarfjarðarbæjar

Málsnúmer 1808015Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að skýrslu SSV um úttekt á tekjuþróun bæjarins, sem Vífill Karlsson hefur unnið að. Úttektin snýr að mestu leyti að útsvari og þróun þess, sveiflum í útsvarstekjum, atvinnugreinaflokkun, áhrifum íbúafjölda o.fl., auk helstu tekjuforsendna. Í úttektinni eru framlög Jöfnunarsjóðs einnig skoðuð og þróun þeirra, sem og fasteignamat og þróun þess.
Allir tóku til máls.

Forseti leggur til að bæjarstjóra verði falið að ræða við Vífil um þau atriði sem fram komu í umræðu bæjarstjórnar svo unnt sé að ljúka skýrslunni.

Samþykkt samhljóða.

9.Kosning í nefndir skv. B lið 47. gr. samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar

Málsnúmer 1806014Vakta málsnúmer

Lagt til að þau Telma Fanný Svavarsdóttir, Dominik Wiszniewski og Páll Hilmar Guðmundsson verði kosin sem aðalmenn í ungmennaráð, skv. tillögu íþrótta- og tómstundafulltrúa.

Samþykkt samhljóða.

10.Samþykkt um stjórn Grundarfjarðarbæjar - Fyrri umræða

Málsnúmer 2201015Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að samþykkt um stjórn Grundarfjarðarbæjar ásamt breytingatillögum, til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Allir tóku til máls.

Helstu breytingar tengjast breytingum á heimildum vegna skipulags- og byggingafulltrúaembætta, breyting á öldungaráði vegna breyttra laga, ungmennaráð fari úr 3 í 5 fulltrúa skv. ákvörðun bæjarstjórnar fyrr á kjörtímabilinu, menningarnefnd fari úr 5 í 3 fulltrúa, auk þess sem gerðar eru lagfæringar sem leiða af lagabreytingum.

Samþykkt um stjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkt samhljóða og vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn.

11.Leikskólinn Sólvellir - Skipulag skólastarfs 2022

Málsnúmer 2203043Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um reglur með viðmiðum um barngildi og fáliðunarreglur fyrir Leikskólann Sólvelli.

Tillagan er unnin af stjórnendum Leikskólans Sólvalla, með aðstoð skólaráðgjafa frá Ásgarði, og hefur einnig verið kynnt og rædd með starfsfólki leikskólans.

Bæjarfulltrúar og skólanefndarfulltrúar fengu kynningu frá Ásgarði og leikskólastjóra, á vinnunni og tillögunum, á 586. fundi bæjarráðs þann 4. apríl sl.
Bæjarráð og skólanefnd hafa veitt jákvæðar umsagnir.

Auk þess átti bæjarstjórn góðan fund með starfsfólki leikskólans í gær um styrkingu leikskólastigsins og starfsumhverfis leikskóla, og er það hluti af uppbyggingarvinnu sem nú fer fram í leikskólanum.

Allir tóku til máls.

Reglur um barngildi og mönnun og um fáliðun samþykktar samhljóða.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að ræða við skólastjóra um aðlögun reglnanna að starfsemi leikskóladeildarinnar Eldhamra, sem síðan verði rætt í skólanefnd.

Samþykkt samhljóða.

12.Ályktun um viðhald þjóðvega á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2009014Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lágu gögn um ástand þjóðvega og fjárhæðir sem ætlaðar eru til viðhalds þjóðvega á Vesturlandi.
Forseti lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum af lélegu og síversnandi ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á innviðaráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að tryggja fjármagn til nauðsynlegs viðhalds á þjóðvegum á Vesturlandi, sér í lagi á þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi og þjóðvegi 56 um Vatnaleið.

---

Í ályktun bæjarstjórnar um ástand vegamála frá 10. september 2020 var að finna eftirfarandi lýsingu:

Ástand þjóðvegar 54, frá Borgarnesi, um Mýrar og vestur eftir Snæfellsnesi, er mjög bágborið.
Sig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og vestan Vegamóta er vegurinn of mjór. Á kafla vestan þéttbýlis Grundarfjarðar eru vegkantar einnig lélegir og þarfnast styrkingar. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál. Sama á við um þjóðveg 56 um Vatnaleið.

