Málsnúmer 2204008F

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 260. fundur - 03.05.2022

Fundargerð hafnarstjórnar lá ekki fyrir við boðun bæjarstjórnarfundar, en boðað var að hún kæmi til afgreiðslu fundarins.
Bæjarstjórn þakkar fundargerðina og tekur undir þakkir og kveðjur til fráfarandi fulltrúa í hafnarstjórn og til hafnarstjóra og hafnarstjórnar fyrir góðan rekstur.

  • Ársreikningur Grundarfjarðarhafnar 2021 lagður fram.
    Hafnarstjórn - 18 Samkvæmt ársreikningnum eru heildartekjur 141 millj. kr., en árið 2020 voru tekjurnar 97 millj. kr.

    Laun og önnur rekstrargjöld voru tæpar 63 millj. kr., en voru tæpar 62 millj. kr. árið 2020. Þar af var viðhald fasteigna 3,9 millj. kr. samanborið við 15,7 millj.kr. árið 2020. Afskriftir fastafjármuna eru rúmar 12 millj. kr., samanborið við 9,5 millj. kr. árið 2020. Að teknu tilliti til fjármagnsgjalda að fjárhæð 0,25 millj. kr. er rekstrarniðurstaða hafnarsjóðs jákvæð um rétt tæpar 66 millj. kr. árið 2021, en var jákvæð um 25,4 millj. kr. árið 2020.

    Fjárfest var fyrir tæpar 42 millj. kr. árið 2021, en fyrir 133,5 millj. kr. árið 2020 og 121,3 millj. kr. árið 2019, eða samtals fyrir um 297 millj. kr. síðustu þrjú árin.

    Þrátt fyrir þessar miklu fjárfestingar er höfnin skuldlaus frá og með mars 2022.

    Ársreikningur Grundarfjarðarhafnar 2021 samþykktur samhljóða af hafnarstjórn.

    Hafnarstjórn lýsir ánægju með góða niðurstöðu ársins 2021.

    Hafnarstjórn þakkar hafnarstjóra trausta og góða stjórnun hafnarinnar.
  • Farið var yfir stöðu hafnarframkvæmda og helstu verkefna. Hafnarstjórn - 18 Hafnarstjórn lýsir ánægju með áhrif þeirra miklu hafnarframkvæmda sem höfnin hefur staðið fyrir undanfarin ár, með 130 metra lengingu Norðurgarðs.
    Með lengingunni er dýpi á stórstraumsfjöru orðið um 10 metrar og þannig er hægt að taka á móti stærri og djúpristari skipum en áður.

    Við framkvæmdina skapaðist einnig tæplega 5.000 m² nýtt athafnasvæði, til viðbótar við athafnasvæðið sem var um 4.200 m².

    Framkvæmdin hefur skilað sér hratt, í auknum umsvifum og tekjum, fyrir höfn og þjónustufyrirtækin við höfnina - mun hraðar en hafnarstjórn áætlaði.

    Búið er að kaupa nýja flotbryggju, breiðari og lengri, í stað eldri, sem verður seld. Nýja flotbryggjan er 30x4 metrar en sú gamla er 24x3 metrar. Með stærri flotbryggju er skapað meira öryggi fyrir gesti skemmtiferðaskipa, sem koma á léttabátum frá skipum sem liggja við ankeri á ytri höfn.

    Almenna umhverfisþjónustan vinnur nú við að brjóta upp elsta hluta þekjunnar á Grundarfjarðarhöfn en hluti hennar var farinn að síga töluvert og kominn tími á endurnýjun. Skipt verður um raflagnir í leiðinni en nýjar og stærri lagnir verða lagðar í raftengikassa fyrir skipin.

  • Formaður kynnti að búið er að semja við Eflu um að annast endurskoðun deiliskipulags hafnarsvæðis á Framnesi austan Nesvegar og er sú vinna hafin.
    Auk þess er í undirbúningi vinna við deiliskipulag Framness og annast Efla ennfremur skipulagsráðgjöf þar.
    Skipulagsfulltrúi hefur umsjón með verkefninu og mun hafnarstjórn hafa aðkomu að því vegna hafnarsvæðisins.

