Málsnúmer 2206011

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 237. fundur - 28.06.2022

Sótt er um leyfi til þess að byggja um 17 m2 búningsklefa og gufubað úr timbri á Berserkseyrarodda. Undir sama þaki, en í sjálfstæðri byggingu, er 8,5 m2 dæluskúr, sem áður hafði verið gefið leyfi fyrir. Samtals er byggingarmagn undir sama þaki 25,5 m2.

Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er framkvæmdasvæðið skilgreint sem iðnaðarsvæði (I-2) með hitaveitu (H). Svæðið er einnig friðlýst vegna æðarvarps sem þar er.

Samkvæmt aðalskipulaginu er gert ráð fyrir að í framtíðinni verði hægt að virkja jarðhitann sem þar er að finna og talin rík ástæða til að gera ráð fyrir framkvæmdum og starfsemi tengdri virkjun jarðhitans þ.m.t. dælu- og stjórnstöð, borholuhúsi á vinnslusvæði og legu fyrir heitavatnslögn/aðveituæð sem geti þjónað þörfum þéttbýlisins fyrir heitt vatn. Það er einnig vilji sveitarfélagsins að haldið verði áfram rannsóknum á jarðhita í sveitarfélaginu svo unnt verði að byggja upp hitaveitu í framtíðinni þ.m.t. á Berserkseyraroddi, eins og segir í greinargerð aðalskipulagsins.
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd á Berserkseyraodda og felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarheimild að öllum skilyrðum uppfylltum, sbr. 2.3.8. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 með síðari breytingum og að fenginni staðfestingu á því að fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við heimildir í samningi landeigenda við rétthafa vatns/jarðhitaréttinda á svæðinu. Jafnframt felur nefndin byggingarfulltrúa að óska eftir afstöðumynd sem sýnir glöggt að mannvirkin fari ekki inn á afmarkað svæði menningarminja.

Nefndin beinir einnig þeim tilmælum til landeiganda að það er með öllu óheimilt að hefja framkvæmdir án tilskilinna leyfa.