Verulega aukin umferð á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til Vegagerðarinnar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og öryggi vegfarenda sé tryggt.

---

Framangreind lýsing er því miður enn í fullu gildi og ljóst er að ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar eru eftirfarandi fjárhæðir áætlaðar í viðhald þjóðvega á Vesturlandi og Vestfjörðum árið 2022:

I. Viðhald bundin slitlög: 897 m.kr. sem skiptist með eftirfarandi hætti:
- Malbik 145 millj. kr., en í malbik væri nauðsynlegt að setja 300-400 m.kr árlega til þess að halda í horfinu og byrja á nýjum malbiksköflum.
- Klæðingar; yfirlagnir 375 og blettanir 165 millj.kr., en þörfin fyrir yfirlagnir er þó tvöfalt meiri, eða 750-800 m.kr árlega einungis til þess að halda ástandinu í horfinu.
- Aðrar viðgerðir (holur, kantar og hjólför o.fl.) 212 m.kr.

II. Styrkingar og endurbætur: 370 millj.kr.
- Lagfæringar á „hoppum“ og öðrum hættulegum stöðum.
- Endurbætur á vegum sem eru aflagðir
- Styrkingar malarvega
- Fjármagn í „skilavegi“

Samtals 1.267 millj.kr.

Meðal brýnustu og mest aðkallandi verkefnanna í styrkingum og endurbótum sem bíða á Snæfellsnesi eru Snæfellsnesvegur 54, um Kaldármela (150 m.kr), Snæfellsnesvegur 54 um Skjálgarhraun (160 m.kr) og Stykkishólmsvegur 58: festun (310 m.kr). Mörg verkefni á bilinu 60 -200 m.kr er einnig orðið virkilega aðkallandi að ráðast í.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar bendir á að yfirlagnir eru gríðarlega mikilvægar til að viðhalda góðu yfirborði vega og tryggja að yfirborð springi ekki eða aflagist. Þegar ekki næst að halda við yfirborði vega með klæðingu eða malbiki er hætta á að þeir brotni niður og verði það lélegir að frekari aðgerða sé þörf, með styrkingum og endurbótum. Sú er orðin raunin með stóra kafla á framangreindum vegum og er þörf fyrir fjármagn í allra brýnustu verkefnin, til styrkinga og endurbóta, áætluð um 5-6 milljarðar kr. Þær fjárhæðir miðast einungis við verulega aðkallandi viðgerðir, þ.e. á vegaköflum sem eru mjög illa farnir, ónýtir eða jafnvel hættulegir vegfarendum. Fjölmörg slík verkefni bíða og þokast hægt áfram, eins og ganga má út frá þegar fjármagn til styrkinga og endurbóta er einungis um 6% af því sem áætlað er að þurfi í brýnustu verkefnin.

Samþykkt samhljóða.

13.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Umsagnarb.rek.G.II-Kirkjufell Central, Hrannarstíg 5

Málsnúmer 2204004Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Sýslumannsins á Vesturlandi um umsögn við umsókn Óla smiðs ehf. um leyfi til að reka gististað í flokki II, sem rekinn verður sem Kirkjufell Central, að Hrannarstíg 5.

Fyrir liggja jákvæðar umsagnir slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að umbeðið leyfi verði veitt.

Samþykkt samhljóða.

14.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Ums.b. breyting rekstrarleyfis GII-GIV-Dísarbyggð, Þórdísarstöðum, 350 Grundarf.

Málsnúmer 2203002Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Sýslumannsins á Vesturlandi um umsögn við breytingu á umsókn Dísarbyggðar ehf. um leyfi til að reka gististað í flokki II, frístundahús, sem rekinn er sem Dísarbyggð, Þórdísarstöðum.

Fyrir liggja jákvæðar umsagnir slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa.
Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að umbeðið leyfi verði veitt.