    Hafnarstjórn - 18
  • Fram kom að í sumar eru bókaðar 43 komur skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðarhafnar og að tekjur hafnar af skemmtiferðaskipum verða nú um 33% heildartekna, þrátt fyrir mikla aukningu tekna af þjónustu við fiskiskip.

    Hafnarstjórn - 18 Lagt var fram yfirlit hafnarstjóra um komur skemmtiferðaskipa í Grundarfjarðarhöfn frá árinu 2002.

    Fjöldi skipa hefur aukist síðustu árin og tekjur hafnarinnar sömuleiðis. Þjónusta við skemmtiferðaskip kemur til yfir sumarið, þegar minnst hefur verið að gera í löndunum og þjónustu við fiskiskipin. Þannig nýtast hafnarmannvirki og mannskapur vel, án þess að skarast að ráði við þjónustuna við fiskiskip. Skemmtiferðaskipin hafa því leitt af sér aukna arðsemi hafnarmannvirkja og aðstöðu, og auknar tekjur og styrkingu hafnarsjóðs sem getur á móti veitt enn betri þjónustu. Auk þess hafa skipin þýtt atvinnutækifæri fyrir fólk á svæðinu, því fjöldi fólks á Snæfellsnesi vinnur við að þjónusta skip og gesti - sem fara í ferðir um allt Snæfellsnes.

    Árið 2020 komu engin skip vegna Covid og árið 2021 voru komur skemmtiferðaskipa alls 31 talsins. Árið 2019 var síðasta ár fyrir Covid og voru komur skemmtiferðaskipa þá 50 talsins, samtals uppá 787.110 brúttótonn og var farþegafjöldi 17.681 manns. Áætlaður heildarfjöldi annarra gesta á Snæfellsnesi það ár var um 6-900.000 manns.

    Í ár eru bókaðar 43 komur skemmtiferðaskipa, samtals uppá 1906 þús. brúttótonn og með um 50.000 farþega.

    Sumarið 2023 eru nú þegar bókaðar 54 komur skemmtiferðaskipa, samtals uppá 2.330 brúttótonn og með áætlaðan gestafjölda 65.000 manns. Tekjur hafnar af þeim skipum gætu numið um 70 millj. kr. m.v. verðlag og gjaldskrá í dag.

    Hafnarstjórn ræddi um þá þjónustuþætti hjá höfninni sem tengjast auknum komum skipanna og því að skipin eru stærri. Vilji hafnarstjórnar er að höfnin gæti vel að því hvernig skip og gestir eru þjónustaðir, að upplifun gesta sé ánægjuleg og að aðstaðan til móttöku gesta mæti kröfum þeirra. Auk þess sé mikilvægt að samfélagið takist á við verkefnið af jákvæðni, en ljóst er að aukinn gestafjöldi mun hafa áhrif í samfélaginu.

    Í komum skemmtiferðaskipa felast jafnframt atvinnutækifæri fyrir íbúa og þjónustufyrirtæki í bænum og svæðinu öllu, til að veita þjónustu og afþreyingu og mikilvægt er að íbúar þekki og nýti tækifærin sem felast í ferðaþjónustu af þessu tagi.
  • Lögð fram til kynningar fundargerð 443. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands frá 1. apríl 2022.
    Hafnarstjórn - 18
  • Lagður fram til kynningar tölvupóstur Samgöngustofu til hafnarstjóra íslenskra hafna, frá 12. apríl sl.

    Fram kemur að utanríkisráðuneytið vinni nú að innleiðingu á þvingunarráðstöfunum vegna rússneskt skráðra skipa, þannig að skipin megi ekki koma til hafna á Íslandi.
    Umræddar þvingunarráðstafanir hafa þegar verið birtar í eftirfarandi Evrópugerðum:
    Sjá grein 4ha hér: http://data.europa.eu/eli/dec/2022/578/oj
    Sjá grein 3ea hér: http://data.europa.eu/eli/reg/2022/576/oj

    Ennfremur segir að frekari upplýsingar komi þegar ferlið verður lengra komið og gerðirnar komnar í birtingu hér á landi.

    Hafnarstjórn - 18