Samþykkt samhljóða.

15.Jeratún - Fundargerð stjórnarfundar og ársreikningur 2021

Málsnúmer 2203058Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 64. fundar stjórnar Jeratúns ehf. sem haldinn var 30. mars sl. ásamt ársreikningi 2021.

16.Félagsmálanefnd Snæfellinga - Fundargerð 199. fundar

Málsnúmer 2203034Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 199. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga sem haldinn var 16. febrúar sl.

17.SSV - Ársreikningur og ársskýrsla 2021

Málsnúmer 2203032Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar gögn frá aðalfundi SSV sem haldinn var 16. mars sl., ársskýrsla og ársreikningur 2021.

18.Sorpurðun Vesturlands - Ársreikningur 2021 og Grænt bókhald

Málsnúmer 2203040Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar gögn frá aðalfundi Sorpurðunar Vesturlands hf. sem haldinn var 16. mars sl., skýrsla um grænt bókhald og ársreikningur félagsins 2021.

19.Samband íslenskra sveitarfélaga - Nýr kjarasamningur við Félag grunnskólakennara

Málsnúmer 2203057Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit yfir helstu atriði nýs kjarasamnings við Félag grunnskólakennara sem undirritaður var 10. mars sl.

20.Samband íslenskra sveitarfélaga - Bókun stjórnar sambandsins um innleiðingu barnaverndarlaga

Málsnúmer 2203054Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga til mennta- og barnamálaráðherra, dags. 25. febrúar sl., þar sem stjórn sambandsins óskaði eftir frestun á gildistöku barnaverndarlaga.

Einnig lagt fram til kynningar bréf sambandsins, dags. 30. mars sl., um innleiðingu barnaverndarlaga. Þar kemur fram að: "Stjórnin lýsir ánægju með að ráðherra hefur fallist á að fresta gildistöku ákvæða í lögunum sem fjalla um barnaverndarþjónustu og umdæmisráð, en leggur jafnframt áherslu á að sá frestur sem veittur er nýtist til að skipuleggja fyrirkomulag umdæmisráða.“

21.Samband íslenskra sveitarfélaga -Fundargerð 908

Málsnúmer 2203049Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 908. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var 25. mars sl.

22.VÍS - Forvarnarráðstefna og upptökur

Málsnúmer 2203051Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar upptökur af erindum frá Forvarnarráðstefnu VÍS, sem haldin var 28. mars sl. Bæjarstjóri var með erindi á ráðstefnunni.

https://vis.is/forvarnaradstefna-vis-2022/

23.EBÍ - Styrktarsjóður EBÍ

Málsnúmer 2203055Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf EBÍ Brunabótar, dags. 24. mars sl., um styrktarsjóð EBÍ 2022. Grundarfjarðarbær fékk styrk 2021 og á því ekki kost á að fá styrk í ár.

24.Verkefnið Römpum upp Ísland

Málsnúmer 2203050Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi stjórnar átaksins "Römpum upp Ísland" um aðgengismál og styrki til að bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða á fjölförnum stöðum í þéttbýli á landsbyggðinni. Erindið er sent sveitarfélögum til kynningar.

Bæjarstjórn felur umhverfis- og skipulagssviði að skrá sveitarfélagið til þátttöku í verkefninu Römpum upp Ísland og kanna með hugsanlega styrki til að framkvæma úttekt á aðgengismálum í eða við opinberar byggingar og mannvirki í sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða.

25.Þjóðskrá - Upplýsingar um rafræna afhendingu kjörskrár

Málsnúmer 2204007Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Þjóðskrár, dags. 1. apríl sl., um afhendingu kjörskrár, sem afhent verður með rafrænum hætti eins og kveðið er á um í kosningalögum nr. 112/2021.

Viðmiðunardagur vegna útgáfu kjörskrár er miðvikudagurinn 6. apríl. Gert er ráð fyrir að senda gögnin rafrænt til sveitarfélaga dagana 7. og 8. apríl.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:59.